Hannes á fund forseta

Rannsóknastjóri RNH, dr. Hannes H. Gissurarson prófessor, gekk á fund forseta Íslands, dr. Guðna Th. Jóhannessonar, á Bessastöðum 30. mars 2021 og afhenti honum eintak af nýútkominni bók sinni, Twenty-Four Conservative-Liberal Authors, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í árslok 2020. Bókin, sem er 884 blaðsíður, er í tveimur bindum og líka aðgengileg á netinu. Á meðal hugsuðanna, sem Hannes skrifar um, eru tveir Norðurlandabúar, Snorri Sturluson og Anders Chydenius, og fimm fræðimenn, sem hann kynntist sjálfur, Friedrich von Hayek, Karl R. Popper, Milton Friedman, James M. Buchanan og Robert Nozick. Áttu þeir Hannes og Guðni að afhendingu lokinni langt spjall saman yfir kaffibolla, aðallega um sögu Íslands og annarra landa.

Comments Off

Fimm ný félög ganga inn í Evrópuvettvanginn

Dr. Lukas Kamiński.

Evrópuvettvangur minningar og samvisku, Platform of European Memory and Conscience, hélt ársþing sitt 2020 á netinu 25. janúar 2021, en ætlunin hafði verið að halda það í Prag í nóvember, en því varð að breyta vegna kórónufaraldursins. Tilgangur vettvangsins er að halda á lofti minningu fórnarlamba alræðisstefnu tuttugustu aldar, kommúnismans ekki síður en nasismans. RNH hefur átt aðild að vettvangnum frá 2013, en rannsóknastjóri RNH, dr. Hannes H. Gissurarson prófessor, sneri Svartbók kommúnismans á íslensku og samdi einnig sögu íslensku kommúnistahreyfingarinnar, Íslenska kommúnista 1918–1998. Sagnfræðingurinn dr. Lukasz Kamiński frá Póllandi var endurkjörinn forseti vettvangsins, en fimm ný félög gengu inn í hann, frá Bretlandi, Slóveníu, Úkraínu, Georgíu og Tékklandi. Evrópuþingið hefur gert 23. ágúst að minningardegi fórnarlamba alræðisstefnunnar, en þann dag árið 1939 gerðu Stalín og Hitler með sér hinn svokallaða griðasáttmála og skiptu á milli sín Mið- og Austur-Evrópu.

RNH hefur stutt það framtak Almenna bókafélagsins að gefa út Safn til sögu kommúnismans undir ritstjórn Hannesar H. Gissurarson, en nú eru komin út á netinu og á prenti í þeim flokki ritin:  Greinar um kommúnisma eftir breska heimspekinginn Bertrand Russell (2015); Konur í þrælakistum Stalíns eftir Elinor Lipper frá Sviss og Aino Kuusinen frá Finnlandi (2015); Úr álögum eftir þýska kommúnistann Jan Valtin, öðru nafni Richard Krebs (2015); Leyniræðan um Stalín eftir rússneska einræðisherrann Níkita Khrústsjov (2016); El campesino – Bóndinn eftir spænska herforingjann Valentín González (2016); Örlaganótt yfir Eystrasaltslöndum eftir eistneska bókmenntafræðinginn Ants Oras (2016); Eistland. Smáþjóð undir oki erlends valds eftir sænsk-eistneska blaðamanninn Anders Küng (2016); Þjónusta, þrælkun, flótti eftir finnska prestinn Aatami Kuortti (2016); Ráðstjórnarríkin: Goðsagnir og veruleiki eftir ensk-ungverska rithöfundinn Arthur Koestler (2017); Ég kaus frelsið eftir úkraínska flóttamanninn Víktor Kravtsjenko (2017); Nytsamur sakleysingi eftir sænska kommúnistann Otto Larsen (2017); Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958 eftir Tómas Guðmundsson, Gunnar Gunnarsson, Kristmann Guðmundsson, Guðmund G. Hagalín, Sigurð Einarsson í Holti og Davíð Stefánsson frá Fagraskógi (2018); og Framtíð smáþjóðanna: Erindi á Norðurlöndum 1946–1948 eftir norska skáldið Arnulf Øverland (2019). Einnig hefur  hugveitan New Direction í Brüssel birt skýrslu eftir Hannes, sem var upphaflega tekin saman fyrir Evrópuvettvanginn, Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature , þar sem hann ræddi um sögulegt eðli kommúnismans og bókmenntaverk um hann, þar á meðal fangabúðasögur, skáldsögur, sagnfræðirit og sjálfsævisögur.

Comments Off

Hannes fastur dálkahöfundur í The Conservative

Rannsóknastjóri RNH, dr. Hannes H. Gissurarson prófessor, er orðinn fastur dálkahöfundur í netblaðinu The Conservative, sem samtök íhalds- og umbótaflokka í Evrópu gefa út. Fyrsta grein Hannesar birtist í blaðinu 11. nóvember og var um úrslitin í bandaríska forsetakjörinu. Næst skrifaði Hannes um kunna sögu í stjórnmálaheimspeki, ánægjuvél Nozicks, og benti á, að þýskur heimspekingur hefði seint á nítjándu öld sagt svipaða sögu. Þá skrifaði Hannes um þá þversögn lýðræðisins, að í kjörklefanum kysu menn oft á móti mönnum og málum, en í kjörbúðinni kysu þeir það, sem þeir vildu. Þessu næst rifjaði Hannes upp kynni sín af Margréti Thatcher í tilefni lýsingarinnar á henni í sjónvarpsþáttaröðinni Krúnunni, sem er um bresku konungsfjölskylduna. Þá sagði Hannes frá sögulegri heimsókn Winstons Churchills til Íslands, þegar hann heilsaði í fyrsta sinn opinberlega með sigurmerki sínu, V-inu. Í síðustu grein sinni árið 2020, sem birtist 10. desember, gagnrýndi Hannes sameiginlega fiskveiðistefnu Evrópusambandsins og bar hana saman við árangursríka fiskveiðistefnu Íslendinga.

Comments Off

Bók Hannesar komin út í tveimur bindum

Bók sú, sem dr. Hannes H. Gissurarson prófessor hefur samið fyrir hugveituna New Direction í Brüssel um tuttugu og fjóra frjálslynda íhaldsmenn, Twenty-Four Conservative-Liberal Thinkers, er komin út á Netinu, og einnig er verið að prenta hana á pappír.

Bókin er í tveimur bindum. Í fyrra bindinu, sem er 350 bls., segir Hannes frá ævi og verkum tólf hugsuða. Þeir eru Snorri Sturluson, heilagur Tómas af Akvínas, John Locke, David Hume, Adam Smith, Edmund Burke, Anders Chydenius, Benjamin Constant barón, Frédéric Bastiat, Alexis de Tocqueville greifi, Herbert Spencer og Acton lávarður. Hannes bendir á, að í verkum Snorra Sturlusonar gæti tveggja hugmynda, sem frjálslynd íhaldsstefna styðjist við, að valdið spretti frá þjóðinni og að það takmarkist af lögunum, sem valdhafarnir séu settir undir eins og aðrir. Heimskringla sé umfram allt varnaðarorð gegn konungsvaldi. Enn fremur gæti sterkrar einstaklingshyggju í Egils sögu, enda hafi Egill verið nefndur fyrsti einstaklingurinn. Hannes víkur víðar að íslenskum málum. Hann telur til dæmis, að kenning heilags Tómasar um andófsrétt gegn ranglátum lögum eigi við um Frjálst útvarp, sem hann og fleiri ráku í október 1984 til að andmæla einokun ríkisins á útvarpsrekstri. Kenning Johns Lockes um, hvernig menn geti eignað sér gæði úr almenningum, svo framarlega sem þeir skerði ekki með því hag annarra, skýri líka, hvers vegna kvótakerfi í fiskveiðum, þar sem upphafleg úthutun kvóta miðist við aflareynslu, sé réttlátt.

Í seinna bindinu, sem er 534 bls., segir Hannes frá ævi og verkum tólf hugsuða í viðbót. Þeir eru Carl Menger, William Graham Sumner, Ludwig von Mises, Friedrich A. von Hayek, Wilhelm Röpke, Michael Oakeshott, Sir Karl R. Popper, Bertrand de Jouvenel barón, Ayn Rand, Milton Friedman, James M. Buchanan og Robert Nozick. Hannes segir meðal annars frá kynnum sínum af þeim Hayek (sem kom til Íslands vorið 1980), Popper, Friedman (sem kom hingað haustið 1984), Buchanan (sem kom hingað haustið 1982) og Nozick. Kaflarnir um Hayek og Friedman eru lengstir, en í kaflanum um Friedman lýsir Hannes áhrifum hans á hagstjórn í Síle og á Bretlandi, Nýja Sjálandi og Íslandi og í nýfrjálsum ríkjum Mið- og Austur-Evrópu. Höfundur telur enga tilviljun, að heimurinn hafi farið mjög batnandi á síðustu áratugum tuttugustu aldar, eftir að áhrifa þeirra Hayeks og Friedmans tók að gæta, alþjóðaviðskipti jukust og sósíalisma hnignaði. Frjálslyndir íhaldsmenn styðja viðskiptafrelsi, einkaeignarrétt og takmarkað ríkisvald, en telja jafnframt, að ýmsir sjálfsprottnir siðir, venjur, heildir og stofnanir séu allt nauðsynlegt til að veita einstaklingnum öryggi og fótfestu í síbreytilegum heimi og gera líf hans fyrirsjáanlegt og viðráðanlegt. Sá sáttmáli, sem líf þjóðar hvíli á, sé sáttmáli milli okkar, forfeðra okkar og niðja um þau almennu og óbrotgjörnu verðmæti, sem best hafi reynst mannkyni á ferð þess um viðsjála veröld.

Bókin er prýdd fjölda mynda af hugsuðunum sjálfum, frægum sögulegum málverkum, teikningum og ljósmyndum. Davor Vidovich sá um útlit og hönnun bókarinnar fyrir hönd New Direction.

Comments Off

Öllum viðburðum aflýst vegna veiru

Las Vegas.

Rannsóknastjóri RNH, prófessor Hannes H. Gissurarson, átti að vera fyrirlesari og þátttakandi í fjölda funda og ráðstefna árið 2020, sem öllum var aflýst, þar á meðal málstofu Liberty Fund um Balzac og kapítalismann í París í mars, alþjóðlegri ráðstefnu Samtaka um einkaframtaksfræðslu, Association of Private Enterprise Education, APEE, í Las Vegas í apríl, árlegri fundaröð Austurríska hagfræðisetursins, Austrian Economics Center, um frjálsan markað (Free Market Road Show) í maí um alla Evrópu og Frelsishátíðinni, Freedomfest, í Las Vegas í júlí. Vonir standa til, að halda megi eitthvað af þessum fundum og ráðstefnum árið 2021, ef og þegar veirufárinu slotar. Þess í stað einbeitti Hannes sér að bók, sem hann tók að sér að semja fyrir hugveituna New Direction í Brüssel um „Twenty-Four Conservative-Liberal Thinkers“. Kemur hún væntanlega út í desember.

Comments Off

Alþjóðleg ráðstefna um veirufaraldurinn

Rannsóknastjóri RNH, prófessor Hannes H. Gissurarson, flutti erindi á alþjóðlegri ráðstefnu, sem Austrian Economics Center í Vínarborg hélt á Netinu 8. maí 2020 um veirufaraldurinn, Covid-19. Hann byrjaði á að rifja upp, að í dag væri afmælisdagur Friedrichs von Hayeks, en hann hefði kennt, að þekkingin dreifðist á mennina, en enginn hefði hana alla til að bera. Farsóttafræðingar vissu margt, sem hagfræðingar vissu ekki, og öfugt. Menn með sérþekkingu ættu stundum til að halda, að afkimi þeirra væri allur heimurinn. Margir frjálshyggjumenn væru hlynntir því, sem kallað hefði verið „næturvarðarríkið“, en samkvæmt þeirri hugmynd ætti ríkið að gegna svipuðum skyldum og næturverðir í miðaldaborgum, vernda borgarana gegn ofbeldi, en láta þá að öðru leyti afskiptalausa. Hvort sem menn tækju undir þá hugmynd eða ekki, væri ljóst, að sum verkefni væru þess eðlis, að óheppilegt væri að fela þau ríkinu. Opinberir starfsmenn fyndu ekki hjá sér sömu hvöt til að hagræða og hefðu sjaldnast heldur sömu reynslu og þekkingu og menn úti í atvinnulífinu. Einstaklingar yrði að bera ábyrgð á lífi sínu sjálfir, en ekki varpa henni yfir á aðra.

Þrátt fyrir alla sína galla væri ríkið samt fulltrúi heildarinnar, farvegur eða vettvangur eðlilegrar samkenndar og samábyrgðar. Áföll eins og jarðskjálftar, eldgos, snjóflóð, sjávarskaflar (tsunami) og farsóttir væru oftast engum að kenna. Þegar þau skyllu yfir, hrifu þau saklausa borgara með sér, og lífið yrði um skeið að siglingu á björgunarbát. Ríkið hlyti að reyna að koma í veg fyrir slík áföll eða milda að minnsta kosti afleiðingar þeirra. Réttlætanlegt væri til dæmis að skerða frelsi manna, svo að þeir smituðu ekki aðra af farsóttum. Hannes minnti síðan á, að hugsuðir eins og heilagur Tómas af Akvínas og David Hume, sem hefðu stutt einkaeignarréttinn glöggum rökum, hefðu verið þeirrar skoðunar, að hann hrykki úr gildi við sérstakar aðstæður. Hannes kvaðst túlka það svo, að réttlætanlegt gæti verið að nota fé skattgreiðenda til að milda afleiðingar af áföllum. Menn mættu hins vegar ekki mikla fyrir sér vandann. Í sögulegu samhengi væri veirufaraldurinn, sem riðið hefði yfir heiminn árið 2020, ekki mjög mannskæður.

Það væri ef til vill ekki alls kostar rétt, bætti Hannes við, að þessi veirufaraldur hefði ekki verið neinum að kenna. Enn væri ekki vitað með vissu, hver upptök faraldursins í Wuhan væru. Kínversk stjórnvöld hefðu takmarkað mjög alla upplýsingagjöf, og það leiddi til grunsemda um handvömm þeirra. Hannes sagði, að í verufaraldrinum hefðu rökin gegn víðtækum ríkisafskiptum verið staðfest enn einu sinni. Í Kína hefði ófrelsið torveldað upplýsingagjöf og skjót viðbrögð, og á Vesturlöndum hefðu opinberar stofnanir tafið fyrir lausnum. Það væri einkaframtakið, sem væri að smíða öndunarvélar, framleiða grímur og prófa sig áfram með lyf. Eina leiðin út úr þeim vanda, sem veirufaraldurinn hefði myndað, væri að örva hagvöxt með því að veita atvinnulífinu aukið svigrúm. Menn gætu ekki hírst í björgunarbátum alla ævi. Þeir hentuðu ekki til siglinga um heimshöfin sjö.

Glærur Hannesar í maí 2020 um veirufaraldurinn

Comments Off