Hannes: Fjölskyldan miðlar þekkingu milli kynslóða

Hannes H. Gissurarson, prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands, talaði á ráðstefnu um fjölskylduna, sem ECR, European Conservatives and Reformists Party, flokkur evrópskra íhaldsmanna og umbótasinna, hélt í Dubrovnik í Króatíu 18. október 2024. Hann rifjaði upp, að Aristóteles hafði í Mælskulistinni gert greinarmun á viðhorfum æskumanna, sem einkenndust af vonum, og öldunga, sem einkenndust af minningum. Fyrri hópurinn fitjaði upp á nýjungum, reyndi að breyta draumum í veruleika, síðari hópur tryggði festu, samfellu og stöðugleika. Hannes benti á, að fleiri rosknir borgarar kysu hlutfallslega í kosningum en æskumenn, jafnframt því sem hlutfall þeirra af heildinni hefði vaxið vegna hækkandi meðalaldurs. Það væri hins vegar rangt að líta á þá sem byrði. Þeir hefðu margt fram að færa, jafnt sem framleiðendur og neytendur. Þeir gætu verið þátttakendur, ekki aðeins áhorfendur.

Mateusz Morawiecki talar.

Hannes ræddi líka um greiningu fræðimanna á fjölskyldunni. Hún væri hagkvæmari neyslueining en einstaklingurinn og vettvangur sjálfvalinnar verkaskiptingar milli kynjanna. Fjölskyldan bætti tímavíddinni við lífið á tvo vegu: tengingu til fortíðar með uppeldi barna og ögun við hefðbundin gildi (stundvísi, vinnusemi, hreinlæti og svo framvegis) og tengingu til framtíðar með umhyggju fyrir afkomendum og vilja til að búa í haginn fyrir þá. En umfram allt gæddi fjölskyldan þó lífið tilgangi og merkingu. Menn væru ekki aðeins einstaklingar án tengsla við aðra, heldur líka feður og synir, mæður og dætur. Það auðveldaði mönnum að sætta sig við lífið og leita jafnvel hamingjunnar, hefðu þeir bundist öðru fólki böndum innan einhvers hóps, og mikilvægasti slíki hópurinn væri fjölskyldan, en síðan væru einnig mikilvægir söfnuðir, einkaskólar, íþróttafélög, stjórnmálaflokkar, margvísleg áhugamannasamtök og samlög, þjóðin og arfleifð hennar og ótal aðrar sjálfsprottnar einingar milli einstaklingsins með réttinn til að velja og ríkisins með réttinn til valdbeitingar. Í því sambandi minnti Hannes á, að væntanleg væri eftir hann bók, þar sem hann lýsti kenningum danska skáldsins og kennimannsins Nikolajs Grundtvigs, sem hefði verið þjóðlegur frjálshyggjumaður.

Á meðal annarra ræðumanna á ráðstefnunni voru Mateusz Morawiecki, fyrrverandi forsætisráðherra Póllands, Eugenia Roccella, ráðherra fjölskyldu- og jafnréttismála á Ítalíu, Ante Šušnjar, efnahagsmálaráðherra Króatíu, og margir þingmenn á Evrópuþinginu og á þingum ýmissa Evrópulanda. Á dagskrá ráðstefnunnar voru líka tvær ferðir. Önnur var í vínhéraðið Konavle suður af Dubrovnik, þar sem ráðstefnugestir gæddu sér á vínum héraðsins. Hin var sigling um Adríahaf á seglskútu eins og þeim, sem smíðaðar voru í Dubrovnik, á meðan borgin var sjálfstætt lýðveldi frá 1358 til 1808, en myndin hér sýnir slíka skútu: 

Comments are closed.