Prófessor David D. Friedman flytur erindi á ráðstefnu European Students for Liberty og Samtaka frjálslyndra framhaldsskólanema í Háskólanum í Reykjavík, stofu V101, laugardaginn 30. september kl. 15–16. En hann mun líka tala á sameiginlegri málstofu hagfræðideildar, lagadeildar og heimspeki- og sagnfræðideildar Háskóla Íslands, stofu Odda 202, mánudaginn 2. október kl. 16–17. Þar mun prófessor Jesse Byock, sem hefur gefið út fjölda bóka um íslenska þjóðveldið, einnig segja nokkur orð um kenningar Friedmans. Dr. Birgir Þór Runólfsson hagfræðidósent, sem skrifaði doktorsritgerð um endalok íslenska þjóðveldisins, verður fundarstjóri.
Erindi sitt nefnir Friedman „Engan konung nema lögin“ og vísar þar til frægra ummæla Adams frá Brimum um, að Íslendingar hefði á þjóðveldistímanum ekki haft annan konung en lögin. Friedman er sannkallaður fjölfræðingur. Þótt hann kenni hagfræði og lög, hefur hann ekki setið eitt einasta námskeið í hagfræði, heldur tók doktorspróf sitt í fræðilegri eðlisfræði. Hann hefur skrifað hagfræðilega greiningu á sektum og viðskiptaleyndarmálum, stærð ríkja, stríðum, fólksfjölda og íslenska þjóðveldinu. Hann hefur gefið út fjölda bóka um hagfræði og lög, en einnig tvær skáldsögur, ævintýri frá miðöldum, og ásamt konu sinni matreiðslubók um miðaldamat. RNH styður málstofuna sem þátt í samstarfsverkefni með ACRE, Evrópusamtökum íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.