Á ráðstefnu evrópskra íhaldsflokka í Split í Króatíu 31. mars og 1. apríl flutti Hannes H. Gissurarson, rannsóknarstjóri RNH, fyrirlestur um frjálslynda íhaldsstefnu í Evrópu. Þar velti hann því fyrir sér, hvenær Evrópa hefði orðið til í sögulegum skilningi. Það hefði aðallega gerst í tveimur áföngum, kvað hann: árið 732, þegar Karl Martel hratt árás Serkja við Tours í Suður-Frakklandi, og árið 1683, þegar Jóhann Sobieski, konungur Póllands, hratt árás Tyrkja við Vínarborg. En munurinn á Evrópu og Rómaveldi er ekki aðeins, að Rómaveldi var ekki evrópskt, heldur Miðjarðarhafsveldi, heldur líka sá, að Evrópa einkennist af fjölbreytni, mörgum ólíkum ríkjum og svæðum, hvert með sinn sið. Edward Gibbon lýsti því eftirminnilega í Rómverjasögu sinni, að í Rómaveldi hefði hvergi verið til sá staður, sem hrammur keisarans hefði ekki náð til, en að í Evrópu síns tíma hefðu verið til ótal undankomuleiðir fyrir andófsmenn og minnihlutahópa.
Frjálslynd íhaldsstefna verður best skilin sem sjálfsvitund Evrópu, sagði Hannes, hinn evrópski andi, þegar hann hefur komist að því, hver hann er, og fyllst stolti yfir sjálfum sér. Uppistöðurnar væru einkaeignarréttur, viðskiptafrelsi, valddreifing og virðing fyrir arfleifð kynslóðanna. Oft væri frjálslynd íhaldsstefna rakin til Breta, og vissulega hefðu þeir John Locke, David Hume, Adam Smith og Edmund Burke eflt hana að rökum. En Hannes benti á, að margir aðrir evrópskir hugsuðir hefðu líka lagt talsvert til hennar, til dæmis Ítalirnir heilagur Tómas af Akvínas og hagfræðingurinn Luigi Einaudi. Einnig nefndi Hannes þrjá djúpsæja norræna rithöfunda. Snorri Sturluson hefði stutt þá kenningu, að konungar ríktu með samþykki þegnanna og væru bundnir af lögunum. Anders Chydenius hefði haldið því fram (á undan Adam Smith), að viðskiptafrelsi væri öllum í hag. Nikolaj F. S. Grundtvig hefði minnt á mikilvægi sjálfsprottinnar samvinnu í frjálsu þjóðskipulagi.