Vel heppnuð stúdentaráðstefna

Samtök frjálshyggjustúdenta í Evrópu, Students for Liberty Europe, héldu ásamt ýmsum öðrum aðilum ráðstefnu 12. október 2024 í Háskólanum í Reykjavík kl. 14–18 um „Markaði og frumkvöðla“. Tókst hún hið besta. Anton Sveinn McKee, sem hefur fjórum sinnum keppt á Olympíuleikum fyrir Íslands hönd, en er nú formaður samtaka ungra miðflokksmanna, var ráðstefnustjóri. Hann kynnti fyrst Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, þingmann Sjálfstæðisflokksins og ráðherra háskóla, nýsköpunar og iðnaðar, sem mælti nokkur orð í byrjun um nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi í síbreytilegum heimi, þar sem mannleg þekking virtist tvöfaldast á hverjum degi.

Fyrsta málstofa ráðstefnunnar var um hættur, sem steðja að frelsinu, og stjórnaði henni Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Tahmineh Dehbozorgi flutti áhrifamikla ræðu um æsku sína og uppvöxt í Íran, uns hún fluttist sautján ára með fjölskyldu sinni til Bandaríkjanna. Í Íran eru konur kúgaðar, en í Bandaríkjunum fá einstaklingarnir að njóta sín. Hún kvað frelsið geta glatast smám saman. Allt þyrfti að spyrja, þegar lagt væri til að skerða frelsið lítillega, hverjar afleiðingarnar yrðu til langs tíma. Dr. Kristian Nimietz, hagfræðingur hjá IEA, Institute of Economic Affairs, í Lundúnum, lagði fram gögn um það, að sennilega hefðu hvorki nýlendustefna evrópu stórveldanna né þrælahald borgað sig, þegar kostnaður og ávinningur væri metið saman, þótt vissulega hefðu einstaklingar úr valdastéttinni haft af þessu hag. Raunar hefði verslun með þræla aðeins verið brot af heildarverslun Vesturlanda á átjándu og nítjándu öld. Það væri því hæpið, sem forsvarsmenn afturköllunarfársins (cancel culture) og vælumenningarinnar (wokeism) fullyrtu, að velmegun Vesturlanda væri reist á arðráni og ánauð. Það væri umhugsunarefni, að ríkustu lönd Evrópu, Sviss, Noregur og Ísland, hefðu ekki verið nýlenduveldi.

Önnur málstofan var um fyrirheit frelsisins, og stjórnaði henni hinn vinsæli hlaðvarpsstjóri Frosti Logason. Ragnar Árnason, prófessor emeritus í hagfræði í Háskóla Íslands, sem nýtur alþjóðlegrar viðurkenningar sem sérfræðingur í auðlindahagfræði, lýsti nýjum skóla í hagfræði, Free Market Environmentalism, umhverfisvernd í krafti atvinnufrelsis, sem ætti upptök sín í bók með þessu nafni, sem þeir Donald Leal og Terry Anderson hefðu gefið út árið 1991. Frumforsenda þessa skóla væri, að mynda yrði einkaeignarrétt á knöppum gæðum til þess að tryggja skynsamlega nýtingu þeirra. Mengun stafaði til dæmis jafnan af því, að enginn ætti þau gæði, sem menguð væru, til dæmis vötn og ár. Ely Lassman, nýbrautskráður hagfræðingur frá Bristol-háskóla og stofnandi og formaður Prometheus on Campus, ræddi um ólíkar merkingar, sem stuðningsmenn og andstæðingar kapítalisma legðu í orðið. Í sínum huga væri það, sem oft væri kallað kapítalismi, frelsi manna til að velja í eigin lífi. Röksemdir fyrir því væru ekki sóttar í nytjastefnu, heldur réttindi sjálfráða og skynsamra einstaklinga. Málstaður frelsisins væri umfram allt siðferðilegur.

Þriðja málstofan var um frumkvöðla, og stjórnaði henni Haukur Ingi S. Jónsson, sem stundar nám á öðru ári í fjármálaverkfræði í Háskólanum í Reykjavík og er formaður Sprota, nýsköpunarnefndar nemenda. Sænskur frumkvöðull, Ida Johansson, sem er aðeins 23 ára, lýsti því, hvernig hún stofnaði átján ára fyrirtækið Hyred, sem leiðir saman starfsfólk og fyrirtæki. Bandaríska viðskiptatímaritið Forbes valdi hana árið 2022 sem einn af átta efnilegum frumkvöðlum, en nýlega seldi hún fyrirtæki sitt og helgar sig ráðgjöf og fjárfestingum. Lovro og Marin Lesic, tvítugir tvíburar frá Króatíu, sögðu frá ýmsum verkefnum, sem þeir hafa sinnt og hafa sum hlotið verðlaun, en þeir stunda nám í fjármálafræði í Viðskiptaháskólanum í Zagreb. Þeir sögðust hafa lært þrennt: 1) Það er aldrei of seint að byrja. 2) Velgengni krefst sífelldrar þekkingaröflunar. 3) Mistök í byrjun knýja áfram velgengni síðar meir.

Dr. Birgir Þór Runólfsson, forseti hagfræðideildar Háskóla Íslands, mælti nokkur lokaorð, en síðan bauð Anton Sveinn McKee ráðstefnustjóri gestum til móttöku og kvöldverðar í Ceres í Bragganum í Nauthólsvík, nálægt Háskólanum í Reykjavík, en þaðan er gott útsýni yfir Reykjavík og Kópavog. Hannes H. Gissurarson, prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands, bað gesti að skála fyrir þeim tveimur aðilum, sem styrktu kvöldverðinn, Prometheus Foundation og Hvali hf., en veitingahúsið Þrír frakkar hafði útbúið ljúffenga rétti úr hvalkjöti í kvöldverðinn. Hannes gat þess í skálaræðu sinni, að þær tvær hvalategundir, sem Íslendingar veiddu, hrefna og langreyður, væru síður en svo í útrýmingarhættu.

Fyrir ráðstefnuna, 11. október, hafði Hannes birt grein í Morgunblaðinu um fyrirlesarana og boðskap þeirra:

Morgunblaðið birti 12. október viðtal við einn fyrirlesarann, Tahmineh Dehbozorgi, um íranska andófsmenn og lífið í Bandaríkjunum:

Þeir Breki Atlason, fulltrúi Students for Liberty Europe á Íslandi, og Haukur Ingi S. Jónsson skipulögðu ráðstefnuna með aðstoð þriggja gamalreyndra liðsmanna Students for Liberty Europe, þeirra Höllu Margrétar Hilmarsdóttur, Lukasar Schweigers og Magnúsar Arnar Gunnarssonar, og þeirra Viktors Leví Andrasonar, Gunnars Snæs Mogensens og fleiri.

Comments are closed.