Ísrael, Arabaríkin og Vesturveldin

Ely Lassman, ungur hagfræðingur frá Ísrael, sem býr á Bretlandi, stofnandi og formaður samtakanna Prometheus on Campus, var staddur hér á landi vegna ráðstefnu Students for Liberty 12. október. Hann var fenginn til að tala um Ísrael, Arabaríkin og Vesturveldin á fundi í Þjóðminjasafninu í hádeginu 14. október 2024, og varð fundurinn að vera lokaður vegna síendurtekinnar ágengni íslenskra stuðningsmanna hryðjuverkasamtakanna Hamas og Hesbollah opinberlega síðustu vikur og mánuði, en bæði samtökin hafa á stefnuskrá sinni að tortíma Ísraelsríki. Hannes H. Gissurarson, prófessor emeritus í Háskóla Íslands, stjórnaði fundinum. Lassman gegndi á sínum tíma herþjónustu í varnarliði Ísraels og sagði samkomunni frá reynslu sinni sem Ísraeli og hermaður. Hann rifjaði upp, að Sameinuðu þjóðirnar lögðu til árið 1947 að skipta umboðssvæði Breta, sem hafði áður náð til nokkurra umdæma í Tyrkjaveldi, í tvö ríki, fyrir gyðinga og araba. Gyðingar samþykktu tillöguna, en arabar höfnuðu henni og hófu stríð gegn gyðingum, og þegar Ísraelsríki var stofnað vorið 1948, réðust mörg Arabaríki samtímis á það. Ísraelsmenn hrundu árásinni, en Egyptar hernámu Gaza og Jórdanir vesturbakka Jórdan-ár (sem fornmenn kölluðu Urðarbrunn). Í sexdagastríðinu árið 1967 unnu Ísraelsmenn sigur og hernámu þessi tvö svæði. Árið 2005 hvarf Ísraelsher þó á braut frá Gaza, og urðu þeir Ísraelsmenn, sem bjuggu á svæðinu, að skilja allar eigur sínar þar eftir. Hamas náði völdum á Gaza og lögðu í rúst öll þau mannvirki, sem Ísraelsmenn höfðu reist. Þar er það var beinlínis á stefnuskrá Hamas að drepa alla gyðinga í Ísrael, þurfti hin villimannslega árás Hamas á Ísrael 7. október 2023 ekki að koma á óvart, þótt alvarlegur misbrestur hefði greinilega orðið á öryggisgæslu Ísraels megin. Lassman lagði áherslu á, að vígamenn Hamas og Hesbollah væru hvorir tveggja knúðir áfram af hugmyndum, sem þeir sæktu í sína sérstöku túlkun á Íslam. Það, sem sameinaði þessa hryðjuverkamenn og öfgavinstrimenn á Vesturlöndum, væri hatrið á vestrænni menningu, á fjölbreytni, frelsi, vali, einstaklingseðli. Ísrael væri eina vestræna ríkið í Miðausturlöndum. Húsfyllir var, og spurðu fundargestir margs.

Comments are closed.