Hannes: Öfugþróun innan Evrópusambandsins

Dr. Hannes H. Gissurarson, prófessor emeritus og rannsóknastjóri RNH, hélt fyrirlestur í Amsterdam 12. mars 2024 á vegum Austrian Economics Center og Nederlands Instituut vor Praxeologie, og var hann um Evrópusambandið árið 2030. Þar rifjaði hann upp, að „feður“ Evrópusambandsins höfðu orðið vitni að getuleysi Þjóðabandalagsins milli stríða til að halda uppi friði og stuðla að frjálsum alþjóðaviðskiptum. Þeir vildu því öflugt ríkjasamband (federation), ekki aðeins ríkjabandalag (confederation). Það þyrfti að hafa her og geta lagt á skatta. En eftir seinni heimsstyrjöld réttu Bandaríkin, Kanada og Bretland ríkjunum á meginlandi Evrópu hjálparhönd, svo að þau fengu varist ásælni Kremlverja. Ekki reyndist því þörf á evrópskum her. Verkefnið núna í varnarmálum er því að sögn Hannesar að tryggja sem best samstarfið yfir Atlantshafið, milli ríkja Evrópu og Norður-Ameríku.

Nokkur öfugþróun hefur þó orðið innan Evrópusambandsins hin síðari ár, taldi Hannes. Það væri að breytast úr opnum markaði í lokað ríki, úr ríkjasambandi í sambandsríki með stórveldisdrauma. Eðlilegasta andsvarið er umfram allt valddreifing eins og nálægðarreglan (subsidiarity principle) kveður á um: taka eigi ákvarðanir af eða sem næst þeim, sem ákvarðanirnar varða. Þessi regla er að sögn Hannesar margbrotin í Evrópusambandinu, þar sem ekkert lýðræðislegt taumhald virðist vera á framkvæmdastjórninni, en Evrópuþingið er áhrifalaust hringleikahús, sem flyst mánaðarlega milli Brüssel og Strassborgar. Evrópudómstóllinn er skipaður miðstýringarsinnum, sem hafa stórlega fært út vald framkvæmdastjórnarinnar.

Comments Off

Hannes: Háskólar á Vesturlöndum hafa brugðist

Hannes H. Gissurarson, prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands, var gestur Gísla Freys Valdórssonar í hlaðvarpi Þjóðmála 4. mars 2024. Kvað hann háskóla á Vesturlöndum því miður hafa fjarlægst upphaflegan og eðlilegan tilgang sinn, sem væri að vera vettvangur frjálsrar rannsóknar og rökræðu, ekki vakningarsamkoma eða kórsöngur. Þeir væru orðnir vígi afturköllunarfárs (cancel culture) og vælumenningar (wokeism) og hefðu snúið baki við hina besta í vestrænni menningu, vísindum sem frjálsri samkeppni hugmynda, virðingu fyrir skoðunum annarra, því umburðarlyndi, sem gerði greinarmun á samþykki og þoli. Hannes rifjaði upp, þegar hann rak haustið 1984 ólöglega útvarpsstöð í samstarfi við nokkra félaga sína í því skyni að mótmæla einokun ríkisins á útvarpsrekstri. Hlaut hann dóm fyrir, sem hann sagðist vera stoltur af. Hannes sagði líka frá ferðalögum sínum síðustu misseri, fyrirlestrum og bókum, útgefnum jafnt og fyrirhuguðum. Árið 2020 gaf New Direction í Brüssel út tveggja binda verk hans um tuttugu og fjóra frjálslynda íhaldsmenn allt frá Snorra Sturlusyni til Roberts Nozicks, en lengstu kaflarnir voru um Friedrich A. von Hayek og Milton Friedman, en Hannes kynntist þeim báðum vel. Nú væri eitt helsta rannsóknarefni hans frjálshyggjuarfur Norðurlanda.

Comments Off

Frelsiskvöldverðurinn 2023

Hannes H. Gissurarson, rannsóknastjóri RNH, kynntist fyrst Antony Fisher, sem síðar varð Sir Antony, haustið 1980, þegar hann bauð Hannesi og fleiri gestum á ráðstefnu Mont Pelerin-samtakanna í Stanford í Kaliforníu heim til sín í San Francisco. Hann og kona hans Dorian áttu glæsilega íbúð á 11. hæð að 1750 Taylor Street. Fisher var í breska flughernum í seinni heimsstyrjöld og sá þar bróður sinn farast. Hann strengdi þess þá heit að berjast fyrir betri heimi. Í stríðslok las hann Leiðina til ánauðar eftir Friedrich A. von Hayek í útdrætti, sem birtist í Reader’s Digest, en þar hélt Hayek því fram, að þjóðernisjafnaðarstefna Hitlers og sameignarstefna Stalíns væru sömu ættar, og varaði jafnframt við tilraunum til að taka upp miðstýrðan áætlunarbúskap, sem væri vart framkvæmanlegur nema í lögregluríki.

Fisher gekk á fund Hayeks til að leita ráða. Var hann að hugsa um að kasta sér út í stjórnmálabaráttu. Hayek sagði honum, að þeir menn hefðu mest áhrif, sem veldu dagskrána í stjórnmálum, réðu því, um hvað væri rætt og á hvaða forsendum, væru smiðir og hliðverðir hugmynda. Þess vegna skyldi hann stofna hugveitu. Fisher fór að ráðum Hayeks, og árið 1955 stofnaði hann Institute of Economic Affairs í Lundúnum, sem rannsakar, hvenær beita má verðlagningu í stað skattlagningar, leysa mál með frjálsum samtökum fólks frekar en valdboði að ofan. Hafði hún mikil áhrif á stefnu Thatchers og eftirmanna hennar.

Seinna átti Fisher eftir að endurtaka leikinn í öðrum löndum, og 1981 stofnaði hann Atlas Network, sem er alþjóðlegt net hugveitna. Nú eiga um 500 stofnanir í um 100 löndum aðild að netinu, og árlega heldur það uppskeruhátíð, Freedom Dinner. Árið 2023 var frelsiskvöldverðurinn í Nýju Jórvík 16. nóvember, og sóttu hann frá Íslandi þeir Hannes H. Gissurarson, prófessor emeritus, og dr. Birgir Þór Runólfsson, forseti hagfræðideildar Háskóla Íslands. Foundation for Economic Freedom á Filipseyjum hlaut Templeton-verðlaunin fyrir markvissa starfsemi og Temba Nolutshungu frá Suður-Afríku Sir Antony Fisher-verðlaunin fyrir frumkvæði sitt og forystuhlutverk.

Comments Off

Ráðstefna MPS í Bretton Woods

Hannes og Malpass.

Mont Pelerin-samtökin voru stofnuð í apríl 1947, þegar nokkrir frjálslyndir fræðimenn komu saman í Sviss, þar á meðal hagfræðingarnir Ludwig von Mises, Frank H. Knight, Friedrich A. von Hayek, Milton Friedman, George J. Stigler og Maurice Allais og heimspekingurinn Karl R. Popper. Var tilgangurinn að blása nýju lífi í menningararf Vesturlanda með frjálsri rannsókn og rökræðu. Hannes H. Gissurarson, rannsóknastjóri RNH, hefur verið félagi frá 1984 og sat í stjórn 1998–2004.

Dagana 29. október til 2. nóvember 2023 héldu samtökin ráðstefnu í Bretton Woods í Bandaríkjunum um skipulag alþjóðaviðskipta, tæpum 80 árum eftir að þar var haldinn frægur fundur, þar sem Keynes lávarður og fleiri lögðu á ráðin um stofnun Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í því skyni að koma á festu í alþjóðaviðskiptum. Segja má, að Bretton Woods-samkomulagið hafi brostið, þegar Bandaríkin hættu að tryggja gjaldmiðil sinn í gulli árið 1971. Eftir það hefur heimurinn notast við pappírspeninga, sem eru ekkert annað en ávísanir á sjálfar sig.

Auk Hannesar sóttu Ragnar Árnason, prófessor emeritus í auðlindahagfræði, og dr. Birgir Þór Runólfsson, forseti hagfræðideildar Háskóla Íslands, þessa ráðstefnu. Erindi á ráðstefnum Mont Pelerin-samtakanna eru flutt í trúnaði, en óhætt er að segja frá því, sem birst hefur annars staðar að frumkvæði höfunda sjálfra. Þrennt stóð upp úr. Prófessor Douglas Irwin lýsti með traustum gögnum hinum stórkostlega ávinningi af frjálsum alþjóðaviðskiptum. Phil Gramm, fyrrverandi öldungardeildarþingmaður og hagfræðiprófessor, sýndi fram á, að opinber gögn um tekjudreifingu í Bandaríkjunum væru meingölluð, þar eð tekjur væru ekki reiknaðar eftir skatta og bætur, sem hvort tveggja jafna þær mjög. Tyler Goodspeed, hagfræðingur í Hoover-stofnuninni, benti á, að frjáls alþjóðaviðskipti gætu orðið sumum hópum í óhag til skamms tíma, þótt þau væru öllum í hag til langs tíma. Hannes lýsti íslenska bankahruninu 2008 í löngu máli fyrir David Malpass, bankastjóra Alþjóðabankans 1919–2023, þegar þeir sátu saman kvöldverð.

Nokkrir norrænir þátttakendur, frá v.: dr. Nils Karlson, Svíþjóð, próf. Hannes H. Gissurarson, Íslandi, dr. Lars Peder Nordbakken, Noregi, og Otto Lehto, Finnlandi.

Comments Off

Libecap: Afareglan hagkvæmasta úthlutunaraðferðin

Gary Libecap, einn kunnasti auðlindahagfræðingur heims, flutti erindi í hátíðasal Háskóla Íslands laugardaginn 21. október 2023 um auðlindanýtingu og eignaréttindi. Hann leiddi almenn rök að einkaeignarrétti á auðlindum, þar sem þeim yrði við komið. Auðvelt væri að mynda einkaeignarrétt á landi og kvikfénaði með girðingum og merkingum, en flóknara og þó framkvæmanlegt að mynda einkaeignarrétt á ám og vötnum, vatnslindum og olíulindum, gull- og kolanámum og fiskistofnum. Þegar takmarka þyrfti aðgang að auðlindum, sem áður hefðu verið samnýtt, væri svokölluð „afaregla“ (grandfathering) oftast hagkvæm, en þá væri einstaklingsbundnum eignaréttindum úthlutað til þeirra, sem stundað hefðu nýtinguna, í réttu hlutfalli við nýtingu þeirra. Þá yrði minnsta röskunin á högum þeirra, jafnframt því sem þeir væru ólíklegir til að berjast gegn slíkri breytingu. Í sjávarútvegi, sem Íslendingar hefðu að vonum mestan áhuga á, fæli þetta í sér, að aflaheimildum í fiskistofnum væri upphaflega úthlutað eftir aflareynslu til þeirra, sem stundað hefðu veiðar í þessum fiskistofni, eins og einmitt hefði verið gert, þegar kvótakerfi var tekið upp. Hannes H. Gissurarson, prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands, birti grein um framlag Libecaps og afaregluna í Morgunblaðinu 19. október 2023.

Í viðtali við Morgunblaðið 1. nóvember 2023 ræddi Libecap um rannsóknir sínar, meðal annars muninn á traustum námuréttindum í Bandaríkjunum annars vegar og ótraustum námuréttindum í sumum ríkjum Rómönsku Ameríku hins vegar, vinnslu olíu og gass, nýtingu auðlinda í Amasón-skóginum, veiðar á villtum fiski í hafi og ferskvatni og nýtingu vatnslinda á þurrum svæðum. Hann kvað íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið almennt talið eitt hið hagkvæmasta í heimi. Ragnar Árnason, prófessor í fiskihagfræði, nyti mikillar virðingar á alþjóðavettvangi fyrir framlag sitt til rannsókna á auðlindanýtingu. Libecap sagði enga hættu á auðlindaþurrð, enda hefðu hrakspár höfunda Endimarka vaxtarins (The Limits to Growth) síður en svo ræst.

 

Comments Off

Hannes í Madrid: Samstarf íhaldsmanna og frjálshyggjumanna

Frá v. Peter Hefele, Marko Milanovic Litre, Harrison Pitt og Hannes H. Gissurarson

Evrópska hugveitan New Direction hélt 20.–22. september 2023 fjölmennt þing í Madrid, þar sem hægri menn báru saman bækur sínar og sóttu hinn árlega kvöldverð í minningu Margrétar Thatchers. Ræðumaður var Robin Harris, sem var ræðuskrifari Thatchers og ævisöguritari.

Hannes H. Gissurarson, rannsóknastjóri RNH, mælti á þessari ráðstefnu með samstarfi frjálshyggjumanna og íhaldsmanna. Hann leiddi rök að því, að til væri frjálslynd íhaldsstefna, sem sameinaði óvéfengjanleg rök frjálshyggjumanna fyrir viðskiptafrelsi, einkaeignarrétti og valddreifingu og sterka tilfinningu íhaldsmanna fyrir því, að menn yrðu að eiga einhvers staðar heima, vera hluti af stærri heild, öðlast samkennd.

Einn íhaldsmaðurinn á ráðstefnunni minntist á samnýtingarbölið (tragedy of commons), þegar ótakmarkaður aðgangur að takmarkaðri auðlind veldur ofnýtingu hennar. Hannes svaraði því til, að hagfræðingar hefðu bent á sjálfsprottna samvinnu til að takmarka slíkan aðgang og útrýma bölinu. Íslenska kvótakerfið væri gott dæmi. Hannes benti á, að í Afríku, þar sem sumir stofnar fíla og nashyrninga væru í útrýmingarhættu, mætti með einu pennastriki breyta veiðiþjófum í veiðiverði: með því að skilgreina eignarrétt afrískra þorpsbúa á þessum stofnum og leyfa eðlilega nýtingu þeirra í stað þess að reyna að friða þá.

Hannes H. Gissurarson tók undir það með íhaldsmönnum, að mannlífið væri ekki samsafn óháðra einstaklinga. Allir yrðu að eiga sér einhverjar rætur, bindast öðrum einhverjum böndum, virða arfhelgar venjur og hefðir. Hins vegar hafnaði Hannes þeirri skoðun, sem heyrðist á þinginu, að siðferðilegar skuldbindingar okkar næðu aðeins að þjóðinni. Þær næðu líka til alls mannkyns, þótt slíkar skuldbindingar væru eðli málsins samkvæmt mjög takmarkaðar og fælust aðallega í að láta aðra í friði.

Kvöldverður 20. september, Barbara Kolm, Robert Tyler og fleiri.

Comments Off