Aðalfundur AB 2024

Frá v.: Karítas Kvaran, Rósa Guðbjartsdóttir, Þórdís Edwald, Kjartan Gunnarsson, Jónas Sigurgeirsson, Hannes H. Gissurarson, Baldur Guðlaugsson og Ármann Þorvaldsson.

Almenna bókafélagið, AB, hélt aðalfund sinn árið 2024 hinn 4. maí. AB var stofnað 17. júní 1955 til mótvægis við hin miklu áhrif kommúnista í íslensku menningarlífi, en þeir ráku öflugt bókafélag, Mál og menningu, með drjúgum stuðningi alræðisstjórnarinnar í Moskvu. Nú er AB þó frekar venjulegt útgáfufyrirtæki en bókaklúbbur. Framkvæmdastjóri AB, Jónas Sigurgeirsson, flutti skyrslu um starfsemina árið 2023 að viðstöddum öðrum hluthöfum, Ármanni Þorvaldssyni, Baldri Guðlaugssyni og Kjartani Gunnarssyni. Hannes H. Gissurarson, prófessor emeritus í Háskóla Íslands, var einnig viðstaddur.

Þetta ár var lögð áhersla á útgáfu barnabóka og efnis fyrir ferðamenn. Nokkur síðustu ár hefur AB hins vegar gefið út ritröð um bankahrunið 2008 og eftirmál þess eftir reynda blaðamenn og sagnfræðinga: Icesave-samningarnir: Afleikur aldarinnar? eftir Sigurð Má Jónsson; Andersen-skjölin eftir Eggert Skúlason; Búsáhaldabyltingin: Sjálfsprottin eða skipulögð? eftir Stefán Gunnar Sveinsson; Gjaldeyriseftirlitið: Vald án eftirlits? eftir Björn Jón Bragason; Afnám haftanna: Samningar aldarinnar? eftir Sigurð Má Jónsson.  AB hefur einnig gefið út þrjár skáldsögur Ayns Rands á íslensku, Kíru Argúnovu, Uppsprettuna og Undirstöðuna. Enn fremur annast AB dreifingu á prentuðum eintökum af bókum Hannesar H. Gissurarsonar á ensku, sem hugveitan New Direction í Brüssel gefur út, þar á meðal Twenty-Four Conservative-Liberal Thinkers í tveimur bindum.

Comments are closed.