Aðalfundur AB 2023

Frá v.: Þórdís Edwald, Jónas Sigurgeirsson, Karítas Kvaran, Ármann Þorvaldsson, Hannes H. Gissurarson, Kjartan Gunnarsson, Sigríður Snævarr, Baldur Guðlaugsson og Rósa Guðbjartsdóttir.

Almenna bókafélagið hélt aðalfund sinn 26. maí 2023. Félagið var stofnað 17. júní 1955 til mótvægis við hin miklu áhrif kommúnista í íslensku menningarlífi, en þeir ráku öflugt útgáfufyrirtæki, Mál og menningu, sem haldið var uppi með Rússagulli, eins og skjöl í Moskvu sýna. AB er nú hins vegar venjulegt útgáfufyrirtæki frekar en bókafélag. Framkvæmdastjóri þess, Jónas Sigurgeirsson, flutti skýrslu um starfsemina á liðnu ári, en aðrir hluthafar eru Ármann Þorvaldsson, Baldur Guðlaugsson og Kjartan Gunnarsson. Aðalfundinn sótti einnig ráðgjafi AB, Hannes H. Gissurarson, prófessor emeritus í Háskóla Íslands. Tvær bækur AB árið 2022 vöktu mikla athygli. Önnur var Uppgjör bankamanns eftir Lárus Welding, sem var bankastjóri Glitnis í bankahruninu 2008 og sætti eftir það rannsókn og jafnvel gæsluvarðhaldsvist. Hin bókin var Landsdómsmálið eftir Hannes H. Gissurarson, en þar leiðir hann rök að því, að málareksturinn gegn Geir H. Haarde, sem var forsætisráðherra í bankahruninu, hafi verið meingallaður. Margir rannsóknaraðilar hafi verið vanhæfir vegna margvíslegra tengsla og forsögu, réttur Geirs til eðlilegrar málsmeðferðar hafi ekki verið virtur og sakfelling hans í Landsdómi fyrir að setja vanda bankanna ekki á dagskrá ráðherrafunda sé reist á augljósri mistúlkun stjórnarskrárinnar íslensku.

Comments are closed.