Rösklega hundrað manns sóttu svæðisþing Evrópusamtaka frjálslyndra stúdenta, European Students for Liberty, og Samtaka frjálslynda framhaldsskólanema laugardaginn 22. september 2018 á Grand Hotel. Þau Magnús Örn Gunnarsson, Marta Stefánsdóttir og Sigurvin Jarl Ármannsson sáu aðallega um skipulagningu þingsins, sem hátt í þrjátíu erlendir stúdentar sóttu.
Dagskráin var fjölbreytt. Fyrir hádegi talaði James Lark III frá Bandaríkjunum um „Economic Fallacies: Discussion of Some Common Fallacies and Misconceptions about Economics“. Lark talaði einnig á fyrsta svæðismóti ESFL á Íslandi fyrir fimm árum. Þá talaði Kyle Walker frá Bandaríkjunum um „Ideas and People: How SFL is Changing the World“. Eftir hádegi talaði Gil Dagan frá Ísrael um „How free trade can help the Middle East“ og hjónin Matt B. og Terry Kibbe frá Bandaríkjunum um „Reaching skeptics with liberalism“. Matt Kibbe er höfundur vinsæls yfirlits- eða inngangsrits um frjálshyggju, sem kom út 2014, Don’t Hurt People and Don’t Take Their Stuff: A Libertarian Manifesto. Að loknu stuttu hléi talaði Bill Wirtz frá Lúxemborg um „The European Case Against the European Union“, Grace Morgan frá Bandaríkjunum um „IGO Watch: Global Taxpayers at Risk“, Vera Kítsanova frá Rússlandi um „Fighting the Russian Leviathan: Libertarians against Putin“ og prófessor Antony Davies frá Bandaríkjunum um „Cooperation, Coercion, and Human Development“. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra sleit þinginu með nokkrum orðum.
RNH hefur jafnan stutt svæðisþing ESFL á Íslandi, og er þetta hið fimmta og fjölmennasta, sem haldið hefur verið, og var mikill hugur í þátttakendum. Á föstudagskvöldið bauð rannsóknastjóri RNH, prófessor Hannes H. Gissurarson, fyrirlesurum og erlendum gestum á þinginu heim til sín, og á laugardagskvöldið hittust allir gestir á þinginu í Opnu húsi. Erlendu gestirnir fóru eftir fundinn í ferð um Suðurlandsundirlendið og skoðuðu jökla og hveri, hraunbreiður, fossa og kletta. Þátttaka RNH í svæðisþingunum er liður í samstarfsverkefni við ACRE í Brüssel um „Evrópu, Ísland og hinn frjálsa markað“.