Aðalfundur AB 2023

Frá v.: Þórdís Edwald, Jónas Sigurgeirsson, Karítas Kvaran, Ármann Þorvaldsson, Hannes H. Gissurarson, Kjartan Gunnarsson, Sigríður Snævarr, Baldur Guðlaugsson og Rósa Guðbjartsdóttir.

Almenna bókafélagið hélt aðalfund sinn 26. maí 2023. Félagið var stofnað 17. júní 1955 til mótvægis við hin miklu áhrif kommúnista í íslensku menningarlífi, en þeir ráku öflugt útgáfufyrirtæki, Mál og menningu, sem haldið var uppi með Rússagulli, eins og skjöl í Moskvu sýna. AB er nú hins vegar venjulegt útgáfufyrirtæki frekar en bókafélag. Framkvæmdastjóri þess, Jónas Sigurgeirsson, flutti skýrslu um starfsemina á liðnu ári, en aðrir hluthafar eru Ármann Þorvaldsson, Baldur Guðlaugsson og Kjartan Gunnarsson. Aðalfundinn sótti einnig ráðgjafi AB, Hannes H. Gissurarson, prófessor emeritus í Háskóla Íslands. Tvær bækur AB árið 2022 vöktu mikla athygli. Önnur var Uppgjör bankamanns eftir Lárus Welding, sem var bankastjóri Glitnis í bankahruninu 2008 og sætti eftir það rannsókn og jafnvel gæsluvarðhaldsvist. Hin bókin var Landsdómsmálið eftir Hannes H. Gissurarson, en þar leiðir hann rök að því, að málareksturinn gegn Geir H. Haarde, sem var forsætisráðherra í bankahruninu, hafi verið meingallaður. Margir rannsóknaraðilar hafi verið vanhæfir vegna margvíslegra tengsla og forsögu, réttur Geirs til eðlilegrar málsmeðferðar hafi ekki verið virtur og sakfelling hans í Landsdómi fyrir að setja vanda bankanna ekki á dagskrá ráðherrafunda sé reist á augljósri mistúlkun stjórnarskrárinnar íslensku.

Comments Off

Hannes í Helsinki um norræna frjálshyggju

Hannes H. Gissurarson, rannsóknastjóri RNH, flutti erindi á ráðstefnu norrænna íhaldsstúdenta í Helsinki í Finnlandi 20. maí 2023 um, hvað skildi norræna frjálshyggju frá sambærilegum stefnum í öðrum Evrópulöndum. Hann benti á, að norrænar þjóðir hefðu allt frá frumdögum germanskrar menningar átt sér hugmynd um sjálfstjórn einstakra ættbálka, sem farið hefði fram með því, að menn hefðu komið saman á þingum og ráðið ráðum sínum, eins og rómverski sagnritarinn Tacitus sagði frá í Germaníu. Til hefði orðið norrænn réttur, viðleitni bænda til að halda konungum í skefjum, sem lýst væri í ræðum Þorgeirs Ljósvetningagoða og Þorgnýs lögmanns hins sænska, svo að ekki sé minnst á orð Einars Þveræings. Þessari hugmynd um lög sem sammæli borgaranna frekar en fyrirmæli að ofan sjái líka stað í hinum Jósku lögum frá 1241, en þau hefjast einmitt á því, að með lögum skuli land byggja. Enn fremur eru reglur fyrir dómara eftir Olaus Petri frá um 1525 í sama anda.

Tvisvar hefði verið reynt að rjúfa hina norrænu hefð laga og réttar, fyrst þegar einvaldskonungar hefðu seilst til valda á síðmiðöldum og eftir það og síðan þegar svokallaðir jafnaðarmenn hefðu öðlast víðtæk völd á tuttugustu öld í krafti fjöldafylgis. En einveldi í vaðmálsklæðum væri engu skárra en purpuraklætt einveldi, sagði danski frjálshyggjumaðurinn Nathan David á nítjándu öld. Aðalatriðið væri að takmarka ríkisvaldið, ekki í höndum hvers það væri. Hannes benti á, að jafnt konungar sem jafnaðarmannaleiðtogar hefðu þó þurft að laga stefnu sína að hinni fornu norrænu hefð, og raunar hefði jafnaðarstefna látið undan síga í lok tuttugustu aldar. Velgengni Norðurlanda væri aðallega vegna öflugs réttarríkis, frjálsra alþjóðaviðskipta, mikillar samkenndar og ríks trausts manna í milli, en úr því kynni að draga með fjöldainnflutningi fólks, ef það vildi ekki semja sig að norrænum siðum.

Comments Off

Starfslokaráðstefna Hannesar

Í tilefni þess, að Hannes H. Gissurarson varð sjötugur 19. febrúar 2023, hélt Háskóli Íslands 180 manna starfslokaráðstefnu honum til heiðurs 12. maí, þar sem ellefu manns töluðu, en síðan var móttaka í húsakynnum skólans.

Dr. Barbara Kolm, forstöðumaður Hayek-stofnunarinnar í Vín og varaformaður bankaráðs austurríska seðlabankans, talaði um trausta peninga. Prófessor Bruce Caldwell, Duke-háskóla, rakti rannsóknir sínar á ævi Friedrichs von Hayeks. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra lýsti því, hvernig Íslendingar komust út úr fjármálakreppunni, sem skall á 2008. Gabriela von Habsburg, myndhöggvari og fyrrverandi sendiherra Georgíu í Þýskalandi (og barnabarn síðasta keisara Austurríkis-Ungverjalands), sagði sögu Georgíu, smáríkis í hinum enda Evrópu. Prófessor Þráinn Eggertsson greindi hina stórfelldu tilraun í Kína til að sameina vaxandi atvinnulíf og flokkseinræði. Prófessor Stephen Macedo, Princeton-háskóla, varaði við þeirri illsku, sem hlaupin væri í stjórnmálaátök.

Prófessor Þór Whitehead ræddi um afstöðu Churchills og Roosevelts til Íslands. Dr. Neela Winkelmann, fyrrverandi forstöðumaður Evrópuvettvangs minningar og samvisku, sagði frá tilgangi og starfsemi vettvangsins. Yana Hrynko, safnstjóri í Kænugarði, fór orðum um samskipti Rússa og Úkraínumanna. Prófessor Ragnar Árnason leiddi rök að því, að nýta mætti ýmsar auðlindir með því að finna þeim eigendur og ábyrgðarmenn. Dr. Tom G. Palmer, forstöðumaður alþjóðasviðs Atlas Network, kvaðst hafa áhyggjur af þróuninni víða í átt frá lýðræði og frelsi.

Allar þessar ræður eru á Netinu. Forseti Íslands, dr. Guðni Th. Jóhannesson, tók á móti ræðumönnum og fleiri gestum á Bessastöðum, jafnframt því sem forseti Alþingis, Birgir Ármannsson, sýndi erlendum gestum Alþingishúsið og fjármálaráðherra bauð ræðumönnum og fleiri gestum í Ráðherrabústaðinn að ráðstefnunni lokinni.

Comments Off

Hannes: Menntamenn andvígir markaðnum

Hannes H. Gissurarson, prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands, var gestur Frosta Logasonar í hlaðvarpi hans 11. maí 2023. Hann var meðal annars spurður, hvers vegna menntamenn væru flestir andvígir frjálsum markaði. Hannes svaraði, að margar skýringar hefðu verið nefndar á því. Sé gert ráð fyrir, að hæfileikum sé skipt jafnt milli hægri og vinstri manna, sé sá munur á, að hægri sinnaðir hæfileikamenn leggi fyrir sig viðskipti eða verði læknar, lögfræðingar og verkfræðingar, en vinstri sinnaðir hæfileikamenn gerist kennarar eða fjölmiðlamenn. Hægri menn hafi áhuga á verkum, vinstri menn á orðum. Hæfileikar hægri manna séu hagnýts eðlis, en vinstri menn bóklegs. Hægri menn séu sáttir við lífið og reyni þess vegna ekki að frelsa heiminn, en vinstri menn iðulega óánægðir mælskugarpar í leit að nýjum draumum, eftir að þeir gömlu hafi brostið.

Margar fleiri skýringar séu til á þessum halla, sagði Hannes. Ludwig von Mises hafi varpað fram þeirri tilgátu, að vinstri sinnaðir menntamenn séu andvígur frjálsum markaði, af því að þeir sjái fram á, að lítil eftirspurn sé þar eftir þjónustu þeirra. Þeir hafni markaðnum, af því að markaðurinn hafni þeim. Robert Nozick hafi viðrað skylda tilgátu, sem sé, að í skólum hafi hæfileikar vinstri sinnaðra orðasmiða notið sín, þeir hafi þar verið ofarlega í virðingarstiganum, því að þeir hafi kunnað að koma fyrir sig orði. En þegar komi út í lífið sjálft, sé skyndilega allt annar virðingarstigi algengastur, þar sem þeir lendi fremur neðarlega. Bekkjarfélaginn, sem hafi ekki tekið hæstu prófin, lært ljóð utan að og þulið eða fengið flestar stjörnur hjá kennaranum í vinnubókina sína, sé orðinn eftirsóttur rafvirki með miklu hærri laun. Þetta finnist orðasmiðunum hið argasta ranglæti. Friedrich A. von Hayek hafi sett fram þriðju tilgátuna, og hún sé, að margir menntamenn geti ekki ímyndað sér, að fyrirbæri geti sprottið upp, án þess að einhver gáfumaður hafi lagt á ráðin um þau. Þeir haldi, að öll þekking sé bókleg og rökleg, en margvísleg þekking sé það einmitt ekki. Til sé hagnýt þekking og kunnátta, sem búi í einstaklingum og sé ekki færanleg á milli þeirra. Mannlífið geti verið skipulegt án þess að vera skipulagt.

Hannes sagði frá því, að málþing yrði haldið honum til heiðurs 12. maí vegna starfsloka hans, og myndu þar margir tala, þar á meðal prófessorarnir Þráinn Eggertsson, Þór Whitehead og Ragnar Árnason, Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og nokkrir gestir frá útlöndum, þau Gabriela von Habsburg, dr. Barbara Kolm, dr. Tom Palmer og prófessor Stephen Macedo.

Comments Off

Málstofa í Lissabon Hannesi til heiðurs

Á fjölmennri ráðstefnu evrópskra frjálshyggjustúdenta í Lissabon 22.–23. apríl var sérstök dagskrá helguð Hannesi H. Gissurarsyni, rannsóknastjóra RNH, í tilefni sjötugsafmælis hans og starfsloka í Háskóla Íslands. Robert Tyler, sérfræðingur í hugveitunni New Direction í Brüssel, ræddi við Hannes, sem sagði samkomunni, að þrjár bækur hefðu haft mest áhrif á sig ungan, The Gulag Archipelago eftir Aleksandr Solzhenítsyn, The Open Society and Its Enemies eftir Karl Popper og The Road to Serfdom eftir Friedrich von Hayek. Hefði Hayek komið til Íslands í apríl 1980 og Milton Friedman í ágúst 1984, og hefðu fyrirlestrar þeirra vakið mikla athygli. Hitti Hannes þá tvo oft eftir það, en kvað einkennilegt til þess að vita, að ekki væru nú margir á lífi, sem kynnst hefðu þessum andans jöfrum jafnvel.

Mörgum ráðstefnugestum þótti merkilegt, að Hannes hefði haustið 1984 rekið ásamt nokkrum vinum ólöglega útvarpsstöð í því skyni að mótmæla ríkiseinokun á útvarpsrekstri. Eftir eltingarleik í röska viku fann lögreglan loks stöðina og lokaði, og hlaut Hann eftir það sinn fyrsta dóm, og sagði Hannes þennan dóm eina, sem hann væri stoltur af. En þeir félagar náðu tilgangi sínum, því að í framhaldinu samþykkti Alþingi að afnema ríkiseinokunina.

Hannes sagði líka frá hinum víðtæku umbótum, sem Davíð Oddsson og aðrir samherjar hans beittu sér fyrir upp úr 1991, en kostir þeirra sáust best á því, hversu snöggir Íslendingar voru að rétta úr kútnum eftir bankahrunið 2008. Rifjaði Hannes upp, þegar hann fór með Davíð í Hvíta húsið 6. júlí 2004, en þar sungu þeir í Ávölustofu (Oval Office) afmælissönginn alkunna fyrir Bush Bandaríkjaforseta, því að hann varð 58 ára þennan dag, þótt ekki væri söngurinn jafnkliðmjúkur og þegar Marilyn Monroe söng forðum fyrir Kennedy forseta, eins og Colin Powell utanríkisráðherra, sem stóð þá við hlið Hannesar, hafði orð á við hann.

Comments Off

Hannes gagnrýnir Rawls í Amsterdam

Fyrsta kauphöll heims, sem enn starfar, var stofnuð í Amsterdam árið 1602. Hún hafði lengi aðsetur í reisulegu húsi við Oudebrugsteeg (Gömlubrúarstíg), og þar flutti Hannes H. Gissurarson, rannsóknastjóri RNH, fyrirlestur 20. apríl 2023 í fundarsal stjórnar kauphallarinnar. Átti það vel við, því að Hannes varði þar kapítalismann fyrir rökum jöfnunarsinna. Fremstur þeirra fræðilega var bandaríski heimspekingurinn John Rawls, sem setti fram kenningu um réttlæti árið 1971. Hún var í fæstum orðum, að réttlátt væri það skipulag, þar sem hinir verst settu nytu eins góðra lífskjara og framast gæti orðið. Um slíkt skipulag hlytu upplýstir menn, sem vissu þó ekki, hvernig þeim myndi sjálfum vegna í lífinu, að semja.

Hannes spurði, hvers vegna upplýstir menn, sem væru að semja um framtíðarskipulag, hefðu aðeins í huga kjör hinna verst settu. Hvað um hina best settu, sem iðulega væru hinir hæfustu? Væri ekki skynsamlegra að semja um öryggisnet, sem enginn félli niður fyrir, en leyfa hinum hæfustu síðan að afla eins hárra tekna og þeir gætu? Rawls horfði líka fram hjá því, hvers vegna sumir lentu í röðum hinna verst settu, til dæmis vegna leti og óráðsíu. Frjálst val einstaklinga á markaði hlyti enn fremur að raska tekjudreifingunni, svo að stundum yrði hún ójafnari, án þess að neinu ranglæti hefði verið beitt. Það væri eitthvað einkennilegt við að segja, að Salieri hefði orðið verr settur við það, að Mozart kom í heiminn.

Hvað sem slíkum röksemdum liði, væri ljóst, sagði Hannes, að hinir verst settu nytu miklu betri lífskjara við kapítalisma en annars staðar. Væri hagkerfum heims skipt í fernt eftir atvinnufrelsi, reyndust meðaltekjur 10% tekjulægsta hópsins í frjálsasta fjórðungnum hærri en meðaltekjur allra í ófrjálsasta fjórðungnum!

Comments Off