Hannes: Færum valdið til fólksins

Hannes H. Gissurarson, prófessor emeritus í Háskóla Íslands, var í hlaðvarpi Gísla Freys Valdórssonar, Þjóðmálum, 2. júlí 2024 og kom víða við. Hann sagði skjóta skökku við, að ríkið hefði þanist út, eftir að snarminnkað hefði þörf á því, enda hefðu tækniframfarir og aukin velsæld leyst úr mörgum málum. Mjög hefði til dæmis dregið úr fátækt í heiminum, og á Íslandi væri hún hverfandi. Hann kvað litlar áhyggjur þurfa að hafa af fólksfjölgun, því að hver viðbótareinstaklingur gæti skapað meiri verðmæti en hann neytti, fengju menn frelsi til að skapa. Eina skilvirka þróunaraðstoðin væri fólgin í frjálsum viðskiptum, meðal annars fjárfestingum vestrænna fyrirtækja í þróunarlöndum og aðgangi fyrirtækja í þróunarlöndum að mörkuðum á Vesturlöndum. Umhverfisöfgasinnar gerðu sér ekki grein fyrir því, að vernd umhverfisins krefðist verndara, eigenda, sem hefðu hag af því að gæta umhverfisins og bæta það. Hannes taldi eina helstu afleiðingu bankahrunsins á Íslandi árið 2008 hafa verið, að vald hefði færst frá kjörnum fulltrúum almennings til embættismanna og eftirlitsstofnana. Mestu máli skipti þó að dreifa valdinu, færa það til fólksins, einstaklinganna, með meira svigrúmi og lægri sköttum. Hann minnti á, að þeir Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefðu náð miklum árangri í samningum við kröfuhafa þeirra banka, sem féllu í bankahruninu. Þessir kröfuhafar hefðu orðið að skila verulegum hluta af feng sínum.

Comments are closed.