Hannes: Kúgunin eðlislæg kommúnismanum

Rannsóknastjóri RNH, dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor, var einn ræðumanna á alþjóðlegri ráðstefnu um kommúnisma, sem Stofnun sögulegra minninga í Eistlandi hélt í Tallinn 23. ágúst 2018. Var þátttaka Hannesar í ráðstefnunni liður í samstarfsverkefni RNH og ACRE, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu fórnarlambanna“. Í tölu sinni kvað Hannes það enga tilviljun, heldur eðlislægt kommúnismanum að hafa alls staðar leitt til alræðis, kúgunar og fátæktar. Höfundar hans, Karl Marx og Friðrik Engels, hefðu verið fullir haturs og mannfyrirlitningar, eins og skrif þeirra sýndu vel. Þeir höfðu skömm á smáþjóðum, ekki síst Íslendingum. Þeir Marx og Engels hefðu enn fremur verið vísindatrúar, talið sig handhafa Stórasannleika, en ekki í leit að bráðabirgðasannleika, sem mætti betrumbæta með tilraunum, eins og venjulegir vísindamenn. Í þriðja lagi væri ætíð hætt við því, þegar tómarúm myndaðist eftir byltingu, að hinir ófyrirleitnustu og samviskulausustu fylltu það, eins og Edmund Burke hefði bent á í frægu bréfi sínu um stjórnarbyltinguna frönsku.

Sofi Oksanen og Hannes H. Gissurarson í Tallinn. Ljósm.: Mari-Ann Kelam.

Hannes kvað tvær ástæður í viðbót vera til þess, að kommúnismi leiddi jafnan til alræðis. Í landi, þar sem ríkið væri eini vinnuveitandi, ætti stjórnarandstæðingurinn erfitt um vik, en frelsið væri ekki raunverulegt frelsi, nema það væri frelsi til að gagnrýna stjórnvöld. Í fimmta lagi hygðust kommúnistar afnema dreifðan eignarrétt einstaklinga og frjáls viðskipti þeirra í milli, en við það fyrirkomulag nýttist dreifð þekking þeirra, eins og Friedrich A. Hayek hefði manna best sýnt fram á. En ef ríkið ræki öll atvinnutækin, þá yrði það að fækka þörfum manna og einfalda þær, til þess að allsherjarskipulagning atvinnulífsins yrði framkvæmanleg. Þetta gæti ríkið aðeins gert með því að taka í þjónustu sína öll mótunaröfl mannssálarinnar, fjölmiðla, skóla, dómstóla, listir, vísindi og íþróttir, en það er einmitt slíkt kerfi, sem kallað væri alræði. Á ráðstefnunni voru kynnt tvö ný rit eftir Hannes, Voices of the Victims: Notes Towards a Historiography of Anti-Communist Literature, sem kom út hjá New Direction í Brüssel í árslok 2017, og Totalitarianism in Europe: Three Case Studies, sem kom út hjá ACRE í Brüssel snemma árs 2018.

Á meðal annarra ræðumanna á ráðstefnunni voru Sofi Oksanen, höfundur hinnar kunnu skáldsögu Hreinsunar, sem komið hefur út á íslensku, og prófessor Richard Overy, sérfræðingur í sögu seinni heimsstyrjaldar og höfundur kunnrar bókar um Stalín og Hitler. Jafnhliða ráðstefnunni vígði forseti Eistlands, Kersti Kaljulaid, minnismerki um eistnesk fórnarlömb kommúnismans, en það stendur í útjaðri Tallinn. Á meðal gesta við vígsluna og á ráðstefnunni voru dómsmálaráðherrar Eystrasaltslandanna þriggja, Póllands, Úkraínu og fleiri ríkja.

Keljuraid forseti leggur blómsveig að Minnismerkinu um fórnarlömb kommúnismans. Ljósm. Martin Andreller.

 

Comments are closed.