Hvernig má lifa við lög án ríkisvalds? Prófessor David D. Friedman kvaðst hafa velt þessu fyrir sér upp úr 1970, en þá áttað sig á, að það hafði þegar verið gert í Íslenska þjóðveldinu 930–1262. Á fjölsóttri málstofu, sem hagfræðideild, lagadeild og sagnfræði- og heimspekideild héldu saman mánudaginn 2. október lýsti hann greiningu sinni nánar. Í íslenska kerfinu hefðu öll mál verið einkamál, ekki brot gegn ríkinu. Vandamenn manns, sem var til dæmis drepinn, hefðu krafist bóta fyrir hann eða gripið til þess ráðs að hefna drápsins. Lítilmagninn hefði getað leitað til goða síns eða framselt sök sína. Sérstakur sáttasemjarar hefðu oft verið kvaddir til, svo að stöðva mætti deilur eða gagnkvæm dráp. Íslenska þjóðveldið hefði verið tiltölulega stöðugt. Það hefði staðið í þrjú hundruð ár án stórkostlegra blóðsúthellinga ólíkt því, sem gerðist til dæmis í baráttunni um yfirráð yfir Englandi. Kristnitakan hér á landi hefði verið furðufriðsamleg. Friedman sagðist hins vegar sjá ýmsar mótsagnir í lýsingu Íslendinga sagnanna á framkvæmd laga og á sjálfri lögbók Þjóðveldisins, Grágás, sem nú hefði verið gefin út í enskri þýðingu.
Prófessor Jesse Byock brást við erindi Friedmans. Hann taldi skýringuna á mótsögnunum á milli Íslendinga sagna og Grágásar, að menn hefðu ekki fylgt nákvæmlega forskriftum lögbókarinnar. Íslendinga sögur og Sturlunga væru betri heimildir um daglegt líf Forn-Íslendinga. Sumir fyrri fræðimenn hefðu lagt áherslu á skáldlegt gildi Íslendinga sagna, en fyrir sér væru þær frekar heimildir um, hvernig lifinu mætti lifa við lög án ríkisvald. Þær væru um úrlausnir átaka í ríkislausu, fátæku og frumstæðu eylandi. Íslendingar hefðu flust frá Noregi í leit að landi til að byggja og á flótta frá sköttum. Þetta hefði mótað skipulag þeirra, sem torveldaði samanburð við reglur meðal Rómani-fólks og Sómala, eins og Friedman hefði reynt. Byock tók undir það, að Þjóðveldið hefði verið friðsamlegra en margir héldu. Til dæmis sýndu fornleifarannsóknir, að þar hefði ekki verið mikið um húsbrennur.
Margt fleira bar á góma, og skemmtu málstofugestir sér hið besta, en á meðal þeirra voru Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra, Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi formaður Alþýðuflokksins, Vilhjálmur Árnason heimspekiprófessor og þeir Ragnar Árnason og Ásgeir Jónsson hagfræðiprófessorar. Birgir Þór Runólfsson hagfræðidósent stjórnaði málstofunni. Stuðningur RNH við hana er þáttur í samstarfsverkefni með ACRE, Evrópusamtökum íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.