Velgengni Norðurlanda er ekki að þakka jafnaðarstefnu, heldur viðskiptafrelsi, réttaröryggi og samheldni í krafti samleitni, sagði dr. Hannes H. Gissurarson, rannsóknastjóri RNH, á fjölmennri ráðstefnu frjálslyndra stúdenta í Brasilíu, Libertycon, 12.–13. október 1018 í Pálsborg postula, São Paulo. Á meðal annarra fyrirlesara voru brasilískir fræðimenn, prófessorarnir Adriano Gianturco og Bruno Garschagen, Bruno Bodart dómari og ýmsir brasilískir aðgerðasinnar. Erlendir fyrirlesarar auk Hannesar voru frá Atlas Network og Students for Liberty. Fernando Henrique Miranda, André Freo og fleiri brasilískir háskólastúdentar höfðu veg og vanda af skipulagningu ráðstefnunnar, sem tókst hið besta. Sóttu hana 800 manns, og var uppselt á hana.
Í fyrirlestri sínum minnti Hannes á, að sænsk-finnski presturinn Anders Chydenius hefði sett fram hugmyndina um „ósýnilega höndina“ á undan Adam Smith og að frjálshyggjuhefðir hefðu verið sterkar á Norðurlöndum á nítjándu öld, eins og ljóst mætti verða af stjórnarskránni, sem Norðmenn samþykktu á Eiðsvöllum 1814, en hún var frjálslyndasta stjórnarskrá síns tíma. Johan August Gripenstedt, einn áhrifamesti stjórnmálamaður Svía, var einnig eindreginn frjálshyggjumaður, aðdáandi Frédèrics Bastiats. Í ráðherratíð hans 1848–1866 mynduðust forsendur fyrir hinu samfellda hagvaxtarskeiði, sem stóð í Svíþjóð í heila öld frá 1870. Nutu jafnaðarmenn góðs af því, þegar þeir komust til valda á fjórða áratug 20. aldar. „Sænska leiðin“, sem fylgt hefði verið 1970–1990 og fólgin hefði verið í háum sköttum og útþenslu ríkisbáknsins, hefði þó reynst ófær, og hefðu Svíar verið síðan að fikra sig frá henni. Jafnvel á hinu fámenna Íslandi hefði verið til frjálshyggjuhefð, sem þeir Jón Sigurðsson, leiðtogi Íslands í sjálfstæðisbaráttunni, Arnljótur Ólafsson, höfundur fyrsta hagfræðiritsins á íslensku, og Jón Þorláksson, stofnandi og leiðtogi fjölmennasta íslenska stjórnmálaflokksins, hefðu mælt fyrir.
Hannes var spurður, hvaða ráð hann gæti gefið Brasilíumönnum. Hann svaraði því til, að svo virtist sem þrjár nornir stæðu yfir höfuðsvörðum þessarar sundurleitu, suðrænu stórþjóðar, ofbeldi, spilling og fátækt. Brasilíumenn þyrftu að reka þessar nornir á brott, einbeita sér að koma á lögum og reglu, meðal annars með því að herða refsingar fyrir ofbeldisglæpi, og þá myndi tækifærum fátæks fólks til að brjótast í bjargálnir snarfjölga. Aðkomumönnum yrði starsýnt á hina ójöfnu tekjudreifingu í landinu. Ef til vill hefði auður sumra Brasilíumanna skapast í krafti sérréttinda og óeðlilegrar aðstöðu ólíkt því, sem gerðist í frjálsari hagkerfum, en reynslan sýndi, að hinir fátæku yrðu ekki ríkari við það, að hinir ríku yrðu fátækari. Happadrýgst væri að mynda skilyrði til þess, að hinir fátæku gætu orðið ríkari, en með aukinni samkeppni, sérstaklega á fjármagnsmarkaði, myndu hinir ríku þurfa að hafa sig alla við að halda auði sínum. Eitt lögmál hins frjálsa markaðar væri, að flónið og fjármagnið yrðu fljótt viðskila. Skriffinnska stæði líka brasilískum smáfyrirtækjum fyrir þrifum. Þátttaka Hannesar í ráðstefnunni var liður í samstarfsverkefni RNH og ACRE, Alliance of Conservatives and Reformists in Europe, um Ísland, Evrópu og hinn frjálsa markað. Í ráðstefnulok færði Hélio Beltrão, forstöðumaður Mises-stofnunarinnar í São Paulo, Hannesi að gjöf bókina História do liberalismo brasileiro (Sögu frjálshyggjunnar í Brasilíu) eftir heimspekinginn Antonio Paim.