Alræði í Evrópu: Þrjár rannsóknir

Rannsóknastjóri RNH, dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor, flytur erindi á fundi Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála fimmtudaginn 26. apríl 2018 kl. 17 í Háskóla Íslands, Háskólatorgi, stofu 101 (Ingjaldsstofu). Fundarefnið er „Alræði í Evrópu: Þrjár rannsóknir“, en rit með því heiti er nýkomið út eftir Hannes á ensku, Totalitarianism in Europe: Three Case Studies, og gefur ACRE, Alliance of Conservatives and Reformists in Europe, það út sem lið í samstarfsverkefni með RNH, „Evrópa fórnarlambanna.“ Þar birtir Hannes þrjár rannsóknir, sem hann hefur gert.

Hin fyrsta er á örlögum Elinors Lippers, sem samdi umtalaða bók um ellefu ára vist sína í þrælakistum Stalíns, og birtist útdráttur úr henni í íslenskum blöðum. Eftir útkomu bókarinnar og vitnisburð í réttarhöldum og á ráðstefnum virtist Lipper hafa horfið, og lítið var um hana vitað. Hannes tók sér fyrir hendur að grafa upp, hver hún var og hvað hefði orðið um hana.

Önnur rannsóknin er á því, hvernig örlög tveggja Þjóðverja á Íslandi fyrir stríð fléttuðust saman: Henny Goldstein var landflótta Gyðingur, en Bruno Kress styrkþegi SS-stofnunarinnar Ahnenerbe. Goldstein missti marga ættingja sína í Helförinni, þar á meðal fyrir tilstilli Ahnenerbe. Eftir stríð gerðist Kress kommúnisti. Endurfundir þeirra í sextugsafmæli Brynjólfs Bjarnasonar urðu sögulegir.

Rohac

Þriðja rannsóknin er á málsvörn Halldórs Laxness áratugum saman fyrir alræðisstefnu Stalíns. Hannes rekur meðal annars, hvernig Laxness lét dátt við ítalska fasista í því skyni að koma bókum sínum út á ítölsku og hvernig hann daufheyrðist við frásögnum ýmissa kunningja sinna erlendra um kúgunina í kommúnistaríkjunum, auk þess sem hann þagði í aldarfjórðung um það, að hann varð í Moskvu 1938 vitni að handtöku saklausrar konu, barnsmóður Íslendings.

Dr. Dalibor Rohac, stjórnmálahagfræðingur frá Slóvakíu og sérfræðingur í Evrópufræðum í AEI, American Enterprise Institute, bregst stuttlega við erindi Hannesar, en kl. 18 verður móttaka fyrir gesti fundarins í Litla Torgi við hlið Hámu, mötuneytis Háskólans. Bessí Jóhannsdóttir cand. mag. stjórnar fundinum.

Comments are closed.