Rannsóknastjóri RNH, prófessor Hannes H. Gissurarson, sótti svæðisþing Mont Pelerin samtakanna í Dallas/Fort Worth 19.–22. maí 2019. Þingið var helgað þrætueplum í röðum frjálshyggjufólks. Eitt var um skipan peningamála. Er Seðlabanki nauðsynlegur? Gullfótur æskilegur? Rafmyntir hagkvæmar? Frjáls samkeppni í útgáfu peninga raunhæf? Prófessor John Taylor, dr. Warren Coats, prófessor Larry White og fleiri peningamálahagfræðingar skiptust á skoðunum. Annað þrætuepli var mál innflytjenda og hælisleitenda. Allir voru sammála um, að duglegir innflytjendur í leit að atvinnu og betri lífskjörum væru æskilegir. En hvað um innflytjendur, sem aðeins sækjast eftir bótum? Og hversu langt á að ganga í að hleypa milljónum hælisleitendum inn í Vesturlönd og vekja um leið upp frumstætt útlendingahatur? Hannes tók til máls í þeim umræðum og kvað óæskilegt, þegar mynduðust sérstakar lokaðar byggðir innflytjenda og hælisleitenda, sem ekki virtu lög og landsið, eins og gerst hefði í Danmörku og Svíþjóð, en bæði löndin væru nú að herða reglur vegna sárrar reynslu.
Þriðja álitamálið, sem var rætt, var umfang ríkisins. Prófessor David Friedman taldi íslenska þjóðveldið vera til marks um, að réttarvarsla í höndum einstaklinga væri framkvæmanleg. Prófessor Edward Stringham rakti mörg dæmi um lausnir einkaaðila á málum, sem oft hefðu verið falin opinberum aðilum. Einnig var rætt um, hversu langt ríkið ætti að ganga í að skipta sér af hegðun einstaklinga, til dæmis fíkniefnaneyslu og kynlífi, þar á meðal vændi, og af innanríkismálum annarra landa, eins og Bandaríkin hefðu oft gert, til dæmis í Víetnam og Írak. Prófessor Vernon Smith, Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði 2002, spjallaði á samkomu síðdegis einn daginn um þá hugsuði, sem hefðu haft mest áhrif á sig, Adam Smith og Friedrich A. von Hayek. Það var einmitt von Hayek, sem stofnaði Mont Pelerin samtökin í Sviss vorið 1947, svo að frjálshyggjumenn um allan heim gætu komið saman reglulega og borið saman bækur sínar.
Tveir ungir prófessorar, Benjamin Powell and Robert Lawson, skipulögðu svæðisþingið af röggsemi. Næsta svæðisþing verður í Stanford í Kaliforníu 15.–17. janúar 2020, en aðalfundur samtakanna verður í Osló 1.–5. september 2020. Hannes H. Gissurarson sótti fyrsta þing samtakanna í Stanford haustið 1980 í boði von Hayeks, hefur verið félagi frá 1984 og í stjórn samtakanna 1998–2004. Hann skipulagði svæðisþing samtakanna á Íslandi í ágúst 2005.