Í þau hundrað ár, sem liðin eru frá bolsévíkabyltingunni 2017, hafa að minnsta kosti 100 milljónir manna týnt lífi af völdum kommúnista, skrifaði prófessor Hannes H. Gissurarson, rannsóknastjóri RNH, í Morgunblaðið 7. nóvember 2017. Hafði hann fyrir þessu sagnfræðiprófessorinn Stéphane Courtois, ritstjóra Svartbókar kommúnismans. Hannes hafnaði hinni algengu skýringu á ógnarstjórn Leníns og Stalíns, að hún hefði aðeins verið rússnesk venja: Á tveimur mánuðum myrti leynilögregla bolsévíka fleira fólk en dæmt hafði verið til dauða í rússneska keisaraveldinu 1825–1017. Alræði og kúgun kommúnistaríkjanna voru miklu frekar rökréttar og fyrirsjáanlegar afleiðingar af tilrauninni til að endurskapa allt skipulagið eftir óraunhæfum kenningum Marx og Engels. Hannes rifjaði upp, að Marx og Engels leyndu hvergi því mati sínu, að líklega yrði að framkvæma byltinguna, sem þeir sáu fyrir sér, með ógnarstjórn. Hannes vitnaði líka á óvinsamleg ummæli þeirra um Íslendinga og aðrar Norðurlandaþjóðir.
Sumir kommúnistar höfðu jafnvel sjálfir áttað sig á hættunni af því að sameina allt stjórnvald og hagvald á einni hendi. „Í landi, þar sem stjórnin er eini vinnuveitandinn, bíður stjórnarandstæðingsins hægur hungurdauði,“ skrifaði Trotskíj. Og Rósa Lúxembúrg hafði bent á, að frelsið væri alltaf frelsi stjórnarandstæðingsins. Það var hins vegar Friedrich A. von Hayek, sem setti fram hina fræðilegu skýringu á kúguninni við miðstýrðan áætlunarbúskap: Í slíku kerfi væri ógerlegt að stilla saman mannlegar þarfir, og af því leiddi, að slíkar þarfir yrði að einfalda og minnka og jafnvel stundum hafa að engu, en til þess þyrftu stjórnvöld að ná tökum á sálum manna ekki síður en að segja þeim fyrir verkum. Kennari Hayeks, Ludwig von Mises, hafði þegar árið 1920 sagt fyrir um endalok sósíalismans með þeim rökum, að miðstjórnin yrði að taka ákvarðanir sínar án nægilegra upplýsinga um framleiðslu og neyslu.
Í grein sinni sagði Hannes stuttlega sögu kommúnistahreyfingarinnar á Íslandi. Brynjólfur Bjarnason var annar af tveimur fulltrúum íslenskra kommúnista á þingi Alþjóðasambands kommúnista í Moskvu 1920, en þar minntist Lenín á hernaðarlegt mikilvægi Íslands í hugsanlegu stríði á Norður-Atlantshafi. Brynjólfur var fyrsti og eini formaður kommúnistaflokks Íslands, sem starfaði 1930–1938 með verulegum fjárstuðningi frá Moskvu. Samkvæmt fyrirmælum frá Moskvu tókst kommúnistum 1938 að fá til bandalags við sig vinstri sinnaða jafnaðarmenn í nýjan flokk, Sósíalistaflokkinn, en stalínistarnir Brynjólfur og Einar Olgeirsson veittu honum forystu. Kremlarbændur héldu Sósíalistaflokknum uppi fjárhagslega eins og forvera hans. Gömlu stalínistarnir misstu þó smám saman tökin á Sósíalistaflokknum, sem var leystur upp 1938, um leið og Alþýðubandalaginu var breytt úr kosningabandalagi í stjórnmálaflokk. Þótt Alþýðubandalagið berðist hart gegn jafnaðarmönnum, rauf það öll opinber tengsl við Kremlverja. Eftir fall Ráðstjórnarríkjanna sameinaðist Alþýðubandalagið Alþýðuflokknum í Samfylkingunni, en síðasta verk gömlu Alþýðubandalagsforystunnar var að fara í boðsferð til kúbverska kommúnistaflokksins haustið 1998. Reyndi hún þá árangurslaust að ná tali af Castro. Lauk sögu íslensku kommúnistahreyfingarinnar því með snökti frekar en gný.
Að lokum sagði Hannes, að kommúnisminn væri að sönnu dauður, en vofa hans gengi ljósum logum um vestræna háskóla. RNH á aðild að Evrópuvettvangi um minningu og samvisku, sem hélt ásamt öðrum tvær ráðstefnur á ártíð bolsévíkabyltingarinnar. Önnur var í Washington-borg, þar sem Niall Ferguson og Frank Dikötter töluðu meðal annarra, hin í París, þar sem Stéphane Courtois kynnti nýja bók um Lenín. Sagnfræðingafélagið hafði hins vegar ekki áhuga á því að halda ráðstefnu með RNH af sama tilefni. Grein Hannesar í Morgunblaðinu var liður í samstarfsverkefni RNH og ACRE, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu fórnarlambanna“.