Hannes: Menntamenn andvígir markaðnum

Hannes H. Gissurarson, prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands, var gestur Frosta Logasonar í hlaðvarpi hans 11. maí 2023. Hann var meðal annars spurður, hvers vegna menntamenn væru flestir andvígir frjálsum markaði. Hannes svaraði, að margar skýringar hefðu verið nefndar á því. Sé gert ráð fyrir, að hæfileikum sé skipt jafnt milli hægri og vinstri manna, sé sá munur á, að hægri sinnaðir hæfileikamenn leggi fyrir sig viðskipti eða verði læknar, lögfræðingar og verkfræðingar, en vinstri sinnaðir hæfileikamenn gerist kennarar eða fjölmiðlamenn. Hægri menn hafi áhuga á verkum, vinstri menn á orðum. Hæfileikar hægri manna séu hagnýts eðlis, en vinstri menn bóklegs. Hægri menn séu sáttir við lífið og reyni þess vegna ekki að frelsa heiminn, en vinstri menn iðulega óánægðir mælskugarpar í leit að nýjum draumum, eftir að þeir gömlu hafi brostið.

Margar fleiri skýringar séu til á þessum halla, sagði Hannes. Ludwig von Mises hafi varpað fram þeirri tilgátu, að vinstri sinnaðir menntamenn séu andvígur frjálsum markaði, af því að þeir sjái fram á, að lítil eftirspurn sé þar eftir þjónustu þeirra. Þeir hafni markaðnum, af því að markaðurinn hafni þeim. Robert Nozick hafi viðrað skylda tilgátu, sem sé, að í skólum hafi hæfileikar vinstri sinnaðra orðasmiða notið sín, þeir hafi þar verið ofarlega í virðingarstiganum, því að þeir hafi kunnað að koma fyrir sig orði. En þegar komi út í lífið sjálft, sé skyndilega allt annar virðingarstigi algengastur, þar sem þeir lendi fremur neðarlega. Bekkjarfélaginn, sem hafi ekki tekið hæstu prófin, lært ljóð utan að og þulið eða fengið flestar stjörnur hjá kennaranum í vinnubókina sína, sé orðinn eftirsóttur rafvirki með miklu hærri laun. Þetta finnist orðasmiðunum hið argasta ranglæti. Friedrich A. von Hayek hafi sett fram þriðju tilgátuna, og hún sé, að margir menntamenn geti ekki ímyndað sér, að fyrirbæri geti sprottið upp, án þess að einhver gáfumaður hafi lagt á ráðin um þau. Þeir haldi, að öll þekking sé bókleg og rökleg, en margvísleg þekking sé það einmitt ekki. Til sé hagnýt þekking og kunnátta, sem búi í einstaklingum og sé ekki færanleg á milli þeirra. Mannlífið geti verið skipulegt án þess að vera skipulagt.

Hannes sagði frá því, að málþing yrði haldið honum til heiðurs 12. maí vegna starfsloka hans, og myndu þar margir tala, þar á meðal prófessorarnir Þráinn Eggertsson, Þór Whitehead og Ragnar Árnason, Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og nokkrir gestir frá útlöndum, þau Gabriela von Habsburg, dr. Barbara Kolm, dr. Tom Palmer og prófessor Stephen Macedo.

Comments are closed.