Gary Libecap, einn kunnasti auðlindahagfræðingur heims, flutti erindi í hátíðasal Háskóla Íslands laugardaginn 21. október 2023 um auðlindanýtingu og eignaréttindi. Hann leiddi almenn rök að einkaeignarrétti á auðlindum, þar sem þeim yrði við komið. Auðvelt væri að mynda einkaeignarrétt á landi og kvikfénaði með girðingum og merkingum, en flóknara og þó framkvæmanlegt að mynda einkaeignarrétt á ám og vötnum, vatnslindum og olíulindum, gull- og kolanámum og fiskistofnum. Þegar takmarka þyrfti aðgang að auðlindum, sem áður hefðu verið samnýtt, væri svokölluð „afaregla“ (grandfathering) oftast hagkvæm, en þá væri einstaklingsbundnum eignaréttindum úthlutað til þeirra, sem stundað hefðu nýtinguna, í réttu hlutfalli við nýtingu þeirra. Þá yrði minnsta röskunin á högum þeirra, jafnframt því sem þeir væru ólíklegir til að berjast gegn slíkri breytingu. Í sjávarútvegi, sem Íslendingar hefðu að vonum mestan áhuga á, fæli þetta í sér, að aflaheimildum í fiskistofnum væri upphaflega úthlutað eftir aflareynslu til þeirra, sem stundað hefðu veiðar í þessum fiskistofni, eins og einmitt hefði verið gert, þegar kvótakerfi var tekið upp. Hannes H. Gissurarson, prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands, birti grein um framlag Libecaps og afaregluna í Morgunblaðinu 19. október 2023.
Í viðtali við Morgunblaðið 1. nóvember 2023 ræddi Libecap um rannsóknir sínar, meðal annars muninn á traustum námuréttindum í Bandaríkjunum annars vegar og ótraustum námuréttindum í sumum ríkjum Rómönsku Ameríku hins vegar, vinnslu olíu og gass, nýtingu auðlinda í Amasón-skóginum, veiðar á villtum fiski í hafi og ferskvatni og nýtingu vatnslinda á þurrum svæðum. Hann kvað íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið almennt talið eitt hið hagkvæmasta í heimi. Ragnar Árnason, prófessor í fiskihagfræði, nyti mikillar virðingar á alþjóðavettvangi fyrir framlag sitt til rannsókna á auðlindanýtingu. Libecap sagði enga hættu á auðlindaþurrð, enda hefðu hrakspár höfunda Endimarka vaxtarins (The Limits to Growth) síður en svo ræst.