Ridley: Líklega lak veiran af rannsóknarstofu í Wuhan

Líklega lak kórónuveiran, sem olli heimsfaraldri árin 2020–2021, út af rannsóknarstofu í Wuhan, þótt erfitt sé eða ókleift að sanna það, sagði breski vísindarithöfundurinn dr. Matt Ridley á rabbfundi í Háskóla Íslands 17. júlí 2024, sem RSE, Rannsóknarmiðstöð í samfélags- og efnahagsmálum stóð að. Hann kvaðst í upphafi hafa talið sennilegast, að veiran hafi stokkið úr dýrum í menn, eins og áður hefur gerst. En engin slík leið hafi fundist, og sífellt fleiri vísbendingar hafi komið fram um leka af rannsóknarstofu þeirri í Wuhan, sem fæst við veirurannsóknir. Vandinn sé hins vegar sá, að kínversk stjórnvöld neiti að veita upplýsingar og reyni að torvelda rannsóknir óháðra aðila á upptökum veirunnar. Ridley er dýrafræðingur að menntun og gaf ásamt sameindalíffræðingnum Alinu Chan út bókina Viral, Veirufaraldurinn, árið 2021, þar sem þau velta fyrir sér upptökum faraldursins. Notaði hann tækifærið í heimsókn sinni á Íslandi til að færa forseta Íslands, dr. Guðna Th. Jóhannessyni, bókina á Bessastöðum.

Hannes H. Gissurarson, prófessor emeritus í Háskóla Íslands, stjórnaði fundinum. Eftir framsögu sína var Ridley spurður, hvað gæti hugsanlega afsannað lekakenninguna. „Dýr, sem hefði smitast, áður en veiran stökk yfir í menn,“ svaraði hann. Ridley kvað 28 milljónir manna á að giska hafa látist af völdum kórónuveirunnar. Jafnframt olli hún ómældum kostnaði og röskun á lífi fólks og stefnu. Vonlegt væri, að kínversk stjórnvöld eða veirufræðingar á þeirra vegum væru treg að axla ábyrgð á slíkum ósköpum. Hitt væri verra, að sumir veirufræðingar á Vesturlöndum hefðu kerfisbundið reynt að leyna vísbendingum um hugsanlegan leka, þótt þeir vissu vel af þeim, eins og komið hefði fram í tölvuskeytum þeirra í milli. Morgunblaðið gat Ridleys lofsamlega í leiðara 20. júlí. Dr. Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, birti af því tilefni grein í blaðinu 23. júlí, þar sem hann kvað lekatilgátu Ridleys skemmtilega, en í eðli sínu óvísindalega, þar eð ekki væri unnt að afsanna hana vegna skorts á gögnum. Hannes H. Gissurarson svaraði í Morgunblaðinu 27. júlí, að tilgátan væri einmitt afsannanleg, eins og Ridley hefði bent á. Hefði fundist smitleið úr dýrum í menn, eins og gerst hefði í fyrri faröldrum, hefði það afsannað hana. Skorturinn á gögnum væri raunar enn ein vísbendingin um, að lekakenningin væri líkleg, því að hann væri kínverskum stjórnvöldum að kenna. Þau hegðuðu sér eins og þau hefðu einhverju að leyna.

Hannes skrifaði grein um Ridley og bækur hans í Morgunblaðið 16. júlí:

Ridley er tíður gestur á Íslandi. Hann flutti erindi í Háskóla Íslands árið 2012 um bók sína, The Rational Optimist. Henni var síðan snarað á íslensku, og gaf Almenna bókafélagið hana út árið 2014 undir heitinu Heimur batnandi fer, og kom Ridley til landsins af því tilefni, hélt tölu og sat kvöldverð heima hjá Davíð Oddssyni, ritstjóra Morgunblaðsins og fyrrverandi forsætisráðherra. Eftir fundinn nú í ár hélt prófessor Hannes H. Gissurarson honum kvöldverð á Grillmarkaðnum, og sátu hann einnig Magnús Sigurðsson, sem veitt hefur með Ridley á Íslandi, Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, Jónas Sigurgeirsson, framkvæmdastjóri AB, þau Einar Sigurðsson og Halla Sigrún Mathiesen, stjórnarmenn í RSE, og Þór Whitehead, prófessor emeritus í sagnfræði í Háskóla Íslands.

 

Comments are closed.