RNH vekur athygli á, að þriðjudaginn 3. október flytur Markús Þ. Þórhallsson erindið „Til varnar Íslandi. Saga InDefence hópsins 2008-2013“. Fyrirlesturinn hefst kl. 12:05 og fer fram í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands. Þetta er annar fyrirlestur þessa haustmisseris í röð fyrirlestra sem Sagnfræðingafélag Íslands skipuleggur í samvinnu við Þjóðminjasafnið.
Icesave deilan setti mark sitt á íslenskt samfélag um árabil. Hrun fjármálakerfisins og afleiðingar þess urðu til þess að InDefence hópurinn var stofnaður. Tilurð hópsins og tilgangur voru rannsökuð, hverjir voru meðlimir og hvaða hlutverk hver og einn hafði innan hans. Sú kenning var gaumgæfð að þeir hafi litið á sig sem frelsishetjur samtímans í rómantískum anda 19. aldarinnar. Þjóðernisleg orðræða þeirra var skoðuð og gagnrýni sem þeir fengu úr ýmsum áttum og efasemdir um heilindi þeirra. Hópurinn var settur saman af fólki sem flest hefur numið við erlenda háskóla. Það hefur verið álitinn mesti munurinn á InDefence og öðrum grasrótarhópum.
Hver réð og hvernig voru ákvarðanir teknar? Raktar eru ástæður þess að farið var af stað í áróðursstríð eftir að Bretar beittu hryðjuverkalögum og ferðin til Westminster sem færði þeim óvenjulegt tilboð. Barátta InDefence gegn Icesave-samningunum, aðkoma þeirra að þjóðaratkvæðagreiðslum og samskipti þeirra við alla aðila málsins eru gaumgæfð. InDefence-hópnum var fylgt til ársins 2013 þegar niðurstaða EFTA dómsstólsins lá fyrir, þó hópurinn sé enn til.
Markús Þ. Þórhallsson er með meistaragráðu í sagnfræði frá Háskóla Íslands og byggir fyrirlesturinn á lokaverkefni hans. Markús leggur nú stund á meistaranám í frétta- og blaðamennsku og stjórnar einnig morgunútvarpi á Útvarpi Sögu. Næsta fyrirlestur í fundaröðinni mun Hannes H. Gissurarson prófessor flytja þriðjudaginn 17. október um „Bankahrunið í sögulegu ljósi“.