Hannes á ráðstefnu í Prag um fórnarlömb alræðisstefnunnar

Forseti Litháens, Gitanas Nauseda, forsætisráðherra Tékklands, Petr Fiala, og Svjatlana Tsíkhanouskaja, leiðtogi stjórnarandstöðunni í Hvíta-Rússlandi.

Evrópuvettvangur um minningu og samvisku, Platform of European Memory and Conscience, var stofnaður í Liechtenstein-höllinni í Prag árið 2011 til að halda uppi minningu fórnarlamba alræðisstefnu tuttugustu aldar. Hannes H. Gissurarson, rannsóknarstjóri RNH, hefur starfað í honum frá 2013 og sótti ársfund hans í Liechtenstein-höllinni 16. nóvember 2022. Jafnframt hélt vettvangurinn ráðstefnu á sama stað um hið fjölþætta (hybrid) stríð, sem valdaklíkan í Kreml heyr gegn vestrænum lýðræðisríkjum, ekki aðeins á vígstöðvunum í Úkraínu, heldur líka í fjölmiðlum, netmiðlum og sögubókum.

Forseti Litháens, Gitanas Nauseda, lagði áherslu á það í ræðu sinni, að nasismi og kommúnismi væru tvær greinar af sama meiði. Ástæða væri til að fordæma kommúnismann jafnskilyrðislaust og nasismann. Minna yrði á, að griðasáttmáli Stalíns og Hitlers hefði hleypt af stað seinni heimsstyrjöldinni.

Forsætisráðherra Tékklands, Petr Fiala, talaði 17. nóvember og rifjaði upp, að flauelsbyltingin tékkneska hefði átt sér stað þann dag árið 1989. Hrun kommúnismans í Mið- og Austur-Evrópu hefði verið kraftaverk, en þótt við ættum ekki að hætta að trúa á kraftaverk, skyldum við ekki treysta á þau. Þess vegna yrðu lýðræðisríkin að standa saman gegn látlausum tilraunum Kremlarklíkunnar til að grafa undan vestrænum gildum.

Svjatlana Tsíkhanouskaja, leiðtogi frelsisbaráttu Hvítrússa, sem stödd var á Íslandi fyrir skömmu, skoraði á Evrópuþjóðir að gleyma ekki Hvítrússum, sem vildu vera vestræn þjóð, ekki undir oki Rússa.

Prófessor Stéphane Courtois harmaði, að Rússland undir stjórn Pútíns virtist vera að hverfa aftur til alræðis. Kremlarklíkuna dreymdi um að stækka Rússland upp í það veldi, sem það var undir stjórn keisaranna. Courtois hefur nýlega ritstýrt bók, þar sem margir franskir fræðimenn skrifa um Pútín og valdaklíku hans.

Comments Off

Bók Hannesar í sjónvarpi og útvarpi

F. A. Hayek

Rætt var við rannsóknastjóra RNH, dr. Hannes H. Gissurarson prófessor, í sjónvarpi og útvarpi 7. apríl 2021 í tilefni nýrrar bókar hans, Twenty-Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf í árslok 2020 út í tveimur bindum. Andrés Magnússon átti langt viðtal við hann í Þjóðmálum, sjónvarpi Morgunblaðsins fyrir áskrifendur. Þar sagði Hannes, að hann teldi Friedrich von Hayek djúpsæjasta hugsuðinn af þeim tuttugu og fjórum, sem hann hefði skrifað um í bókinni. Hayek hefði eflt að rökum tvær voldugustu hugmyndir Adams Smiths, að eins gróði þyrfti ekki að vera annars tap og að skipulag þyrfti ekki alltaf á skipuleggjanda að halda. Hann hefði líka betrumbætt kenningu Ludwigs von Mises um, að sósíalisminn gengi ekki upp. Dreifing þekkingarinnar krefðist dreifingar valdsins. Hannes kvað eitt meginstef bókar sinnar vera, að frjáls markaður væri nauðsynlegt, en ekki nægilegt skilyrði frelsisins. Það yrði einnig að hvíla á siðferðilegum forsendum, virðingu fyrir fornum dygðum og arfhelgum verðmætum. Þar ættu orð eins og „sameign“ og „sálufélag“ við.

Snorri Sturluson

Bogi Ágústsson ræddi við Hannes í Speglinum í Ríkisútvarpinu. Hannes skýrði, hvers vegna kafli væri um Snorra Sturluson í bókinni. Snorri hefði komið orðum að þeim hugmyndum, sem John Locke hefði síðan notað til að verja byltinguna 1688, að sömu lög giltu um konunga og aðra og að uppreisn gegn þeim væri réttlætanleg, brytu þeir lögin. Í Heimskringlu væri lýst árekstri tveggja hugmynda um lög, að þau væru sammæli borgaranna eða fyrirmæli konunganna. Snorri hefði verið að segja hug sinn með ræðu Einars Þveræings. Það væri líka athyglisvert, að Egill Skallagrímsson, sem Sigurður Nordal kallaði fyrsta einstaklinginn, væri ein aðalsöguhetja Snorra. Íslendinga sögur hefðu ekki síst sprottið af þörf Íslendinga fyrir að skilgreina þjóðareðli sitt, eftir að ásælni Noregskonungs jókst. Mat á Snorra hefði litast um of neikvæðri afstöðu hins eindregna konungssinna Sturlu Þórðarsonar til hans.

Þórður Gunnarsson ræddi við Hannes í Markaðnum, viðskiptafréttum í sjónvarpi Fréttablaðsins. Hannes taldi vel geta verið, að vinstri bylgja væri risin meðal ungs fólks, en það hefði verið algengt áður fyrr, svo að enginn ætti að kippa sér upp við það. Hins vegar hefði verið sérstakt ástand í heiminum eftir fall sósíalismans um og eftir 1990. Sósíalistar hefðu verið sem lamaðir. Jafnframt hefðu stjórnmálamenn eins og Margrét Thatcher og Ronald Reagan tekið upp hugmyndir frjálslyndra hagfræðinga eins og Hayeks og Miltons Friedmans. Hannes kvaðst sammála Friedman um það, að forstjórar fyrirtækja ættu ekki að ráðstafa hagnaði þeirra að eigin geðþótta, heldur greiða hann út hluthöfunum, svo að þeir gætu valið um, hvert hann færi.

Gísli Freyr Valdórsson ræddi í apríl 2021 við Hannes í hlaðvarpi sínu, Þjóðmálum. Þar lagði Hannes áherslu á, að ríkið þyrfti ekki að vera fjandsamlegt frelsinu, væri vel á málum haldið. Það veitti ómetanlega þjónustu og væri um leið staðfesting á sameiginlegri tilvist Íslendinga sem einnar þjóðar. Hann sagði, að frjálst hagkerfi hefði bætt lífskjör Íslendinga stórlega, og gagnrýndi hugmyndir um að takmarka skattasamkeppni milli ríkja.

Comments Off

Blaðaviðtöl vegna nýrrar bókar

Ljósm.: Mbl./Eggert

Þrír stærstu prent- og netmiðlar landsins hafa rætt við rannsóknastjóra RNH, dr. Hannes H. Gissurarson prófessor, í tilefni nýrrar bókar hans, Twenty-Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf í árslok 2020 út í tveimur bindum. Í Vísi ræddi Jakob Bjarnar Grétarsson 27. mars 2021 við Hannes, sem taldi rétt að gera greinarmun á ágirnd og eðlilegri sjálfsbjargarhvöt, en það væri einn höfuðkostur hins frjálsa hagkerfis, að þar væri hvoru tveggja snúið til almannaheilla, ágirndinni haldið í skefjum. Hannes lagði áherslu á, að frjálslynd íhaldsstefna snerist ekki aðeins um hagvöxt, heldur líka um tilgang lífsins og tilvist manna innan sjálfsprottinna heilda. Það væri rétt, að útgefandinn í Brüssel væri tengdur evrópskum íhaldsflokkum, en margir þeirra hugsuða, sem hann skrifaði um, hefðu einmitt tekið virkan þátt í stjórnmálum. Snorri Sturluson hefði verið lögsögumaður, Edmund Burke setið í neðri málstofu breska þingsins, þeir Benjamin Constant, Frédéric Bastiat og Alexis de Tocqueville allir setið á franska þinginu og Tocqueville um skeið verið utanríkisráðherra, Acton lávarður verið ráðgjafi Gladstones, Carl Menger setið í efri deild austurríska þingsins, Wilhelm Röpke verið ráðgjafi Adenauers og Erhards og þeir Friedrich von Hayek og Milton Friedman verið ráðgjafar Thatchers og Reagans. Aðrir hefðu á hinn bóginn verið kyrrlátir fræðimenn, frekar skrifað stjórnmálin en lifað. Hannes vísaði því á bug, að hin alþjóðlega fjármálakreppa árin 2007–2009 hefði verið dauðadómur yfir frjálslyndri íhaldsstefnu (sem stundum væri kölluð nýfrjálshyggja). Bestu skýringuna á kreppunni mætti sækja í kenningu Hayeks, að hún stafaði af peningaþenslu áranna á undan, og á hana hefði verið beitt úrræðum Friedmans, að seðlabankar sæju viðskiptabönkum fyrir lausafé, en Friedman hefði einmitt gagnrýnt bandaríska seðlabankann fyrir að vanrækja það 1929–1933.

Í Fréttablaðinu ræddi Þórarinn Þórarinsson 30. mars við Hannes, sem sagði, að frjálslynd íhaldsstefna snerist um að halda í fengið frelsi, varðveita og rækta hina vestrænu menningararfleifð. Hannes minntist í viðtalinu á kynni sín af fimm þeirra hugsuða, sem hann skrifar um, þeim Friedrich von Hayek, Karli R. Popper, Milton Friedman, James M. Buchanan og Robert Nozick. Sérstaklega hefði Friedman verið orðheppinn og skemmtilegur. Þeir Snorri Sturluson og heilagur Tómas af Akvínas ættu heima í þessum hópi, þótt frjálshyggja sem stjórnmálastefna yrði ekki til fyrr en í byltingunni dýrlegu í Bretlandi 1688, því að þeir hefðu báðir talið ríkisvaldið takmarkast, í dæmi Snorra af hinum góðu, gömlu lögum, venjuréttinum, í dæmi Tómasar af náttúru- eða eðlisrétti.

Í Morgunblaðinu ræddi Stefán Gunnar Sveinsson 31. mars við Hannes, sem rifjaði upp, að hann hefði skrifað doktorsritgerð í Oxford fyrir þrjátíu og fimm árum um frjálslynda íhaldsstefnu Hayeks. Tvennt hefði breyst í skoðunum sínum frá þeim tíma. Annars vegar kynni hann nú betur að meta þjóðernishyggju, heilbrigða þjóðrækni, og hins vegar skildi hann betur, að hin sögulega þróun yrði að vera við gagnkvæma aðlögun einstaklinga og hópa, í sæmilegri sátt, enda vildu frjálslyndir íhaldsmenn umbætur frekar en byltingar. Hannes kvað frjálslynda íhaldsstefnu ekki reista á þröngri nytjastefnu. Maðurinn væri ekki sálarlaus reiknivél, og lífið snerist ekki aðeins um efnisleg gæði. Til viðbótar við frjálsan markað þyrfti að koma hæfileg íhaldssemi, virðing fyrir fornum dygðum eins og iðjusemi, háttvísi, skilvísi og stundvísi. Tilveran þyrfti í senn að vera í sæmilega föstum skorðum og búa yfir þeirri ögrun og óvissu, sem skýrði sköpunarmátt kapítalismans. Hannes sagði, að jarðarbúar hefðu þrátt fyrir allt aldrei búið við eins góð kjör og um þessar mundir, og það væri ekki síst frelsinu að þakka. Að því væri hins vegar víða sótt af hörku, og vonandi lærðum við ekki aðeins að meta frelsið eftir að hafa misst það.

Comments Off

Hannes á fund forseta

Rannsóknastjóri RNH, dr. Hannes H. Gissurarson prófessor, gekk á fund forseta Íslands, dr. Guðna Th. Jóhannessonar, á Bessastöðum 30. mars 2021 og afhenti honum eintak af nýútkominni bók sinni, Twenty-Four Conservative-Liberal Authors, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í árslok 2020. Bókin, sem er 884 blaðsíður, er í tveimur bindum og líka aðgengileg á netinu. Á meðal hugsuðanna, sem Hannes skrifar um, eru tveir Norðurlandabúar, Snorri Sturluson og Anders Chydenius, og fimm fræðimenn, sem hann kynntist sjálfur, Friedrich von Hayek, Karl R. Popper, Milton Friedman, James M. Buchanan og Robert Nozick. Áttu þeir Hannes og Guðni að afhendingu lokinni langt spjall saman yfir kaffibolla, aðallega um sögu Íslands og annarra landa.

Comments Off

Fimm ný félög ganga inn í Evrópuvettvanginn

Dr. Lukas Kamiński.

Evrópuvettvangur minningar og samvisku, Platform of European Memory and Conscience, hélt ársþing sitt 2020 á netinu 25. janúar 2021, en ætlunin hafði verið að halda það í Prag í nóvember, en því varð að breyta vegna kórónufaraldursins. Tilgangur vettvangsins er að halda á lofti minningu fórnarlamba alræðisstefnu tuttugustu aldar, kommúnismans ekki síður en nasismans. RNH hefur átt aðild að vettvangnum frá 2013, en rannsóknastjóri RNH, dr. Hannes H. Gissurarson prófessor, sneri Svartbók kommúnismans á íslensku og samdi einnig sögu íslensku kommúnistahreyfingarinnar, Íslenska kommúnista 1918–1998. Sagnfræðingurinn dr. Lukasz Kamiński frá Póllandi var endurkjörinn forseti vettvangsins, en fimm ný félög gengu inn í hann, frá Bretlandi, Slóveníu, Úkraínu, Georgíu og Tékklandi. Evrópuþingið hefur gert 23. ágúst að minningardegi fórnarlamba alræðisstefnunnar, en þann dag árið 1939 gerðu Stalín og Hitler með sér hinn svokallaða griðasáttmála og skiptu á milli sín Mið- og Austur-Evrópu.

RNH hefur stutt það framtak Almenna bókafélagsins að gefa út Safn til sögu kommúnismans undir ritstjórn Hannesar H. Gissurarson, en nú eru komin út á netinu og á prenti í þeim flokki ritin:  Greinar um kommúnisma eftir breska heimspekinginn Bertrand Russell (2015); Konur í þrælakistum Stalíns eftir Elinor Lipper frá Sviss og Aino Kuusinen frá Finnlandi (2015); Úr álögum eftir þýska kommúnistann Jan Valtin, öðru nafni Richard Krebs (2015); Leyniræðan um Stalín eftir rússneska einræðisherrann Níkita Khrústsjov (2016); El campesino – Bóndinn eftir spænska herforingjann Valentín González (2016); Örlaganótt yfir Eystrasaltslöndum eftir eistneska bókmenntafræðinginn Ants Oras (2016); Eistland. Smáþjóð undir oki erlends valds eftir sænsk-eistneska blaðamanninn Anders Küng (2016); Þjónusta, þrælkun, flótti eftir finnska prestinn Aatami Kuortti (2016); Ráðstjórnarríkin: Goðsagnir og veruleiki eftir ensk-ungverska rithöfundinn Arthur Koestler (2017); Ég kaus frelsið eftir úkraínska flóttamanninn Víktor Kravtsjenko (2017); Nytsamur sakleysingi eftir sænska kommúnistann Otto Larsen (2017); Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958 eftir Tómas Guðmundsson, Gunnar Gunnarsson, Kristmann Guðmundsson, Guðmund G. Hagalín, Sigurð Einarsson í Holti og Davíð Stefánsson frá Fagraskógi (2018); og Framtíð smáþjóðanna: Erindi á Norðurlöndum 1946–1948 eftir norska skáldið Arnulf Øverland (2019). Einnig hefur  hugveitan New Direction í Brüssel birt skýrslu eftir Hannes, sem var upphaflega tekin saman fyrir Evrópuvettvanginn, Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature , þar sem hann ræddi um sögulegt eðli kommúnismans og bókmenntaverk um hann, þar á meðal fangabúðasögur, skáldsögur, sagnfræðirit og sjálfsævisögur.

Comments Off

Hannes fastur dálkahöfundur í The Conservative

Rannsóknastjóri RNH, dr. Hannes H. Gissurarson prófessor, er orðinn fastur dálkahöfundur í netblaðinu The Conservative, sem samtök íhalds- og umbótaflokka í Evrópu gefa út. Fyrsta grein Hannesar birtist í blaðinu 11. nóvember og var um úrslitin í bandaríska forsetakjörinu. Næst skrifaði Hannes um kunna sögu í stjórnmálaheimspeki, ánægjuvél Nozicks, og benti á, að þýskur heimspekingur hefði seint á nítjándu öld sagt svipaða sögu. Þá skrifaði Hannes um þá þversögn lýðræðisins, að í kjörklefanum kysu menn oft á móti mönnum og málum, en í kjörbúðinni kysu þeir það, sem þeir vildu. Þessu næst rifjaði Hannes upp kynni sín af Margréti Thatcher í tilefni lýsingarinnar á henni í sjónvarpsþáttaröðinni Krúnunni, sem er um bresku konungsfjölskylduna. Þá sagði Hannes frá sögulegri heimsókn Winstons Churchills til Íslands, þegar hann heilsaði í fyrsta sinn opinberlega með sigurmerki sínu, V-inu. Í síðustu grein sinni árið 2020, sem birtist 10. desember, gagnrýndi Hannes sameiginlega fiskveiðistefnu Evrópusambandsins og bar hana saman við árangursríka fiskveiðistefnu Íslendinga.

Comments Off