Fundur Mont Pelerin samtakanna í Stanford, janúar 2020

Frá v.: Ragnar, Birgir Þór og Hannes Hólmsteinn.

Þrír Íslendingar, prófessorarnir Ragnar Árnason, Birgir Þór Runólfsson og Hannes H. Gissurarson, sem allir sitja í Rannsóknaráði RNH, sóttu svæðisþing Mont Pelerin samtakanna í Stanford 15.–17. janúar, en forseti samtakanna, prófessor John Taylor, sá um þingið ásamt starfsliði Hoover-stofnunarinnar.

Guedes flytur ávarp sitt.

Í fyrsta kvöldverði fundarins spjallaði George Shultz, sem er 99 ára og hinn ernasti, um ástand og horfur í heimsmálum. Shultz var hagfræðiprófessor í Chicago og fjármálaráðherra og utanríkisráðherra Bandaríkjanna í forsetatíð Ronalds Reagans. Í öðrum kvöldverðinum sagði Paulo Guedes, fjárálaráðherra Brasilíu, frá metnaðarfullri umbótaáætlun sinni, en Guedes nam hagfræði í Chicago undir handleiðslu Miltons Friedmans. Í þriðja og síðasta kvöldverðinum talaði frumkvöðullinn Peter Thiel um atvinnulíf og stjórnmál á 21. öld.

Alejandro Chafuen og Hannes Hólmsteinn sóttu báðir sitt fyrsta þing Mont Pelerin samtakanna í Stanford 1980.

Á meðal annarra fyrirlesara voru Bruce Caldwell (ævisöguritari Hayeks), sem sagði frá stofnfundi samtakanna 1947, en hann var haldinn að frumkvæði Hayeks; David Henderson, sem rifjaði upp fund samtakanna í Stanford 1980; Skidelsky lávarður (ævisöguritari Keynes), sem sagði sína skoðun á helstu ágreiningsmálum hagfræðinga um þessar mundir; Niall Ferguson, sem harmaði úrættun réttarríkisins; John Cogan, sem varpaði fram hugmyndum um, hvernig greiða mætti upp skuldir hins opinbera í Bandaríkjunum; Samuel Gregg, sem taldi nauðsynlegt að dýpka skilning á siðferðilegum undirstöðum kapítalismans; Bridgett Wagner, sem greindi frá viðhorfum og verkefnum hinnar áhrifamiklu hugsmiðju Heritage Foundation í Washington-borg; og Borwick lávarður, fimmti barón Borwick, sem varði útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. Í hádegisverði 17. janúar töluðu Axel Kaiser og Ernesto Silva um hið alvarlega ástand í Síle. Þar hafa vinstri-öfgamenn skipulagt götuóeirðir í því skyni að leggja að velli hið frjálsa hagkerfi landsins, sem myndaðist á áttunda og níunda tug síðustu aldar og hefur skilað betri árangri en önnur hagkerfi Rómönsku Ameríku. Virðast þeir vilja gera Síle að öðru Venesúela.

Thiel ræðir við Peter Robinson.

Comments are closed.