Ljósm.: Mbl./Eggert
Þrír stærstu prent- og netmiðlar landsins hafa rætt við rannsóknastjóra RNH, dr. Hannes H. Gissurarson prófessor, í tilefni nýrrar bókar hans, Twenty-Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf í árslok 2020 út í tveimur bindum. Í Vísi ræddi Jakob Bjarnar Grétarsson 27. mars 2021 við Hannes, sem taldi rétt að gera greinarmun á ágirnd og eðlilegri sjálfsbjargarhvöt, en það væri einn höfuðkostur hins frjálsa hagkerfis, að þar væri hvoru tveggja snúið til almannaheilla, ágirndinni haldið í skefjum. Hannes lagði áherslu á, að frjálslynd íhaldsstefna snerist ekki aðeins um hagvöxt, heldur líka um tilgang lífsins og tilvist manna innan sjálfsprottinna heilda. Það væri rétt, að útgefandinn í Brüssel væri tengdur evrópskum íhaldsflokkum, en margir þeirra hugsuða, sem hann skrifaði um, hefðu einmitt tekið virkan þátt í stjórnmálum. Snorri Sturluson hefði verið lögsögumaður, Edmund Burke setið í neðri málstofu breska þingsins, þeir Benjamin Constant, Frédéric Bastiat og Alexis de Tocqueville allir setið á franska þinginu og Tocqueville um skeið verið utanríkisráðherra, Acton lávarður verið ráðgjafi Gladstones, Carl Menger setið í efri deild austurríska þingsins, Wilhelm Röpke verið ráðgjafi Adenauers og Erhards og þeir Friedrich von Hayek og Milton Friedman verið ráðgjafar Thatchers og Reagans. Aðrir hefðu á hinn bóginn verið kyrrlátir fræðimenn, frekar skrifað stjórnmálin en lifað. Hannes vísaði því á bug, að hin alþjóðlega fjármálakreppa árin 2007–2009 hefði verið dauðadómur yfir frjálslyndri íhaldsstefnu (sem stundum væri kölluð nýfrjálshyggja). Bestu skýringuna á kreppunni mætti sækja í kenningu Hayeks, að hún stafaði af peningaþenslu áranna á undan, og á hana hefði verið beitt úrræðum Friedmans, að seðlabankar sæju viðskiptabönkum fyrir lausafé, en Friedman hefði einmitt gagnrýnt bandaríska seðlabankann fyrir að vanrækja það 1929–1933.
Í Fréttablaðinu ræddi Þórarinn Þórarinsson 30. mars við Hannes, sem sagði, að frjálslynd íhaldsstefna snerist um að halda í fengið frelsi, varðveita og rækta hina vestrænu menningararfleifð. Hannes minntist í viðtalinu á kynni sín af fimm þeirra hugsuða, sem hann skrifar um, þeim Friedrich von Hayek, Karli R. Popper, Milton Friedman, James M. Buchanan og Robert Nozick. Sérstaklega hefði Friedman verið orðheppinn og skemmtilegur. Þeir Snorri Sturluson og heilagur Tómas af Akvínas ættu heima í þessum hópi, þótt frjálshyggja sem stjórnmálastefna yrði ekki til fyrr en í byltingunni dýrlegu í Bretlandi 1688, því að þeir hefðu báðir talið ríkisvaldið takmarkast, í dæmi Snorra af hinum góðu, gömlu lögum, venjuréttinum, í dæmi Tómasar af náttúru- eða eðlisrétti.
Í Morgunblaðinu ræddi Stefán Gunnar Sveinsson 31. mars við Hannes, sem rifjaði upp, að hann hefði skrifað doktorsritgerð í Oxford fyrir þrjátíu og fimm árum um frjálslynda íhaldsstefnu Hayeks. Tvennt hefði breyst í skoðunum sínum frá þeim tíma. Annars vegar kynni hann nú betur að meta þjóðernishyggju, heilbrigða þjóðrækni, og hins vegar skildi hann betur, að hin sögulega þróun yrði að vera við gagnkvæma aðlögun einstaklinga og hópa, í sæmilegri sátt, enda vildu frjálslyndir íhaldsmenn umbætur frekar en byltingar. Hannes kvað frjálslynda íhaldsstefnu ekki reista á þröngri nytjastefnu. Maðurinn væri ekki sálarlaus reiknivél, og lífið snerist ekki aðeins um efnisleg gæði. Til viðbótar við frjálsan markað þyrfti að koma hæfileg íhaldssemi, virðing fyrir fornum dygðum eins og iðjusemi, háttvísi, skilvísi og stundvísi. Tilveran þyrfti í senn að vera í sæmilega föstum skorðum og búa yfir þeirri ögrun og óvissu, sem skýrði sköpunarmátt kapítalismans. Hannes sagði, að jarðarbúar hefðu þrátt fyrir allt aldrei búið við eins góð kjör og um þessar mundir, og það væri ekki síst frelsinu að þakka. Að því væri hins vegar víða sótt af hörku, og vonandi lærðum við ekki aðeins að meta frelsið eftir að hafa misst það.