Hannes: Háskólar á Vesturlöndum hafa brugðist

Hannes H. Gissurarson, prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands, var gestur Gísla Freys Valdórssonar í hlaðvarpi Þjóðmála 4. mars 2024. Kvað hann háskóla á Vesturlöndum því miður hafa fjarlægst upphaflegan og eðlilegan tilgang sinn, sem væri að vera vettvangur frjálsrar rannsóknar og rökræðu, ekki vakningarsamkoma eða kórsöngur. Þeir væru orðnir vígi afturköllunarfárs (cancel culture) og vælumenningar (wokeism) og hefðu snúið baki við hina besta í vestrænni menningu, vísindum sem frjálsri samkeppni hugmynda, virðingu fyrir skoðunum annarra, því umburðarlyndi, sem gerði greinarmun á samþykki og þoli. Hannes rifjaði upp, þegar hann rak haustið 1984 ólöglega útvarpsstöð í samstarfi við nokkra félaga sína í því skyni að mótmæla einokun ríkisins á útvarpsrekstri. Hlaut hann dóm fyrir, sem hann sagðist vera stoltur af. Hannes sagði líka frá ferðalögum sínum síðustu misseri, fyrirlestrum og bókum, útgefnum jafnt og fyrirhuguðum. Árið 2020 gaf New Direction í Brüssel út tveggja binda verk hans um tuttugu og fjóra frjálslynda íhaldsmenn allt frá Snorra Sturlusyni til Roberts Nozicks, en lengstu kaflarnir voru um Friedrich A. von Hayek og Milton Friedman, en Hannes kynntist þeim báðum vel. Nú væri eitt helsta rannsóknarefni hans frjálshyggjuarfur Norðurlanda.

Comments are closed.