Hannes H. Gissurarson, rannsóknastjóri RNH, hélt til Jórvíkur á Englandi í júníbyrjun 2023 og fetaði með því í fótspor Egils Skallagrímssonar. Hannes hefur að vísu talið Höfuðlausn, sem Egill á forðum að hafa flutt Eiríki konungi blóðöx, grunsamlega ófornfálegt kvæði, ekki síst vegna hins suðræna endaríms. Hefur hann spurt, hvort Snorri hafi ef til vill ort það sjálfur. Erindi Hannesar til Jórvíkur var að vísu þessu óskylt. Honum var boðið ásamt nokkrum öðrum fræðimönnum á málstofu, sem bandaríski Frelsissjóðurinn, Liberty Fund, hélt þar í borg um viðskiptaskipulagið (commercial society), eins og það kom upplýsingarmönnum átjándu og nítjándu aldar fyrir sjónir, þeim Montesquieu, David Hume, Adam Smith og Benjamin Constant.
Montesquieu um Norðurlönd
Margt kom fróðlegt fram í málstofunni. Montesquieu vakti til dæmis athygli á því í Anda laganna, að Fönikíumenn hefðu stundað viðskipti um allt Miðjarðarhaf án þess að telja sig þurfa að leggja undir sig lönd eins og Rómverjar gerðu. Söguskoðanir Vesturlandamanna hafa verið um of verið mótaðar af rómverskum sagnriturum. Voru Rómverjar einhverju skárri en Karþagómenn?
Montesquieu skrifaði í sama riti, að nóg væri að lesa rit rómverska sagnritarans Tacitusar til að sjá, hvaðan Englendingar hefðu fengið stjórnmálahugmyndir sínar. Hið haglega skipulag þeirra hefði orðið til í skógum Germaníu. Sem kunnugt er hafði Tacitus lýst því í ritinu Germaníu, hvernig germanskir ættbálkar leiddu mál til lykta á almennum samkomum. Yrðu konungar og höfðingjar að lúta lögum eins og aðrir. Enn fremur sagði Montesquieu, að Norðurlönd gætu með sönnu hreykt sér af því að vera uppspretta frelsis Evrópuþjóðanna.
Montesquieu bætti því að vísu við, að staðhættir í Evrópu hefði leitt til skiptingar hennar í mörg ríki, sem ekki væru hvert um sig of stórt. Sæmilegt jafnvægi hefði myndast milli þeirra, svo að erfitt hefði verið fyrir eitthvert eitt þeirra að leggja önnur undir sig og þau því farið að lögum og nýtt sér kosti frjálsra viðskipta. Eftir daga Montesquieus komust þrír harðstjórar þó nálægt því að leggja mestallt meginland Evrópu undir sig, fyrst Napóleon á öndverðri nítjándu öld, síðan þeir Hitler og Stalín í sameiningu með griðasáttmálanum sumarið 1939. Í bæði skiptin stöðvuðu Bretar þá eða eins og Montesquieu kynni að segja: Hinn norræni andi.
Hume um frjáls viðskipti
David Hume kvað fátt stuðla eins að framförum og mörg sjálfstæð grannríki, sem tengdust saman með viðskiptum og kepptu í sæmilegu bróðerni hvert við annað. Hefði hann skilið vel þá gagnrýnendur Evrópusambandsins, sem vilja frekar opinn markað en lokað ríki. Hume var einna fyrstur til að setja fram peningamagnskenninguna, sem Milton Friedman varð síðar frægur fyrir: að verðbólga stafaði af offramboði peninga.
Hume kvað skapara heimsins hafa ætlast til þess, þegar hann skammtaði ólíkum þjóðum misjöfn gæði, að þær bættu hag sinn í frjálsum viðskiptum með þessi gæði. Á málstofunni benti Hannes á, að merkilegt væri að kynnast þessum rökum trúleysingjans fyrir viðskiptafrelsi.