Skömmu fyrir jól 2022 gaf Almenna bókafélagið út rit Hannesar H. Gissurarsonar, Landsdómsmálið: Stjórnmálarefjar og lagaklækir. Hún er um þá ákvörðun (naums) meiri hluta Alþingis að ákæra Geir H. Haarde forsætisráðherra fyrir lögbrot í aðdraganda bankahrunsins 2008 og um þann úrskurð, sem meiri hluti sérstaks Landsdóms kvað upp, en samkvæmt honum var Geir sýknaður af öllum efnislegum ákærum, en sakfelldur fyrir að hafa ekki tekið vanda bankanna á dagskrá ríkisstjórnarfunda. Var honum þó ekki gerð nein refsing, og málskostnaður féll á ríkissjóð. Minni hlutinn vildi hins vegar einnig sýkna Geir af þessari ákæru. Er þetta mál einstætt í stjórnmálasögu Íslands, og hefur ráðherra aldrei áður sætt ákæru fyrir Landsdómi. Hannes gagnrýnir allan málatilbúnað meiri hluta Alþingis og röksemdir meiri hluta Landsdóms harðlega, og kemur margt nýtt fram í bók hans.
Greinin sem hvarf
Þegar Hannes hóf rannsókn sína á landsdómsmálinu, hafði hann óljósar spurnir af því, að einn dómarinn í landsdómi, Eiríkur Tómasson, hefði skrifað um bankahrunið á netinu. Hann hafði birt grein í Fréttablaðinu 14. febrúar 2009 um, að endurskoða þyrfti stjórnarskrána vegna bankahrunsins haustið 2008, og þar sagði í lokin, að lengri útgáfa væri til á vef blaðsins. Þessi lengri grein fannst þar hins vegar hvergi. Hannes gróf hana loks upp í viðauka við prófritgerð nemanda á Bifröst, sem útvegað hafði sér afrit af henni.
Í netgreininni sagði Eiríkur, að þeim, sem hefðu opinbert vald, hætti til að misnota það. Hvarvetna, þar sem of mikið vald hefði safnast saman á örfáar hendur, hefði því farið illa. „Dæmi um það er ægivald íslenskra ráðherra gagnvart öðrum handhöfum ríkisvaldsins, en sú samþjöppun valds á fáar hendur hefur, eins og bent hefur verið á að undanförnu, átt sinn þátt í því að valda okkur Íslendingum meiri búsifjum en við, sem fædd erum um miðja síðustu öld, höfum áður kynnst.“ Hannes sneri mér til vefstjóra visis.is sem kunni enga skýringu á því, að greinin hefði horfið, en gat sett hana inn aftur.
Í þessari netgrein reifaði Eiríkur beinlínis þá kenningu, að ein orsök bankahrunsins hefði verið „ægivald“ ráðherra gagnvart öðrum handhöfum ríkisvaldsins, sem þeir hefðu misnotað. Hefði verið vitað um þessa grein, þegar Eiríkur settist í landsdóm í ársbyrjun 2012, þá hefði hann tvímælalaust verið talinn vanhæfur til að dæma í máli Geirs H. Haarde forsætisráðherra. Hann hafði þegar látið í ljós þá skoðun, að Geir hefði átt þátt í bankahruninu með því að misnota „ægivald“ sitt.
Vanhæfi sökum fyrri árekstra eða fordóma
Þegar Geir H. Haarde var leiddur fyrir landsdóm, stóð hann andspænis tveimur hæstaréttardómurum, sem áttu eflaust erfitt með að vera óhlutdrægir í hans garð, eins og Hannes leiðir rök að í bók sinni. Þeir Eiríkur Tómasson og Eggert Óskarsson höfðu árið 2004 sótt um embætti hæstaréttardómara, sem Geir H. Haarde veitti þá sem settur dómsmálaráðherra. Hann skipaði hvorugan þeirra í embættið, heldur Jón Steinar Gunnlaugsson, og var mikil heift í málinu. Eiríkur sagði til dæmis í viðtali við Fréttablaðið 30. september 2004, að með þessari embættisveitingu hefði Geir grafið undan réttinum. Nú væru tveir sjálfstæðismenn hæstaréttardómarar.
Eiríkur gat þess ekki, að á Íslandi hafa margir lögfræðingar verið skipaðir hæstaréttardómarar, þótt þeir hafi áður haft afskipti af stjórnmálum. Einn þeirra var Benedikt Sigurjónsson. „Hann var harður Framsóknarmaður, og ég hafði oft leitað ráða hjá honum um lögfræðileg efni,“ sagði Steingrímur Hermannsson, þegar hann minntist dómsmálaráðherratíðar sinnar. Um þetta hlaut Eiríki að vera kunnugt, því að hann var þá einmitt aðstoðarmaður Steingríms í dómsmálaráðuneytinu. Þeir Eiríkur og Eggert voru í þeim meiri hluta landsdóms, sem vildi sakfella Geir fyrir aukaatriði.
Þriðji dómandinn í landsdómi, Brynhildur Flóvenz, hafði kvartað undan því við danskt blað 1. febrúar 2009, að eftir bankahrunið yrði hún í fjölskylduboðum að reiða fram fisk, en ekki hreindýrasteik. Hún væri þó reiðubúin að fórna öllum steikum, „ef kreppan felur í sér uppgjör við klíkuveldið og fleiri konur í forystu“. Hér kenndi Brynhildur klíkuveldi og karlmennskuhugarfari um bankahrunið, en nærtækasti fulltrúi þessa hvors tveggja í huga hennar var væntanlega Geir H. Haarde forsætisráðherra. Brynhildur var í þeim meiri hluta landsdóms, sem vildi sakfella Geir fyrir aukaatriði.
Vanhæfi sökum fjármálavafsturs
Í Landsdómi stóð Geir H. Haarde andspænis þremur hæstaréttardómurum, sem höfðu tapað stórfé á bankahruninu, eins og fram kemur í bók Hannesar um landsdómsmálið. Eiríkur Tómasson hafði átt hlutabréf í Landsbankanum og Glitni, sem urðu verðlaus, og hann hafði sem framkvæmdastjóri STEFs geymt stórfé í peningamarkaðssjóðum Landsbankans, og af því tapaðist um 30%. Markús Sigurbjörnsson hafði átt talsvert fé í peningamarkaðssjóðum Glitnis, og af því tapaðist um 20–30%. Viðar Már Matthíasson hafði átt hlutabréf í Landsbankanum. Samtals telst Hannesi til, að beint fjárhagslegt tjón þessara þriggja dómara á bankahruninu hefði numið um 80 milljónum króna (þegar hæsta verð þessara eigna þeirra er fært til verðlags ársins 2022).
Í málum margra íslenskra bankamanna hefur Mannréttindadómstóllinn í Strassborg úrskurðað, að brotið hafi verið á rétti þeirra til óvilhallrar málsmeðferðar, þegar hæstaréttardómarar í málum þeirra hafi átt hlutabréf í bönkunum, sem þeir störfuðu hjá. Þetta á enn frekar við um Geir H. Haarde. Með neyðarlögunum í upphafi bankahruns ákvað hann að bjarga ekki bönkunum, en við þá ákvörðun urðu hlutabréf í bönkunum verðlaus. Jafnframt ákvað hann, að innstæður væru einar forgangskröfur í bú bankanna, ekki hlutdeildarskírteini í peningamarkaðssjóðum, en í viðtali við Morgunblaðið 29. október 2008 líkti Eiríkur Tómasson þeirri ráðstöfun við stuld. Í þriðja lagi ákvað Geir í upphafi bankahrunsins að reyna að bjarga Kaupþingi frekar en Landsbankanum og Glitni, en það kunna hæstaréttardómarnir þrír að hafa talið ganga á hagsmuni sína, því að þeir áttu hlutabréf í Landsbankanum og Glitni og hlutdeildarskírteini í peningamarkaðssjóðum þessara banka, ekki Kaupþings.
Nullum crimen sine lege
Eitt merkasta og mikilvægasta lögmál réttarríkisins er Nullum crimen sine lege, enga sök án laga. Það merkir, að ekki megi sakfella menn fyrir háttsemi, sem ekki var ólögleg og refsiverð, þegar hún fór fram. Hannes bendir á bók sinni, að rannsóknarnefnd Alþingis á bankahruninu 2008 braut þetta lögmál, þegar hún í skýrslu sinni vorið 2010 sakaði þrjá ráðherra og fjóra embættismenn um vanrækslu. Eins og hún tók sjálf margoft fram, átti hún við vanrækslu í skilningi laganna um nefndina sjálfa, sem sett höfðu verið eftir bankahrunið. Nefndin beitti með öðrum orðum lögum afturvirkt, og sætir furðu, segir Hannes, hversu lítill gaumur hefur verið gefinn að þessu.
Ástæðan til þess, að rannsóknarnefndin beitti lögum afturvirkt, var hins vegar augljós. Hún átti að róa almenning með því að finna sökudólga. En þrátt fyrir sextán mánaða starfstíma, rífleg fjárráð, fjölda starfsfólks og ótakmarkaðan aðgang að skjölum og vitnisburðum fann rannsóknarnefndin ekki eitt einasta dæmi um augljóst lögbrot ráðamanna í bankahruninu. Þess vegna vísaði nefndin í lögin um sjálfa sig, þegar hún sakaði ráðamenn um vanrækslu, því að í athugasemdum við frumvarpið um þau sagði, að með vanrækslu væri ekki aðeins átt við hefðbundinn skilning hugtaksins í íslenskum lögum, heldur líka við það, ef upplýsingar væru metnar rangt eða vanrækt væri að afla nauðsynlegra upplýsinga.
Athugasemdir í lagafrumvörpum geta þó ekki vikið til hliðar settum lögum og föstum venjum. Óeðlilegt var, segir Hannes í bók sinni, að víkka út vanræksluhugtakið og nota það afturvirkt til að saka fólk um vanrækslu, af því að það hefði ekki metið fyrirliggjandi upplýsingar rétt og ekki aflað frekari upplýsinga. En auðvitað þótti mikilvægara að róa almenning en fylgja lögmálum réttarríkisins, bætir Hannes við.
Ne bis in idem
Eitt merkasta og mikilvægasta lögmál réttarríkisins er Ne bis in idem, sem merkir bókstaflega: ekki aftur hið sama. Það felur í sér, að borgarar í réttarríki geti treyst því, að sama málið sé ekki rekið aftur gegn þeim, eftir að það hefur verið leitt til lykta. Þeir þurfi ekki að eiga yfir höfði sér þrotlausar málshöfðanir út af því sama. Því hefur ekki verið veitt athygli, að þetta lögmál var brotið í málarekstrinum gegn Geir H. Haarde, eins og Hannes bendir á í bók sinni.
Rannsóknarnefnd Alþingis tók til athugunar, hvort Geir hefði í aðdraganda bankahrunsins brotið það ákvæði stjórnarskrárinnar, að halda skyldi fundi um mikilvæg stjórnarmálefni, með því hvoru tveggja að boða ekki sjálfur til slíks fundar og veita ekki bankamálaráðherranum nægar upplýsingar til þess, að sá gæti neytt réttar síns til að óska slíks fundar. Komu þessar athugasemdir fram í bréfi nefndarinnar til Geirs í febrúar 2010, þar sem honum var gefinn kostur á að svara. Geir gerði það skilmerkilega og benti á þrennt, að um margt hefði verið rætt á ráðherrafundum, þar á meðal efnahagsvandann árið 2008, án þess að um það hefði verið bókað, að varasamt hefði verið að setja á dagskrá ráðherrafundar hinn sérstaka vanda bankanna og að oddviti samstarfsflokksins hefði átt að veita bankamálaráðherranum upplýsingar. Rannsóknarnefndin hvarf þá frá því að gera þetta að sérstöku ásökunarefni á hendur Geir.
Aðalráðgjafi þingmannanefndar um viðbrögð við skýrslu rannsóknarnefndarinnar, Jónatan Þórmundsson, bætti hins vegar þessu ásökunarefni við aftur. Þótt vissulega hefði rannsóknarnefndin hvorki ákæruvald né dómsvald, voru rannsóknarheimildir hennar svo rúmar og afleiðingar fyrir menn af niðurstöðum hennar svo miklar, að líkja mátti henni við dómstól (enda fengu rannsóknarnefndarmennirnir með lögum sömu friðhelgi og dómarar). Því má segja, að með því að vilja ákæra Geir fyrir að hafa brotið stjórnarskrána hafi þingmannanefndin brotið lögmálið Ne bis in idem.
In dubio, pars mitior est sequenda
Eitt merkasta og mikilvægasta lögmál réttarríkisins er In dubio, pars mitior est sequenda, um vafamál skal velja mildari kostinn. Hannes heldur því fram í bók sinni, að þetta lögmál hafi meiri hluti landsdóms brotið árið 2012, þegar hann sakfelldi Geir H. Haarde fyrir að hafa vanrækt skyldu sína samkvæmt stjórnarskrá til að halda ráðherrafundi um mikilvæg stjórnarmálefni.
Minni hlutinn, þar á meðal hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason og Benedikt Bogason, benti á, að ákvæðið um ráðherrafundina átti uppruna sinn í því, að Ísland var konungsríki 1918–1944. Fór forsætisráðherra tvisvar á ári til Kaupmannahafnar til að halda ríkisráðsfundi með konungi og bar þar upp þau mál, sem konungur skyldi staðfesta. Bar hann ekki aðeins upp sín eigin mál, heldur líka mál annarra ráðherra fyrir þeirra hönd. Þess vegna varð að tryggja, að þeir hefðu tekið þátt í afgreiðslu þeirra mála. Kemur raunar skýrt fram í athugasemdum við stjórnarskrárfrumvarpið, sem samþykkt var 1920, að með mikilvægum stjórnarmálefnum var átt við þau mál, sem bera skyldi upp í ríkisráði. Ekkert sambærilegt ákvæði er heldur í dönsku stjórnarskránni. Eftir lýðveldisstofnunina var litið svo á, að með mikilvægum stjórnarmálefnum væri átt við þau mál, sem atbeina þjóðhöfðingjans þurfti til.
Meiri hluti landsdóms vildi hins vegar skapa úr þessu þrönga ákvæði víðtæka skyldu forsætisráðherra til að halda árið 2008 ráðherrafund um yfirvofandi bankahrun, sem hann hefði vanrækt, og sakfelldi hann ráðherrann fyrir þessa vanrækslu, þótt honum væri ekki gerð nein refsing. En fullkominn vafi leikur á því, að túlkun meiri hlutans sé rétt og hvenær ákvæðið ætti að hafa breytt um merkingu, frá því að það var sett. Geir var ekki látinn njóta þessa vafa.
Minnisstæð atvik úr bankahruninu
Í bók sinni segir Hannes meðal annars frá ýmsum minnisstæðum atvikum úr bankahruninu. Það er að vísu frægt, að Davíð Oddsson seðlabankastjóri gekk á fund ríkisstjórnarinnar 30. september 2008 til að vara við bankahruni. Hitt vita færri, að á leiðinni út mætti hann þvögu af fréttariturum. Í miðjum hópnum var Sævar Cielselski, sem lét ófriðlega, en hann taldi ríkið hafa svikið sig um bætur. Strax og hann sá Davíð, gekk hann til hans. Davíð tók þétt í hönd hans og sagði: „Ja, þetta hlýtur að vera mikilvægt, fyrst við erum báðir kallaðir til skrafs og ráðagerða.“ Við það stilltist Sævar.
Á þingfundi 24. nóvember 2008 snöggreiddist Steingrímur J. Sigfússon ræðu, sem Björn Bjarnason dómsmálaráðherra var að flytja. Hann skundaði upp að ræðustól, hallaði sér dreyrrauður fram að Birni og starði illilega á hann um stund. Síðan gekk hann að Geir H. Haarde, sem sat á ráðherrabekknum, sló fast í framhandlegg hans og hvæsti: „Á þetta að ganga svona til?“
Aðsúgur var gerður að Geir við Stjórnarráðshúsið 21. janúar 2009, þegar hann ætlaði inn í bíl sinn. Barði Hallgrímur Helgason rithöfundur margsinnis í hliðarrúðuna farþega megin, þar sem Geir sat í framsætinu, en fékk ekki brotið hana. Aðrir óróaseggir reyndu að stöðva ferð bílsins með því að klifra upp á vélarhlífina. Tókst lögreglu loks við illan leik að ryðja bílnum braut.
Á árshátíð Seðlabankans á Hótel Nordica 25. janúar 2009 reyndu grímuklæddir ofbeldismenn að brjóta sér leið inn í veislusalinn. Gestum var órótt, á meðan höggin dundu á dyrum salarins, en andrúmsloftið léttist, þegar Davíð Oddsson snaraðist upp í ræðustól og sagði, að árshátíðarnefndin hefði bersýnilega unnið gott starf, því að færri kæmust að en vildu. Loks varð lögreglan þó að fylgja Davíð og konu hans út um bakdyr.
Tveir fróðlegir fundir
Þegar rætt er um ábyrgð ráðamanna á bankahruninu 2008, telur Hannes tvær spurningar skipta mestu máli: Hvað gátu þeir vitað? Hvað gátu þeir gert? Seinni spurningunni er auðsvarað að sögn Hannesar: Lítið sem ekkert. Þeir urðu aðeins að bíða og vona. Fyrri spurningin er flóknari, telur hann. Auðvitað vissu helstu ráðamenn, að íslenska bankakerfið var þegar í árslok 2005 orðið svo stórt, að Seðlabankanum og ríkissjóði var orðið um megn óstuddum að aðstoða það í hugsanlegri lausafjárkreppu. Rannsóknarnefnd Alþingis gerir að aðalatriði í skýrslu sinni þrjá fundi, sem seðlabankastjórar héldu með ráðherrum árið 2008, í febrúar, apríl og maí, þar sem þeir vöruðu við því, að bankarnir ættu við mikla erfiðleika að etja. Sakar nefndin ráðherrana um að hafa vanrækt að bregðast við. En í bók Hannesar um landsdómsmálið bendir hann á tvo aðra fundi, sem eru ekki síður fróðlegir, en rannsóknarnefndin virtist ekki vita af.
Hinn 26. september 2007 sat Þorgerður K. Gunnarsdóttir, þá varaformaður Sjálfstæðisflokksins, hádegisverðarfund með seðlabankastjórum og forsætisráðherra í Þjóðmenningarhúsinu. Davíð Oddsson hafði þá orð á því, að lausafjárkreppa væri skollin á, og gæti íslenska bankakerfið hrunið. Þorgerður andmælti. En mánuði síðar hófu hún og eiginmaður hennar, einn af yfirmönnum Kaupþings, að reyna að færa nilljarðaskuldbindingar sínar í bankanum yfir í einkahlutafélag, og tókst það loks í febrúar 2008. Sluppu þau þannig við gjaldþrot.
Í janúarlok 2008 sat Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, fund með Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, Pálma Haraldssyni og Sigurði G. Guðjónssyni, forráðamönnum Glitnis, og var erindi þeirra að segja, að vandi bankanna væri ekki bundinn við Glitni, sem hafði þá nýlega farið í misheppnað lánsútboð í Bandaríkjunum. Kaupþing væri líka illa statt. Engu að síður afgreiddi Ingibjörg Sólrún varnaðarorð Davíðs á fundi með henni og öðrum ráðherrum 7. febrúar 2008 sem „útaustur eins manns“. Fann hún sérstaklega að því, að Davíð hefði talið Glitni og Kaupþing standa verr en Landsbankann.