Margar ástæður eru til þess að taka framtíðinni fagnandi, sagði sænski sagnfræðingurinn og sjónvarpsmaðurinn Johan Norberg á fundi Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála, Almenna bókafélagsins og RNH í Háskóla Íslands 23. október. Þar kynnti Norberg bók sína, Framfarir: Tíu ástæður til að taka framtíðinni fagnandi, sem Almenna bókafélagið gaf út sama dag í þýðingu Elínar Guðmundsdóttur og í samstarfi við eignastýringarfélagið Gamma. Norberg benti á, að fátækt hefði víðast snarminnkað, ekki síst í krafti frjálsra alþjóðaviðskipta. Tekjudreifing hefði einnig orðið jafnari í heiminum, aðallega við það að fjölmennar þjóðir eins og Kínverjar og Indverjar hefðu brotist til bjargálna. Það væri frekar fagnaðarefni en hitt, að menn hefðu áhyggjur af ójafnri tekjudreifingu, því að áður fyrr hefði nánast allir verið jafnfátækir. Norberg benti á, að heilsufar hefði batnað stórkostlega, jafnframt því sem dregið hefði úr ofbeldi og stríðum fækkað. Nýmæli í vísindum og tækni gerðu mönnum líka kleift að bæta umhverfið og verjast hamförum.
Þorbjörn Þórðarson fréttamaður var umsegjandi. Hann benti á, að kerfi frjálsra viðskipta ætti sér marga heita andstæðinga og sumir teldu sig afskipta, og kynni það að skýra uppgang þjóðrembuflokka á Vesturlöndum. Tók Norberg undir það, en kvað mikilvægast að auðvelda fólki að laga sig að nýjum aðstæðum. Þess vegna ætti frekar að styrkja endurhæfingu fyrir atvinnulífið en atvinnuleysi. Stefanía Óskarsdóttir stjórnmálafræðidósent var fundarstjóri. Að erindi Norbergs og umsögn Þorbjörns loknum urðu fjörugar umræður. Prófessor Hannes H. Gissurarson benti meðal annars á, að útvíkkun markaða hefði haft í för með sér fjölgun lítilla ríkja, því að hún gerði smáþjóðum kleift að nýta sér kosti verkaskiptingar og frjálsra viðskipta. Þjóðrækni og frjálslyndi gætu þess vegna farið saman, enda yrði að gera strangan greinarmun á þjóðrækni og þjóðrembu. Stöð tvö tók viðtal við Norberg, sem flutt var í kvöldfréttum 24. október. Einnig ræddu Morgunblaðið og Viðskiptablaðið við hann. Gísli Hauksson, stjórnarformaður RNH, skrifaði grein í „Markaðinn“ í Fréttablaðinu 25. október um boðskap Norbergs. Stuðningur RNH við útgáfu bókar Norbergs og fundinn í Háskólanum er þáttur í samstarfsverkefni við ACRE, Evrópusamtök íhaldsmanna og umbótasinna.