Dr. Hannes H. Gissurarson, prófessor emeritus og rannsóknastjóri RNH, hélt fyrirlestur í Amsterdam 12. mars 2024 á vegum Austrian Economics Center og Nederlands Instituut vor Praxeologie, og var hann um Evrópusambandið árið 2030. Þar rifjaði hann upp, að „feður“ Evrópusambandsins höfðu orðið vitni að getuleysi Þjóðabandalagsins milli stríða til að halda uppi friði og stuðla að frjálsum alþjóðaviðskiptum. Þeir vildu því öflugt ríkjasamband (federation), ekki aðeins ríkjabandalag (confederation). Það þyrfti að hafa her og geta lagt á skatta. En eftir seinni heimsstyrjöld réttu Bandaríkin, Kanada og Bretland ríkjunum á meginlandi Evrópu hjálparhönd, svo að þau fengu varist ásælni Kremlverja. Ekki reyndist því þörf á evrópskum her. Verkefnið núna í varnarmálum er því að sögn Hannesar að tryggja sem best samstarfið yfir Atlantshafið, milli ríkja Evrópu og Norður-Ameríku.
Nokkur öfugþróun hefur þó orðið innan Evrópusambandsins hin síðari ár, taldi Hannes. Það væri að breytast úr opnum markaði í lokað ríki, úr ríkjasambandi í sambandsríki með stórveldisdrauma. Eðlilegasta andsvarið er umfram allt valddreifing eins og nálægðarreglan (subsidiarity principle) kveður á um: taka eigi ákvarðanir af eða sem næst þeim, sem ákvarðanirnar varða. Þessi regla er að sögn Hannesar margbrotin í Evrópusambandinu, þar sem ekkert lýðræðislegt taumhald virðist vera á framkvæmdastjórninni, en Evrópuþingið er áhrifalaust hringleikahús, sem flyst mánaðarlega milli Brüssel og Strassborgar. Evrópudómstóllinn er skipaður miðstýringarsinnum, sem hafa stórlega fært út vald framkvæmdastjórnarinnar.