Fjörugar umræður urðu um frjálshyggju, lýðstefnu og verkefni okkar daga á sérstöku þingi Mont Pelerin samtakanna í Stokkhólmi 2.–5. nóvember 2017. Á meðal þeirra hugmynda, sem ræddar voru (án þess að allir tækju nauðsynlega undir þær), voru: Frjálshyggjumenn vilja vera heimsborgarar; þeir leitast við að tryggja frið milli einstaklinga og ríkja í krafti umburðarlyndis og afskiptaleysis. Lýðstefnumenn reyna ekki að takmarka ríkisvaldið eins og frjálshyggjumenn, heldur hrifsa það til sín. Rannsóknir sýna, að í lýðskrumi er frekar fólgið andsvar við menningarlegum breytingum en skírskotun til efnahagserfiðleika einstakra stétta eða hópa. Lýðstefnumenn eru andvígir valdastéttum í opinberu skjóli. Þeir vísa til Aðalstrætis frekar en Bankastrætis. Ef manni er sagt að fara í spilavíti með þeim skilmálum, að hann haldi eftir öllum gróðanum, en geti velt tapinu yfir á aðra, þá mun hann fyrr eða síðar tapa öllu. Þegar í stað spilavítisins er settur banki, er komin ein skýring á hinni alþjóðlegu lausafjárkreppu áranna 2007–9 og óánægju margra eftir hana. Lýðstefnumenn sækja fylgi í þá skoðun, að vitlaust sé gefið í spilinu. En þótt lýðstefna nærist á skiljanlegri óánægju, ógnar hún réttarríkinu og allri umræðumenningu. Ef til vill er sigursælasti lýðskrumarinn á valdastól um þessar mundir Vladímír Pútín Rússlandsforseti, sem hefur lagt undir sig stjórnkerfið í landi sínu og safnað feikilegum auði.
Frjálshyggjumenn styðja frelsi og ekki vald. Í hagtölum er hætt við, að hinar stórkostlegu lífskjarabætur síðustu hundrað ára vegna tækninýjunga séu vanmetnar: Nathan Rothschild var ríkasti maður heims á sínum tíma, en hann lést 1836 vegna ígerðar, sem hefði nú verið auðvelt að taka til meðferðar. Bætt lýsing og upphitun húsa hafa breytt lífi margra til hins betra. Og frjálslynt fólk verður að standa saman um að minnsta kosti sumt. Daginn eftir að öfgamúslimar fordæmdu danskt dagblað fyrir að birta skopmyndir af Múhameð spámanni, hefðu öll vestræn dagblöð átt að endurprenta þær.
Þeir Friedrich A. von Hayek, Milton Friedman, Ludwig von Mises, George J. Stigler, Luigi Einaudi, Karl Popper og aðrir kunnir menntamenn stofnuðu Mont Pelerin samtökin 1947 sem eins konar alþjóðlegt málfundafélag frjálslyndra fræðimanna, sem störfuðu í sömu hefð og John Locke, Adam Smith, Alexis de Tocqueville og Acton lávarður. Á meðal ræðumanna á þinginu í Stokkhólmi voru Karen Horn, Deirdre McCloskey, Mark Pennington, Lotta Stern, Luigi Zingales, Johan Norberg og Anders Åslund. Dr. Nils Karlson hjá Ratio stofnuninni í Stokkhólmi hafði veg og vanda af því að skipuleggja ráðstefnuna. Rannsóknastjóri RNH, prófessor Hannes H. Gissurarson, var fundarstjóri á málstofu, þar sem ungir fræðimenn kynntu niðurstöður rannsókna sinna á því, hvernig frumkvöðlar geta brotið á bak aftur einokun í skjóli ríkisins og hvaða áhrif skattheimta hafi á skatttekjur af mjög tekjuháu fólki (samkvæmt Laffer-boganum). Tveir aðrir Íslendingar sóttu ráðstefnuna, Birgir Þór Runólfsson hagfræðidósent og Gísli Freyr Valdórsson, ritstjóri Þjóðmála. Þátttaka Hannesar í þinginu var liður í samstarfsverkefni RNH og ACRE, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna.