Hannes: Friður í krafti frjálsra viðskipta

Hannes og Peterle, fyrrv. forsætisráðherra Slóveníu.

Dr. Hannesi H. Gissurarsyni, prófessor emeritus og rannsóknastjóra RNH, var falið að ræða um frið á ráðstefnu í kaþólska háskólanum í Ljubljana í Slóveníu 23. apríl 2024.  Á meðal áheyrenda var Lojze Peterle, fyrsti forsætisráðherra Slóvena eftir fall kommúnismans. Hannes benti á, að til eru þrjú ráð til að fá það frá öðrum, sem maður girnist, að biðja um það, greiða fyrir það og taka það. Fyrsta ráðið á aðallega við um fjölskyldu og vini. Þriðja ráðið er að sögn Hannesar ekki vel fallið til friðsamlegra samskipta. Annað ráðið er hins vegar ákjósanlegt í samskiptum ókunnugra, taldi hann. Maður greiðir í frjálsum viðskiptum fyrir það, sem hann þarfnast frá öðrum, og hann selur þeim það, sem þeir þarfnast. Verð er betra en sverð. Hannes rifjaði upp orð eins fríverslunarsinna nítjándu aldar: Ef þú sérð í náunga þínum væntanlegan viðskiptavin, þá minnkar tilhneiging þín til að skjóta á hann.

Enn fremur fór Hannes með fræg ummæli, sem kennd eru ýmsum, þar á meðal (ranglega) Frédéric Bastiat: Ef varningur fær ekki að fara yfir landamæri, þá munu hermenn gera það. Japan á fjórða áratug hefði verið skýrt dæmi. Markaðir hefðu í heimskreppunni lokast fyrir japönskum afurðum, jafnframt því sem erfitt hefði reynst að útvega hráefni til landsins. Þá jókst stuðningur í Japan við að taka það með valdi, sem ekki væri hægt að fá í viðskiptum, og því fór sem fór.

Hannes benti á fordæmi Norðurlandaþjóða í alþjóðamálum. 1) Friðsamlegur aðskilnaður. Noregur hefði skilið friðsamlega við Svíþjóð 1905, Finnland við Rússaveldi 1917 og Ísland við Danmörku 1918. 2) Landamærabreytingar eftir atkvæðagreiðslur. Landamæri Danmerkur og Þýskalands hefðu verið færð friðsamlega suður á við 1920 eftir atkvæðagreiðslur í Slésvík. 3) Sátt um úrskurði alþjóðadómstóla. Svíþjóð og Finnland hefðu bæði sætt sig við úrskurð Alþjóðadómstólsins í Haag um Álandseyjar og Noregur og Danmörk síðar um Grænland. 4) Samstarf án stórfellds fullveldisafsals. Samstarfið í Norðurlandaráði fæli ekki heldur í sér algert afsal fullveldis eins og virtist vera krafist í Evrópusambandinu.

Comments Off

Hannes: Þarf ríkið meira en 15% af VLF?

Dr. Hannesi H. Gissurarsyni, prófessor emeritus og forstöðumanni rannsókna RNH, var falið að tala um hlutverk ríkisins í fyrirlestri í hagfræðideild Háskólans í Belgrad í Serbíu 22. apríl 2024. Hann rifjaði upp dæmisöguna um miskunnsama Samverjann. Maður hafði verið rændur á leið frá Jórsölum til Jeríkó og lá hjálparvana við vegarbrúnina. Prestur og Levíti færðu sig yfir á hina brúnina, þegar þeir sáu hann, og héldu áfram göngu sinni, en Samverji aumkvaði sig yfir hann, flutti hann á gistihús og greiddi fyrir hann kostnað. Hannes sagði, að hér væri komið eitt mikilvægasta hlutverk ríkisins: að halda uppi lögum og reglu, svo að ræningjar ógnuðu ekki ferðalöngum.

Þrjár aðrar ályktanir mætti draga af dæmisögunni. 1) Samverjinn hefði verið aflögufær. Æskilegt væri, að til væri efnafólk. 2) Samverjinn hefði gert góðverk sitt á eigin kostnað. Vinstri menn vilja alltaf gera góðverk á annarra kostnað. 3) Menntamennirnir tveir gengu fram hjá. Vafalaust hafa þeir talið eins og vinstri menn nútímans, að einhverjir aðrir ættu að gera góðverkin.

Tvö óvefengjanleg verkefni ríkisins væru landvarnir og löggæsla, vernd fyrir erlendum og innlendum ræningjum, sagði Hannes. Flest annað gætu einkaaðilar annast. Ríkið hefði síðustu öldina hins vegar tekið að sér miklu víðtækara hlutverk. Velferðarríkið hefði til dæmis þanist út, þótt þörfin fyrir velferð hefði snarminnkað með stórauknum ráðstöfunartekjum almennings, fjölgun atvinnutækifæra, bættri heilsu og ríflegri lífeyri. Hannes vitnaði til þess, að bandaríski hagfræðingurinn James M. Buchanan hefði einu sinni giskað á, að líklega þyrfti ríkið ekki nema 15% af vergri landsframleiðslu til að sinna nauðsynlegum verkefnum.

Comments Off

Hannes: Samband þjóðríkja, ekki sambandsríki

Dr. Hannes H. Gissurarson, prófessor emeritus og rannsóknastjóri RNH, hélt upphafsfyrirlestur í menningarvikulokum evrópskra íhaldsflokka í Nicosíu á Kýpur 31. mars 2024. Þar ræddi hann um, hvaða erindi tveir merkir hugsuðir, danska skáldið og heimspekingurinn Nikolaj F. S. Grundtvig og ítalski hagfræðingurinn Luigi Einaudi, ættu við nútímamenn. Grundtvig lagði áherslu á þjóðerniskennd og samtakamátt alþýðu. Hann vildi kenna fólki að verða góðir borgarar í lýðræðisríki, og búa Danir enn að arfi hans. Einaudi var stuðningsmaður frjálsra viðskipta og taldi, að nauðsynlegt væri að stofna öflugri samtök en Þjóðabandalagið reyndist vera til að verja frelsi og lýðræði Evrópuþjóða. Hann var þess vegna eindreginn talsmaður Evrópusambandsins, sem í upphafi hét Efnahagsbandalag Evrópu.

Hannes hélt því fram, að Evrópusambandið ætti að vera samband þjóðríkja, og þar gætu Evrópumenn lært af þjóðerniskennd Grundtvigs, sem hefði ekki verið herská og yfirgangssöm, heldur friðsöm og sáttfús. Dönsk þjóðmenning væri til fyrirmyndar. Evrópusambandið hefði fyrstu fimmtíu árin fetað rétta braut, þegar það jók viðskiptafrelsi og auðveldaði samkeppni á Evrópumarkaði. Sú var hugsjón Einaudis. Efnahagslegur samruni er æskilegur. En síðan hefur Evrópusambandið lent á villigötum. Stjórnmálalegur samruni er óæskilegur. Skriffinnarnir í Brüssel, sem enginn hefur kosið og hvergi þurfa að leggja verk sín í dóm annarra, stefna að sögn Hannesar markvisst, hægt og örugglega, að voldugu, evrópsku sambandsríki, þar sem rödd þeirra mun heyrast sem hróp, en rödd þjóðanna sem hvísl.

Glærur Hannesar í Nicosia

Comments Off

Hannes: Öfugþróun innan Evrópusambandsins

Dr. Hannes H. Gissurarson, prófessor emeritus og rannsóknastjóri RNH, hélt fyrirlestur í Amsterdam 12. mars 2024 á vegum Austrian Economics Center og Nederlands Instituut vor Praxeologie, og var hann um Evrópusambandið árið 2030. Þar rifjaði hann upp, að „feður“ Evrópusambandsins höfðu orðið vitni að getuleysi Þjóðabandalagsins milli stríða til að halda uppi friði og stuðla að frjálsum alþjóðaviðskiptum. Þeir vildu því öflugt ríkjasamband (federation), ekki aðeins ríkjabandalag (confederation). Það þyrfti að hafa her og geta lagt á skatta. En eftir seinni heimsstyrjöld réttu Bandaríkin, Kanada og Bretland ríkjunum á meginlandi Evrópu hjálparhönd, svo að þau fengu varist ásælni Kremlverja. Ekki reyndist því þörf á evrópskum her. Verkefnið núna í varnarmálum er því að sögn Hannesar að tryggja sem best samstarfið yfir Atlantshafið, milli ríkja Evrópu og Norður-Ameríku.

Nokkur öfugþróun hefur þó orðið innan Evrópusambandsins hin síðari ár, taldi Hannes. Það væri að breytast úr opnum markaði í lokað ríki, úr ríkjasambandi í sambandsríki með stórveldisdrauma. Eðlilegasta andsvarið er umfram allt valddreifing eins og nálægðarreglan (subsidiarity principle) kveður á um: taka eigi ákvarðanir af eða sem næst þeim, sem ákvarðanirnar varða. Þessi regla er að sögn Hannesar margbrotin í Evrópusambandinu, þar sem ekkert lýðræðislegt taumhald virðist vera á framkvæmdastjórninni, en Evrópuþingið er áhrifalaust hringleikahús, sem flyst mánaðarlega milli Brüssel og Strassborgar. Evrópudómstóllinn er skipaður miðstýringarsinnum, sem hafa stórlega fært út vald framkvæmdastjórnarinnar.

Comments Off

Hannes: Háskólar á Vesturlöndum hafa brugðist

Hannes H. Gissurarson, prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands, var gestur Gísla Freys Valdórssonar í hlaðvarpi Þjóðmála 4. mars 2024. Kvað hann háskóla á Vesturlöndum því miður hafa fjarlægst upphaflegan og eðlilegan tilgang sinn, sem væri að vera vettvangur frjálsrar rannsóknar og rökræðu, ekki vakningarsamkoma eða kórsöngur. Þeir væru orðnir vígi afturköllunarfárs (cancel culture) og vælumenningar (wokeism) og hefðu snúið baki við hina besta í vestrænni menningu, vísindum sem frjálsri samkeppni hugmynda, virðingu fyrir skoðunum annarra, því umburðarlyndi, sem gerði greinarmun á samþykki og þoli. Hannes rifjaði upp, þegar hann rak haustið 1984 ólöglega útvarpsstöð í samstarfi við nokkra félaga sína í því skyni að mótmæla einokun ríkisins á útvarpsrekstri. Hlaut hann dóm fyrir, sem hann sagðist vera stoltur af. Hannes sagði líka frá ferðalögum sínum síðustu misseri, fyrirlestrum og bókum, útgefnum jafnt og fyrirhuguðum. Árið 2020 gaf New Direction í Brüssel út tveggja binda verk hans um tuttugu og fjóra frjálslynda íhaldsmenn allt frá Snorra Sturlusyni til Roberts Nozicks, en lengstu kaflarnir voru um Friedrich A. von Hayek og Milton Friedman, en Hannes kynntist þeim báðum vel. Nú væri eitt helsta rannsóknarefni hans frjálshyggjuarfur Norðurlanda.

Comments Off

Frelsiskvöldverðurinn 2023

Hannes H. Gissurarson, rannsóknastjóri RNH, kynntist fyrst Antony Fisher, sem síðar varð Sir Antony, haustið 1980, þegar hann bauð Hannesi og fleiri gestum á ráðstefnu Mont Pelerin-samtakanna í Stanford í Kaliforníu heim til sín í San Francisco. Hann og kona hans Dorian áttu glæsilega íbúð á 11. hæð að 1750 Taylor Street. Fisher var í breska flughernum í seinni heimsstyrjöld og sá þar bróður sinn farast. Hann strengdi þess þá heit að berjast fyrir betri heimi. Í stríðslok las hann Leiðina til ánauðar eftir Friedrich A. von Hayek í útdrætti, sem birtist í Reader’s Digest, en þar hélt Hayek því fram, að þjóðernisjafnaðarstefna Hitlers og sameignarstefna Stalíns væru sömu ættar, og varaði jafnframt við tilraunum til að taka upp miðstýrðan áætlunarbúskap, sem væri vart framkvæmanlegur nema í lögregluríki.

Fisher gekk á fund Hayeks til að leita ráða. Var hann að hugsa um að kasta sér út í stjórnmálabaráttu. Hayek sagði honum, að þeir menn hefðu mest áhrif, sem veldu dagskrána í stjórnmálum, réðu því, um hvað væri rætt og á hvaða forsendum, væru smiðir og hliðverðir hugmynda. Þess vegna skyldi hann stofna hugveitu. Fisher fór að ráðum Hayeks, og árið 1955 stofnaði hann Institute of Economic Affairs í Lundúnum, sem rannsakar, hvenær beita má verðlagningu í stað skattlagningar, leysa mál með frjálsum samtökum fólks frekar en valdboði að ofan. Hafði hún mikil áhrif á stefnu Thatchers og eftirmanna hennar.

Seinna átti Fisher eftir að endurtaka leikinn í öðrum löndum, og 1981 stofnaði hann Atlas Network, sem er alþjóðlegt net hugveitna. Nú eiga um 500 stofnanir í um 100 löndum aðild að netinu, og árlega heldur það uppskeruhátíð, Freedom Dinner. Árið 2023 var frelsiskvöldverðurinn í Nýju Jórvík 16. nóvember, og sóttu hann frá Íslandi þeir Hannes H. Gissurarson, prófessor emeritus, og dr. Birgir Þór Runólfsson, forseti hagfræðideildar Háskóla Íslands. Foundation for Economic Freedom á Filipseyjum hlaut Templeton-verðlaunin fyrir markvissa starfsemi og Temba Nolutshungu frá Suður-Afríku Sir Antony Fisher-verðlaunin fyrir frumkvæði sitt og forystuhlutverk.

Comments Off