Hannes í Westminster-höll

Hannes og Cleverly.

Jamie Borwick, fimmti barón Borwick, bauð Hannesi H. Gissurarsyni, rannsóknastjóra RNH, í hóf, sem hann hélt 28. júní 2023 í Cholmondeley-salnum í Westminster-höll, breska þinghúsinu, í tilefni þrjú hundruð ára afmælis Adams Smiths. Enginn veit með vissu, hvenær Adam Smith var fæddur, en hann var skírður 5. júní 1723, sem er venjulega talinn fæðingardagur hans. Utanríkisráðherra Breta, James Cleverly, flutti ræðu í hófinu og taldi frelsisboðskap Smiths enn eiga fullt erindi við okkur, en minnti líka á, að Vesturlandamenn mættu ekki láta sér nægja að njóta frelsisins, heldur yrðu þeir líka að verja það, og nú ógnuðu því tvö stórveldi, grá fyrir járnum og hin skuggalegustu, Rússland og Kína.

Hafði Hannes tækifæri til að skiptast á skoðunum við Cleverly, en Hannes er óspar á að láta þá skoðun sína í ljós, að Ísland eigi helst heima með grannríkjunum í Norður-Atlantshafi, Noregi, Bretlandi, Kanada og Bandaríkjunum, og síður í Evrópusambandinu.

Að sögn Hannesar setti afmælisbarnið sjálft, Adam Smith, fram tvær snjallar hugmyndir, sem rifja þyrfti reglulega upp. Hin fyrri er, að eins gróði þurfi ekki að vera annars tap. Menn og þjóðir geta grætt á hinni alþjóðlegu verkaskiptingu, ef og þegar ólíkir hæfileikar og landkostir fá að nýtast sem best í frjálsum viðskiptum. Seinni hugmyndin er, að hagkerfi geti verið skipulegt án þess að vera skipulagt. Regla getur komist á, þótt enginn einn aðili komi henni á. Smith orðaði það svo, að við frjálsa samkeppni á markaði leiddi „ósýnileg hönd“ menn, sem aðeins ætluðu sér að keppa að eigin hag, að því að vinna að almannahag.

Comments Off

Hannes í Eskilstuna: Íhaldsmenn og frjáls markaður

Á sumarskóla fyrir unga íhaldsmenn á Norðurlöndum í Sundbyholm-höll við Eskilstuna 18. júní 2023 var Hannes H. Gissurarson einn fyrirlesara. Hann varpaði fram tveimur spurningum. Önnur var: Af hverju eiga íhaldsmenn að styðja frjálsan markað? Svarið er: Af því að hann er ekkert annað en vettvangur manna til að keppa að markmiðum sínum, þar á meðal þeim venjum og siðum, sem íhaldsmenn vilja vernda og rækta. Ríkið hefur hins vegar tilhneigingu til þess að grafa undan slíkum venjum og siðum. Með einkarétt sinn á að beita ofbeldi er það oftast miklu róttækara og hættulegra breytingarafl en markaðurinn. Hannes benti á, að heildir eins og fjölskyldan og þjóðin væru ekki fastar og óbifanlegar. Menn fæðast inn í eina fjölskyldu og stofna aðra. Menn verða líka að fá að flytjast milli landa. Til þess að maður geti elskað land sitt, verður það að vera elskulegt, minnti Edmund Burke á. Þjóðin er dagleg atkvæðagreiðsla, kvað Ernest Renan.

Hin spurningin, sem Hannes varpaði fram, var: Af hverju eiga norrænir íhaldsmenn að vera frjálshyggjumenn? Svarið var: Af því að frjálshyggjan er þeirra annað eðli. Hún er hefð, sem hefur myndast á árþúsundum. Tacitus lýsti því þegar árið 98 e. Kr., hvernig germanskir ættbálkar stjórnuðu sér sjálfir. Þegar Ansgar biskup vildi kristna Svíþjóð um miðja níundu öld, tikynnti konungur einn honum, að hann yrði að bera erindi hans upp á þingum þegna sinna. Þegar sendimaður Frakkakonungs spurði síðar á öldinni Göngu-Hrólf og menn hans, hver hefði þar forystu, sögðust þeir allir vera jafnir. Í Heimskringlu kemur sú skoðun Snorra Sturlusonar berlega í ljós, að konungar verði að lúta lögum eins og aðrir, og geri þeir það ekki, megi setja þá af, eins og Þórgnýr lögmaður tók fram við Svíakonung árið 1018. Við þessa lagahefð og sáttmálakenningu frá miðöldum bætti Anders Chydenius rökum fyrir viðskiptafrelsi og Nikolai F. S. Grundtvig fyrir frjálsum samtökum, til dæmis skólum, söfnuðum og samvinnufélögum. Þessi frjálslynda norræna arfleifð hefur staðið af sér valdastreitu konunga að fornu og jafnaðarmanna að nýju.

Comments Off

Hannes á málstofu Frelsissjóðsins í Jórvík

Hannes H. Gissurarson, rannsóknastjóri RNH, hélt til Jórvíkur á Englandi í júníbyrjun 2023 og fetaði með því í fótspor Egils Skallagrímssonar. Hannes hefur að vísu talið Höfuðlausn, sem Egill á forðum að hafa flutt Eiríki konungi blóðöx, grunsamlega ófornfálegt kvæði, ekki síst vegna hins suðræna endaríms. Hefur hann spurt, hvort Snorri hafi ef til vill ort það sjálfur. Erindi Hannesar til Jórvíkur var að vísu þessu óskylt. Honum var boðið ásamt nokkrum öðrum fræðimönnum á málstofu, sem bandaríski Frelsissjóðurinn, Liberty Fund, hélt þar í borg um viðskiptaskipulagið (commercial society), eins og það kom upplýsingarmönnum átjándu og nítjándu aldar fyrir sjónir, þeim Montesquieu, David Hume, Adam Smith og Benjamin Constant.

Montesquieu um Norðurlönd

Margt kom fróðlegt fram í málstofunni. Montesquieu vakti til dæmis athygli á því í Anda laganna, að Fönikíumenn hefðu stundað viðskipti um allt Miðjarðarhaf án þess að telja sig þurfa að leggja undir sig lönd eins og Rómverjar gerðu. Söguskoðanir Vesturlandamanna hafa verið um of verið mótaðar af rómverskum sagnriturum. Voru Rómverjar einhverju skárri en Karþagómenn?

Montesquieu skrifaði í sama riti, að nóg væri að lesa rit rómverska sagnritarans Tacitusar til að sjá, hvaðan Englendingar hefðu fengið stjórnmálahugmyndir sínar. Hið haglega skipulag þeirra hefði orðið til í skógum Germaníu. Sem kunnugt er hafði Tacitus lýst því í ritinu Germaníu, hvernig germanskir ættbálkar leiddu mál til lykta á almennum samkomum. Yrðu konungar og höfðingjar að lúta lögum eins og aðrir. Enn fremur sagði Montesquieu, að Norðurlönd gætu með sönnu hreykt sér af því að vera uppspretta frelsis Evrópuþjóðanna.

Montesquieu bætti því að vísu við, að staðhættir í Evrópu hefði leitt til skiptingar hennar í mörg ríki, sem ekki væru hvert um sig of stórt. Sæmilegt jafnvægi hefði myndast milli þeirra, svo að erfitt hefði verið fyrir eitthvert eitt þeirra að leggja önnur undir sig og þau því farið að lögum og nýtt sér kosti frjálsra viðskipta. Eftir daga Montesquieus komust þrír harðstjórar þó nálægt því að leggja mestallt meginland Evrópu undir sig, fyrst Napóleon á öndverðri nítjándu öld, síðan þeir Hitler og Stalín í sameiningu með griðasáttmálanum sumarið 1939. Í bæði skiptin stöðvuðu Bretar þá eða eins og Montesquieu kynni að segja: Hinn norræni andi.

Hume um frjáls viðskipti

David Hume kvað fátt stuðla eins að framförum og mörg sjálfstæð grannríki, sem tengdust saman með viðskiptum og kepptu í sæmilegu bróðerni hvert við annað. Hefði hann skilið vel þá gagnrýnendur Evrópusambandsins, sem vilja frekar opinn markað en lokað ríki. Hume var einna fyrstur til að setja fram peningamagnskenninguna, sem Milton Friedman varð síðar frægur fyrir: að verðbólga stafaði af offramboði peninga.

Hume kvað skapara heimsins hafa ætlast til þess, þegar hann skammtaði ólíkum þjóðum misjöfn gæði, að þær bættu hag sinn í frjálsum viðskiptum með þessi gæði. Á málstofunni benti Hannes á, að merkilegt væri að kynnast þessum rökum trúleysingjans fyrir viðskiptafrelsi.

Comments Off

Aðalfundur AB 2023

Frá v.: Þórdís Edwald, Jónas Sigurgeirsson, Karítas Kvaran, Ármann Þorvaldsson, Hannes H. Gissurarson, Kjartan Gunnarsson, Sigríður Snævarr, Baldur Guðlaugsson og Rósa Guðbjartsdóttir.

Almenna bókafélagið hélt aðalfund sinn 26. maí 2023. Félagið var stofnað 17. júní 1955 til mótvægis við hin miklu áhrif kommúnista í íslensku menningarlífi, en þeir ráku öflugt útgáfufyrirtæki, Mál og menningu, sem haldið var uppi með Rússagulli, eins og skjöl í Moskvu sýna. AB er nú hins vegar venjulegt útgáfufyrirtæki frekar en bókafélag. Framkvæmdastjóri þess, Jónas Sigurgeirsson, flutti skýrslu um starfsemina á liðnu ári, en aðrir hluthafar eru Ármann Þorvaldsson, Baldur Guðlaugsson og Kjartan Gunnarsson. Aðalfundinn sótti einnig ráðgjafi AB, Hannes H. Gissurarson, prófessor emeritus í Háskóla Íslands. Tvær bækur AB árið 2022 vöktu mikla athygli. Önnur var Uppgjör bankamanns eftir Lárus Welding, sem var bankastjóri Glitnis í bankahruninu 2008 og sætti eftir það rannsókn og jafnvel gæsluvarðhaldsvist. Hin bókin var Landsdómsmálið eftir Hannes H. Gissurarson, en þar leiðir hann rök að því, að málareksturinn gegn Geir H. Haarde, sem var forsætisráðherra í bankahruninu, hafi verið meingallaður. Margir rannsóknaraðilar hafi verið vanhæfir vegna margvíslegra tengsla og forsögu, réttur Geirs til eðlilegrar málsmeðferðar hafi ekki verið virtur og sakfelling hans í Landsdómi fyrir að setja vanda bankanna ekki á dagskrá ráðherrafunda sé reist á augljósri mistúlkun stjórnarskrárinnar íslensku.

Comments Off

Hannes í Helsinki um norræna frjálshyggju

Hannes H. Gissurarson, rannsóknastjóri RNH, flutti erindi á ráðstefnu norrænna íhaldsstúdenta í Helsinki í Finnlandi 20. maí 2023 um, hvað skildi norræna frjálshyggju frá sambærilegum stefnum í öðrum Evrópulöndum. Hann benti á, að norrænar þjóðir hefðu allt frá frumdögum germanskrar menningar átt sér hugmynd um sjálfstjórn einstakra ættbálka, sem farið hefði fram með því, að menn hefðu komið saman á þingum og ráðið ráðum sínum, eins og rómverski sagnritarinn Tacitus sagði frá í Germaníu. Til hefði orðið norrænn réttur, viðleitni bænda til að halda konungum í skefjum, sem lýst væri í ræðum Þorgeirs Ljósvetningagoða og Þorgnýs lögmanns hins sænska, svo að ekki sé minnst á orð Einars Þveræings. Þessari hugmynd um lög sem sammæli borgaranna frekar en fyrirmæli að ofan sjái líka stað í hinum Jósku lögum frá 1241, en þau hefjast einmitt á því, að með lögum skuli land byggja. Enn fremur eru reglur fyrir dómara eftir Olaus Petri frá um 1525 í sama anda.

Tvisvar hefði verið reynt að rjúfa hina norrænu hefð laga og réttar, fyrst þegar einvaldskonungar hefðu seilst til valda á síðmiðöldum og eftir það og síðan þegar svokallaðir jafnaðarmenn hefðu öðlast víðtæk völd á tuttugustu öld í krafti fjöldafylgis. En einveldi í vaðmálsklæðum væri engu skárra en purpuraklætt einveldi, sagði danski frjálshyggjumaðurinn Nathan David á nítjándu öld. Aðalatriðið væri að takmarka ríkisvaldið, ekki í höndum hvers það væri. Hannes benti á, að jafnt konungar sem jafnaðarmannaleiðtogar hefðu þó þurft að laga stefnu sína að hinni fornu norrænu hefð, og raunar hefði jafnaðarstefna látið undan síga í lok tuttugustu aldar. Velgengni Norðurlanda væri aðallega vegna öflugs réttarríkis, frjálsra alþjóðaviðskipta, mikillar samkenndar og ríks trausts manna í milli, en úr því kynni að draga með fjöldainnflutningi fólks, ef það vildi ekki semja sig að norrænum siðum.

Comments Off

Starfslokaráðstefna Hannesar

Í tilefni þess, að Hannes H. Gissurarson varð sjötugur 19. febrúar 2023, hélt Háskóli Íslands 180 manna starfslokaráðstefnu honum til heiðurs 12. maí, þar sem ellefu manns töluðu, en síðan var móttaka í húsakynnum skólans.

Dr. Barbara Kolm, forstöðumaður Hayek-stofnunarinnar í Vín og varaformaður bankaráðs austurríska seðlabankans, talaði um trausta peninga. Prófessor Bruce Caldwell, Duke-háskóla, rakti rannsóknir sínar á ævi Friedrichs von Hayeks. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra lýsti því, hvernig Íslendingar komust út úr fjármálakreppunni, sem skall á 2008. Gabriela von Habsburg, myndhöggvari og fyrrverandi sendiherra Georgíu í Þýskalandi (og barnabarn síðasta keisara Austurríkis-Ungverjalands), sagði sögu Georgíu, smáríkis í hinum enda Evrópu. Prófessor Þráinn Eggertsson greindi hina stórfelldu tilraun í Kína til að sameina vaxandi atvinnulíf og flokkseinræði. Prófessor Stephen Macedo, Princeton-háskóla, varaði við þeirri illsku, sem hlaupin væri í stjórnmálaátök.

Prófessor Þór Whitehead ræddi um afstöðu Churchills og Roosevelts til Íslands. Dr. Neela Winkelmann, fyrrverandi forstöðumaður Evrópuvettvangs minningar og samvisku, sagði frá tilgangi og starfsemi vettvangsins. Yana Hrynko, safnstjóri í Kænugarði, fór orðum um samskipti Rússa og Úkraínumanna. Prófessor Ragnar Árnason leiddi rök að því, að nýta mætti ýmsar auðlindir með því að finna þeim eigendur og ábyrgðarmenn. Dr. Tom G. Palmer, forstöðumaður alþjóðasviðs Atlas Network, kvaðst hafa áhyggjur af þróuninni víða í átt frá lýðræði og frelsi.

Allar þessar ræður eru á Netinu. Forseti Íslands, dr. Guðni Th. Jóhannesson, tók á móti ræðumönnum og fleiri gestum á Bessastöðum, jafnframt því sem forseti Alþingis, Birgir Ármannsson, sýndi erlendum gestum Alþingishúsið og fjármálaráðherra bauð ræðumönnum og fleiri gestum í Ráðherrabústaðinn að ráðstefnunni lokinni.

Comments Off