Danski hagfræðingurinn Otto Brøns-Petersen, sem var lengi ráðgjafi danskra mið-hægri-stjórna og aðstoðarráðuneytisstjóri í Skattamálaráðuneytinu, talaði á fundi í Reykjavík 25. júní 2024 um „Efnahagsumbætur í Danmörku“. Hann benti á, að danska hagkerfið hefði náð góðum árangri síðustu áratugi. Árið 2022 var landsframleiðsla á mann hin fimmta mesta í heimi, verðbólga lág og atvinnuleysi lítið, jafnframt því sem hreinar skuldir ríkissjóðs hefðu verið greiddar upp. En árangurinn hefði ekki náðs vegna sósíalisma, heldur þrátt fyrir hann. Danmörk hefði verið vel stætt land, löngu áður en velferðarríkið var stofnað, og sannleikurinn var sá, að stofnun velferðarríkisins hefði haft í för með sér erfiðleika og jafnvægisleysi á mörgum sviðum, sem Danir hefðu þurft að glíma við. Danir byggju við fimmta frjálsasta hagkerfi í heimi samkvæmt frelsisvísitölu Fraser stofnunarinnar í Vancouver í Kanada og hið fimmta frjálsasta á Norðurlöndum, en Ísland er næst þeim á því svæði. Brøns-Petersen lýsti því, hvernig jafnaðarmenn hefðu ráðið mestu á tímabilinu frá því á fjórða áratug og fram á hinn níunda. Hins vegar hefði myndast almennt samkomulag á níunda áratug hjá öllum öðrum en öfgavinstrimönnum um, að Danmörk hefði gengið of langt í átt til sósíalisma. Mið-hægri stjórn Pouls Schlüters hefði framkvæmt margar nauðsynlegar umbætur árið 1982–1992, og önnur mið-hægri stjórn, sem Anders Fogh-Rasmussen veitti forystu, hefði gert hið sama árin 2001–2009. Gengi dönsku krónunnar var fest; fjárlagahalla var eytt; vinnumarkaðurinn varð sveigjanlegri; einkalífeyrisreikningar voru leyfðir; reglur um húsaleigu voru mildaðar; fyrirtæki voru seld; reglur um almannaveitur urðu frjálslegri; frelsi jókst á fjármálamarkaði; og skattahækkanir voru stöðvaðar. Þessar umbætur örvuðu hagvöxt, og jafnaðarmenn hurfu ekki aftur til sinnar gömlu stefnu, þegar þeir náðu völdum. Þrátt fyrir þetta biðu mörg verkefni í framtíðinni, einkum vegna hárra skatta og aukinnar miðstýringar á ýmsum sviðum fyrir áhrif Evrópusambandsins.
Glærur Brøns-Petersen í Reykjavík
Hannes H. Gissurarson, prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands, stjórnaði fundinum, og voru fjörugar umræður á eftir erindi Brøns-Petersens. Hannes og Brøns-Petersen eru báðir félagar í Mont Pelerin samtökunum, hinu alþjóðlega málfundafélagi frjálslyndra fræðimanna, sem Friedrich A. von Hayek stofnaði í Sviss í apríl 1947. Hannes birti grein fyrir fundinn um Danmörku sem frjálst land, sem hinn þjóðlegi frelsissinni Nikolaj F. S. Grundtvig hefði mótað, en Grundtvig var aðdáandi og þýðandi íslenska sagnritarans Snorra Sturlusonar.
Fundurinn með Brøns-Petersen fylgdi á eftir ársfundi RSE, Rannsóknarmiðstöðvar um samfélags- og efnahagsmál. Þar var Halldór Benjamín Þorbergsson, forstjóri fasteignafélags, kjörinn formaður, en aðrir í stjórn eru Halla Sigrún Mathiesen, sérfræðingur í banka, Einar Sigurðsson fjárfestir, dr. Birgir Þór Runólfsson, forseti hagfræðideildar Háskóla Íslands, og Ragnar Árnason, prófessor emeritus í fiskihagfræði í Háskóla Íslands.