Hannes: Kjósendur gegn valdastéttinni

Í upptökuherbergi Frosta er mynd af gömlum vini Hannesar, Davíð Oddssyni.

Hannes H. Gissurarson, prófessor emeritus í Háskóla Íslands, var í hlaðvarpi Frosta Logasonar 19. september 2024. Hann kvað kosningar í mörgum Evrópuríkjum sýna fernt: 1) Kjósendur sætta sig ekki við óheftan innflutning fólks frá múslimaríkjum, ef og þegar það neitar að laga sig að aðstæðum í gistilandinu. 2) Þeir sætta sig ekki við aukna miðstýringu og færslu valds frá þjóðríkjum til skriffinnskubáknsins í Brüssel. 3) Þeir sætta sig ekki við, að menntamennirnir, sem hafa lagt undir sig skóla og fjölmiðla, berjist gegn vestrænum gildum og fyrir afturköllunarfári (cancel culture) og vælugangi (wokeism). 4) Þeir sætta sig ekki við, að Kínaveldi hafi ótakmarkaðan aðgang að vestrænum neytendum, en brjóti um leið leikreglur hins frjálsa markaðar. Í Evrópu væru venjulegir kjósendur að rísa upp gegn hrokafullri valdastétt. Hannes kvað lausnina á stríðinu í Úkraínu vera vopnahlé, en eftir það gætu íbúar umdeildra svæða kosið, hvort þeir vildu frekar vera í Úkraínu eða Rússlandi, eins og íbúar Slésvíkur kusu um það árið 1920, hvort þeir vildu vera í Danmörku eða Þýskalandi. Hann kvað lausnina á átökum Ísraelsmanna og Palestínu-Araba ekki vera tvö ríki, heldur eitt ríki, Ísrael, sem veitti hins vegar svæðum Palestínu-Araba víðtæka sjálfstjórn, svipað og Finnland veitir íbúum Álandseyja. Í innflytjendamálum taldi Hannes, að gera yrði greinarmun á ríkisborgurum annars vegar og öðrum innflytjendum og hælisleitendum hins vegar. Í réttarríki mætti ekki mismuna ríkisborgurum, en ríki hefðu ekki sömu skyldur við aðra innflytjendur og hælisleitendur. Til greina gæti komið að greiða ríkisborgurum, sem ekki gætu lagað sig að vestrænum gildum, fyrir að dvelja í upprunalöndum sínum.

Comments are closed.