Hannes: Menntamenn andvígir markaðnum

Hannes H. Gissurarson, prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands, var gestur Frosta Logasonar í hlaðvarpi hans 11. maí 2023. Hann var meðal annars spurður, hvers vegna menntamenn væru flestir andvígir frjálsum markaði. Hannes svaraði, að margar skýringar hefðu verið nefndar á því. Sé gert ráð fyrir, að hæfileikum sé skipt jafnt milli hægri og vinstri manna, sé sá munur á, að hægri sinnaðir hæfileikamenn leggi fyrir sig viðskipti eða verði læknar, lögfræðingar og verkfræðingar, en vinstri sinnaðir hæfileikamenn gerist kennarar eða fjölmiðlamenn. Hægri menn hafi áhuga á verkum, vinstri menn á orðum. Hæfileikar hægri manna séu hagnýts eðlis, en vinstri menn bóklegs. Hægri menn séu sáttir við lífið og reyni þess vegna ekki að frelsa heiminn, en vinstri menn iðulega óánægðir mælskugarpar í leit að nýjum draumum, eftir að þeir gömlu hafi brostið.

Margar fleiri skýringar séu til á þessum halla, sagði Hannes. Ludwig von Mises hafi varpað fram þeirri tilgátu, að vinstri sinnaðir menntamenn séu andvígur frjálsum markaði, af því að þeir sjái fram á, að lítil eftirspurn sé þar eftir þjónustu þeirra. Þeir hafni markaðnum, af því að markaðurinn hafni þeim. Robert Nozick hafi viðrað skylda tilgátu, sem sé, að í skólum hafi hæfileikar vinstri sinnaðra orðasmiða notið sín, þeir hafi þar verið ofarlega í virðingarstiganum, því að þeir hafi kunnað að koma fyrir sig orði. En þegar komi út í lífið sjálft, sé skyndilega allt annar virðingarstigi algengastur, þar sem þeir lendi fremur neðarlega. Bekkjarfélaginn, sem hafi ekki tekið hæstu prófin, lært ljóð utan að og þulið eða fengið flestar stjörnur hjá kennaranum í vinnubókina sína, sé orðinn eftirsóttur rafvirki með miklu hærri laun. Þetta finnist orðasmiðunum hið argasta ranglæti. Friedrich A. von Hayek hafi sett fram þriðju tilgátuna, og hún sé, að margir menntamenn geti ekki ímyndað sér, að fyrirbæri geti sprottið upp, án þess að einhver gáfumaður hafi lagt á ráðin um þau. Þeir haldi, að öll þekking sé bókleg og rökleg, en margvísleg þekking sé það einmitt ekki. Til sé hagnýt þekking og kunnátta, sem búi í einstaklingum og sé ekki færanleg á milli þeirra. Mannlífið geti verið skipulegt án þess að vera skipulagt.

Hannes sagði frá því, að málþing yrði haldið honum til heiðurs 12. maí vegna starfsloka hans, og myndu þar margir tala, þar á meðal prófessorarnir Þráinn Eggertsson, Þór Whitehead og Ragnar Árnason, Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og nokkrir gestir frá útlöndum, þau Gabriela von Habsburg, dr. Barbara Kolm, dr. Tom Palmer og prófessor Stephen Macedo.

Comments Off

Málstofa í Lissabon Hannesi til heiðurs

Á fjölmennri ráðstefnu evrópskra frjálshyggjustúdenta í Lissabon 22.–23. apríl var sérstök dagskrá helguð Hannesi H. Gissurarsyni, rannsóknastjóra RNH, í tilefni sjötugsafmælis hans og starfsloka í Háskóla Íslands. Robert Tyler, sérfræðingur í hugveitunni New Direction í Brüssel, ræddi við Hannes, sem sagði samkomunni, að þrjár bækur hefðu haft mest áhrif á sig ungan, The Gulag Archipelago eftir Aleksandr Solzhenítsyn, The Open Society and Its Enemies eftir Karl Popper og The Road to Serfdom eftir Friedrich von Hayek. Hefði Hayek komið til Íslands í apríl 1980 og Milton Friedman í ágúst 1984, og hefðu fyrirlestrar þeirra vakið mikla athygli. Hitti Hannes þá tvo oft eftir það, en kvað einkennilegt til þess að vita, að ekki væru nú margir á lífi, sem kynnst hefðu þessum andans jöfrum jafnvel.

Mörgum ráðstefnugestum þótti merkilegt, að Hannes hefði haustið 1984 rekið ásamt nokkrum vinum ólöglega útvarpsstöð í því skyni að mótmæla ríkiseinokun á útvarpsrekstri. Eftir eltingarleik í röska viku fann lögreglan loks stöðina og lokaði, og hlaut Hann eftir það sinn fyrsta dóm, og sagði Hannes þennan dóm eina, sem hann væri stoltur af. En þeir félagar náðu tilgangi sínum, því að í framhaldinu samþykkti Alþingi að afnema ríkiseinokunina.

Hannes sagði líka frá hinum víðtæku umbótum, sem Davíð Oddsson og aðrir samherjar hans beittu sér fyrir upp úr 1991, en kostir þeirra sáust best á því, hversu snöggir Íslendingar voru að rétta úr kútnum eftir bankahrunið 2008. Rifjaði Hannes upp, þegar hann fór með Davíð í Hvíta húsið 6. júlí 2004, en þar sungu þeir í Ávölustofu (Oval Office) afmælissönginn alkunna fyrir Bush Bandaríkjaforseta, því að hann varð 58 ára þennan dag, þótt ekki væri söngurinn jafnkliðmjúkur og þegar Marilyn Monroe söng forðum fyrir Kennedy forseta, eins og Colin Powell utanríkisráðherra, sem stóð þá við hlið Hannesar, hafði orð á við hann.

Comments Off

Hannes gagnrýnir Rawls í Amsterdam

Fyrsta kauphöll heims, sem enn starfar, var stofnuð í Amsterdam árið 1602. Hún hafði lengi aðsetur í reisulegu húsi við Oudebrugsteeg (Gömlubrúarstíg), og þar flutti Hannes H. Gissurarson, rannsóknastjóri RNH, fyrirlestur 20. apríl 2023 í fundarsal stjórnar kauphallarinnar. Átti það vel við, því að Hannes varði þar kapítalismann fyrir rökum jöfnunarsinna. Fremstur þeirra fræðilega var bandaríski heimspekingurinn John Rawls, sem setti fram kenningu um réttlæti árið 1971. Hún var í fæstum orðum, að réttlátt væri það skipulag, þar sem hinir verst settu nytu eins góðra lífskjara og framast gæti orðið. Um slíkt skipulag hlytu upplýstir menn, sem vissu þó ekki, hvernig þeim myndi sjálfum vegna í lífinu, að semja.

Hannes spurði, hvers vegna upplýstir menn, sem væru að semja um framtíðarskipulag, hefðu aðeins í huga kjör hinna verst settu. Hvað um hina best settu, sem iðulega væru hinir hæfustu? Væri ekki skynsamlegra að semja um öryggisnet, sem enginn félli niður fyrir, en leyfa hinum hæfustu síðan að afla eins hárra tekna og þeir gætu? Rawls horfði líka fram hjá því, hvers vegna sumir lentu í röðum hinna verst settu, til dæmis vegna leti og óráðsíu. Frjálst val einstaklinga á markaði hlyti enn fremur að raska tekjudreifingunni, svo að stundum yrði hún ójafnari, án þess að neinu ranglæti hefði verið beitt. Það væri eitthvað einkennilegt við að segja, að Salieri hefði orðið verr settur við það, að Mozart kom í heiminn.

Hvað sem slíkum röksemdum liði, væri ljóst, sagði Hannes, að hinir verst settu nytu miklu betri lífskjara við kapítalisma en annars staðar. Væri hagkerfum heims skipt í fernt eftir atvinnufrelsi, reyndust meðaltekjur 10% tekjulægsta hópsins í frjálsasta fjórðungnum hærri en meðaltekjur allra í ófrjálsasta fjórðungnum!

Comments Off

Hannes gagnrýnir Piketty í París

Hannes H. Gissurarson, rannsóknastjóri RNH, fetaði í fótspor þjóðsagnahetjunnar Sæmundar fróða í Svartaskóla, Sorbonne, í París, nema hvað þar flutti Hannes fyrirlestur 19. apríl 2023, en var ekki aðeins að afla fróðleiks eins og Sæmundur forðum. Fyrirlestur Hannesar hafði meðal annars að geyma gagnrýni á kenningar franska hagfræðingsins Tómasar Pikettys, átrúnaðargoðs vinstri manna. Piketty hefur ekki áhyggjur af fátækt, heldur velmegun. Sumir séu orðnir allt of ríkir, og ná þurfi auðnum af þeim með háum alþjóðlegum sköttum.

Í Svartaskóla benti Hannes á, að í heiminum sem heild hefði tekjudreifing orðið jafnari síðustu áratugi, þótt líklega hefði hún orðið nokkru ójafnari á Vesturlöndum. Í suðrænum löndum hefur fátækt snarminnkað og hundruð milljóna stikað á sjömílnaskóm í bjargálnir. Í útreikningum sínum leiðrétti Piketty ekki fyrir skekkjum, sem hljótast af fasteignabólum (ofmati á eignum efnafólks) og lækkun skatta á háar tekjur (svo að þær koma skýrar og beinna fram), og tæki lítið sem ekkert tillit til jöfnunaráhrifa skatta (vanmæti kaupmátt tekjulægsta hópsins). Piketty lokaði líka augunum fyrir því gagni, sem auðmenn gera án þess að ætla sér það: Þeir verða mótvægi við opinberu valdi, lækka tilraunakostnað nýjunga, sem breytast úr munaðarvöru í almenningseign, og leggja fé í fjárfestingar.

Áhyggjur Pikettys af því, að auðurinn hafi orðið fastur við fámennan hóp, er enn fremur tilefnislaus að sögn Hannesar. Á listum, sem birtast reglulega um ríkasta fólkið, sést mikil breyting. Áður fyrr hafði meiri hlutinn erft auðæfi sín. Nú hefur meiri hlutinn skapað þau sjálfur. Raunar er sú skáldsaga frá öndverðri nítjándu öld, sem Piketty vitnar oftast í, Faðir Goriot eftir Balzac, einmitt lýsing á því, hversu fallvaltur auðurinn er.

Comments Off

Hannes um frumkvöðla í Lundúnum

Frá v.: dr. Barbara Kolm, dr. Dan Mitchell og Hannes.

Í málstofu í Lundúnum 18. apríl var Hannesi H. Gissurarsyni, rannsóknastjóra RNH, falið að ræða um hlutverk frumkvöðla á frjálsum markaði. Þegar Karl Marx skipti á nítjándu öld fólki í tvær stéttir, borgara og öreiga, horfði hann fram hjá þeim, sem lifa af að selja þekkingu sína, kunnáttu og hugvit frekar en hrátt vöðvaafl, svo sem rafvirkjum, tölvunarfræðingum, læknum og verkfræðingum. Atvinnulífið er ekki ein stór verksmiðja, heldur iðandi kös ótal ólíkra fyrirtækja og einstaklinga, sem skiptast á vöru og þjónustu, þegar þeir sjá sér hag í því. Marx horfði líka fram hjá þeim, sem knýja áfram hagkerfið með því að fitja upp á á nýjungum, frumkvöðlum, áhættufjárfestum og framkvæmdamönnum.

Flestir viðurkenna, að nýsköpun sé nauðsynleg, sagði Hannes. En spurningin er, hvort hún sé líklegri við einn opinberan nýsköpunarsjóð með tíu manna stjórn, sem ákveði, í hverju skuli festa fé, eða við tíu þúsund eða fleiri aflögufæra áhættufjárfesta. Sjóðurinn gerir í mesta lagi nokkrar tilraunir á ári, en tíu þúsund áhættufjárfestar gera væntanlega að minnsta kosti tíu þúsund tilraunir. Enn fremur er hæfileikinn til að sannfæra meiri hlutann í sjóðstjórn um verkefni, til dæmis með áferðarfallegum glærum og myndugum málflutningi, ekki nauðsynlega hæfileikinn til að reka fyrirtæki með hagnaði til langs tíma. Ályktunin hlýtur að vera, að nýsköpun sé líklegust í skipulagi einkaeignar, viðskiptafrelsis og valddreifingar, markaðskerfi.

Frumkvöðlar eru að sögn Hannesar sjaldnast reknir áfram af ágirndinni einni saman, heldur miklu miklu fremur af sköpunargleði, forvitni, nýjungagirni og metnaði. Og um leið og þeir hagnast sjálfir, gera þeir öðrum gagn. Þetta sést best á kjörum fátæklinga í ólíkum hagkerfum. Ef löndum heims er skipt í fernt eftir því, hversu víðtækt atvinnufrelsi er, þá eru meðaltekjur 10% tekjulægsta hópsins í frjálsasta fjórðungnum hærri en meðaltekjur í heild í ófrjálsasta fjórðungnum samkvæmt mælingum Fraser-stofnunarinnar í Vancouver.

Comments Off

Hannes um hamingjuna í Bristol

Hið forna heiti borgarinnar Bristol í Englandi var Brycgstow, sem merkir Brúarstæði. Hún kemur nokkuð við sögu Íslendinga á fimmtándu öld, þegar Englendingar, ekki síst frá Bristol, stunduðu fiskveiðar og verslun við Íslandsstrendur. Árið 1484 voru 48 Íslendingar skráðir í borginni, og nokkrir kaupmenn þar versluðu jöfnum höndum við Ísland og Portúgal. Þessi fjöruga verslun lagðist niður við dönsku einokunina. Á ráðstefnu í Bristol 17. apríl var Hannesi H. Gissurarsyni, rannsóknarstjóra RNH, falið að segja nokkur orð um, hvernig jarðarbúar gætu leitað hamingjunnar, friðsældar og hagsældar. Hann kvað lítið um svör, þegar stórt væri spurt, en benti á, að eðlilegra væri að reyna að minnka óhamingjuna frekar en auka hamingjuna, ekki síst af því að menn vissu betur, hvað óhamingja væri: fátækt, ofbeldi, stríðsrekstur og sjúkdómar.

Hannes gerði í þessu sambandi lauslegan samanburð á úrræðum vinstri manna og hægri manna. Vinstri menn vilja gera fátæktina léttbærari með því að hjálpa fátæklingum. Hægri menn vilja gera fátæktina sjaldgæfari með því að fækka fátæklingum, og það má gera með því að fjölga með auknu atvinnufrelsi tækifærum til að brjótast úr fátækt í bjargálnir.

Vinstri menn vilja minnka ofbeldi með því að hlusta skilningsríkir á ofbeldisseggina tala, aðallega um misjafna æsku þeirra. Hægri menn vilja halda ofbeldisseggjum í skefjum með harðskeyttri lögreglu og ströngum refsingum.

Vinstri menn vilja banna stríðsrekstur með yfirlýsingum og sáttmálum. Hægri menn telja slík skjöl lítils virði, ef engir eru bakhjarlarnir. Orðagaldur breytir ekki úlfum í lömb. Óvopnaðir samningamenn fá litlu áorkað.

Vinstri menn vilja ráðast á sjúkdóma með því að reka stórar og dýrar heilbrigðisstofnanir. Hægri menn telja einsýnt, að besta heilsubótin felist í góðum lífskjörum. Hagvöxturinn bægði burt fornum fjendum Íslendinga, myrkrinu, kuldanum og rakanum, sagði Hannes, og nú brugga öflug einkafyrirtæki sífellt ný og betri lyf og smíða ný og betri tæki til að lækna margvísleg mein.

Comments Off