Hannes: Margvíslegar hagnýtar lausnir

Dr. Hannesi H. Gissurarsyni, prófessor emeritus, var falið að ræða um hagnýtar lausnir frjálshyggjunnar á ráðstefnu Bandaríska háskólans í Blagoevgrad í Búlgaríu 26. apríl 2024. Í upphafi benti hann á, að frjálshyggja snerist ekki um neitt draumríki, heldur væru hinar góðu afleiðingar af viðskiptafrelsi, valddreifingu og einkaeignarrétti augljósar og áþreifanlegar: Bandaríkin á seinni hluta nítjándu aldar, Hong Kong á seinni hluta tuttugustu aldar og Sviss á okkar dögum.

Fræðimenn hafa talið sum gæði þess eðlis, að þau yrðu ekki verðlögð í frjálsum viðskiptum, svo að ríkið yrði að framleiða þau. Þau væru „samgæði“. Kennslubókardæmi var sú þjónusta, sem vitar veita skipum. En þegar að var gáð, kom í ljós, að þjónusta vita hafði einmitt verið verðlögð sem hluti af þjónustu, sem vitar og hafnir veita í sameiningu. Gjaldið fyrir þjónustu vitanna var innheimt í hafnargjöldum. Hannes vakti síðan athygli á, að ríkið þyrfti ekki sjálft að framleiða ýmis gæði, þótt það gæti kostað þau. Svo væri um skólagöngu. Ríkið gæti sent foreldrum og nemendum ávísanir, sem þeir gætu notað til að greiða fyrir skólagöngu (jafnframt því sem þeir gætu bætt við úr eigin vasa). Þannig gætu skólar verið einkareknir, en notendur þjónustunnar ættu kost á að velja um þá.

Hannes rifjaði upp, að á Íslandi var ríkiseinokun á útvarpsrekstri allt til 1986. Hún var afnumin, eftir að Hannes og félagar hans ráku í mótmælaskyni útvarpsstöð í átta daga í október 1984, uns síminn miðaði hana út og lögreglan lokaði henni. Fyrir það hlaut Hannes sinn fyrsta dóm, eins og hann komst að orði.

Hannes benti á, að tækniframfarir auðvelduðu iðulega verðlagningu knappra gæða. Eitt dæmi væri lesvélar við vegi, jarðgöng og brýr, sem gerðu eigendum slíkra mannvirkja kleift að innheimta verð fyrir nýtingu þeirra, sem sett væri beint á greiðslukort ökumanna.

Comments Off

Hannes: Pútín fékk röng skilaboð

Á ráðstefnu í laga- og hagfræðideild Háskólans í Skopje í Norður-Makedoníu 25. apríl 2024 var dr. Hannesi H. Gissurarsyni, prófessor emeritus og rannsóknastjóra RNH, falið að ræða um hið frjálsa hagkerfi að lokinni fjölþáttakreppu (polycrisis), en það hugtak er notað um kreppur, sem raða sér saman og hver þáttur styrkir annan, eitt rekur annað, allt tvinnast saman.

Um heimsfaraldurinn 2020–2022 sagði Hannes, að engu yrði um hann breytt úr þessu. En vita þyrfti upptökin til að koma í veg fyrir, að eitthvað svipað gerðist aftur. Kínversk stjórnvöld vildu engar upplýsingar veita, sem benti til þess, að kórónaveiran hefði sloppið út af rannsóknarstofu í Wuhan.

Um Úkraínustríðið sagði Hannes, að Pútín hefði tvisvar fengið röng skilaboð. Hann hefði ráðist átölulaust á Georgíu árið 2008 og Úkraínu árið 2014. Þess vegna hefði hann talið sér óhætt að ráðast aftur á Úkraínu árið 2022.

Um lausafjárkreppuna 2007–2009 sagði Hannes, að aðrar þjóðir mættu læra af Íslendingum, sem hefðu takmarkað skuldbindingar ríkisins, en þess í stað gert innstæður að forgangskröfum í bú banka og þannig róað almenning. Um banka ætti að gilda eins og önnur fyrirtæki, að þeim yrði ekki alltaf bjargað, þegar þeim gengi illa.

Um aðförina að málfrelsi í háskólum og á netmiðlum sagði Hannes, að líklega væri þetta bylgja, sem ætti eftir að hjaðna, svipað og róttæknibylgjan í kringum 1968, sem lítið skildi eftir sig annað en nokkra síðhærða fíkniefnaneytendur.

Comments Off

Hannes: Einkaeignarréttur öllum í hag

Dr. Hannesi H. Gissurarsyni, prófessor emeritus og rannsóknastjóra RNH, var falið að ræða um siðferði markaðsviðskipta í Hagfræði- og viðskiptaháskólanum í Zagreb í Króatíu 24. apríl 2024. Hann kvað auðvelt að mæla fyrir frjálsum viðskiptum. Ef einn á epli, en vantar appelsínu, og annar á appelsínu, en vantar epli, þá skiptast þeir á eplinu og appelsínunni, og báðir græða. Erfiðara virtist hins vegar vera að rökstyðja einkaeignarrétt á gæðum eins og eplum og appelsínum. John Locke hefði haldið því fram, að eignarréttur gæti myndast á gæðum, væri því skilyrði fullnægt, að hagur annarra versnaði ekki. David Hume hefði hins vegar talið nægja til að réttlæta einkaeignarrétt á gæðum, að enginn annar gæti sýnt fram á frekari rétt sinn til þeirra.

Hvernig svo sem réttmætur einkaeignarréttur hefði myndast, væru hin almennu rök fyrir honum tvíþætt, sagði Hannes. Hann stuðlaði í fyrsta lagi að friði, því að garður væri granna sættir. Með því að skipta gæðum jarðar með sér minnkuðu menn líkur á átökum. Í annan stað auðveldaði einkaeignarréttur verðmætasköpun, því að menn færu betur með eigið fé en annarra. Menn ræktuðu eigin garð af meiri natni en annarra, enda greri sjaldnast gras í almennings götu.

Hannes sagði stuðning við frjálst skipulag ýmist hafa verið sóttan í náttúrurétt eða nytsemi, en sjálfur teldi hann breska heimspekinginn Michael Oakeshott hafa sett fram gleggstu rökin fyrir því skipulagi. Þau væru, að í hinum vestræna nútímamanni hefði smám saman orðið til í langri sögu í senn vilji og geta til að velja og hafna. Hann hefði stigið út úr ættbálknum og orðið einstaklingur. Rómeo og Júlía hefði ekki sætt sig við að vera aðeins Montagú og Kapúlett. Frelsið til að velja væri annað eðli nútímamannsins, og þeir, sem því höfnuðu, neituðu að gangast við sjálfum sér

Comments Off

Hannes: Friður í krafti frjálsra viðskipta

Hannes og Peterle, fyrrv. forsætisráðherra Slóveníu.

Dr. Hannesi H. Gissurarsyni, prófessor emeritus og rannsóknastjóra RNH, var falið að ræða um frið á ráðstefnu í kaþólska háskólanum í Ljubljana í Slóveníu 23. apríl 2024.  Á meðal áheyrenda var Lojze Peterle, fyrsti forsætisráðherra Slóvena eftir fall kommúnismans. Hannes benti á, að til eru þrjú ráð til að fá það frá öðrum, sem maður girnist, að biðja um það, greiða fyrir það og taka það. Fyrsta ráðið á aðallega við um fjölskyldu og vini. Þriðja ráðið er að sögn Hannesar ekki vel fallið til friðsamlegra samskipta. Annað ráðið er hins vegar ákjósanlegt í samskiptum ókunnugra, taldi hann. Maður greiðir í frjálsum viðskiptum fyrir það, sem hann þarfnast frá öðrum, og hann selur þeim það, sem þeir þarfnast. Verð er betra en sverð. Hannes rifjaði upp orð eins fríverslunarsinna nítjándu aldar: Ef þú sérð í náunga þínum væntanlegan viðskiptavin, þá minnkar tilhneiging þín til að skjóta á hann.

Enn fremur fór Hannes með fræg ummæli, sem kennd eru ýmsum, þar á meðal (ranglega) Frédéric Bastiat: Ef varningur fær ekki að fara yfir landamæri, þá munu hermenn gera það. Japan á fjórða áratug hefði verið skýrt dæmi. Markaðir hefðu í heimskreppunni lokast fyrir japönskum afurðum, jafnframt því sem erfitt hefði reynst að útvega hráefni til landsins. Þá jókst stuðningur í Japan við að taka það með valdi, sem ekki væri hægt að fá í viðskiptum, og því fór sem fór.

Hannes benti á fordæmi Norðurlandaþjóða í alþjóðamálum. 1) Friðsamlegur aðskilnaður. Noregur hefði skilið friðsamlega við Svíþjóð 1905, Finnland við Rússaveldi 1917 og Ísland við Danmörku 1918. 2) Landamærabreytingar eftir atkvæðagreiðslur. Landamæri Danmerkur og Þýskalands hefðu verið færð friðsamlega suður á við 1920 eftir atkvæðagreiðslur í Slésvík. 3) Sátt um úrskurði alþjóðadómstóla. Svíþjóð og Finnland hefðu bæði sætt sig við úrskurð Alþjóðadómstólsins í Haag um Álandseyjar og Noregur og Danmörk síðar um Grænland. 4) Samstarf án stórfellds fullveldisafsals. Samstarfið í Norðurlandaráði fæli ekki heldur í sér algert afsal fullveldis eins og virtist vera krafist í Evrópusambandinu.

Comments Off

Hannes: Þarf ríkið meira en 15% af VLF?

Dr. Hannesi H. Gissurarsyni, prófessor emeritus og forstöðumanni rannsókna RNH, var falið að tala um hlutverk ríkisins í fyrirlestri í hagfræðideild Háskólans í Belgrad í Serbíu 22. apríl 2024. Hann rifjaði upp dæmisöguna um miskunnsama Samverjann. Maður hafði verið rændur á leið frá Jórsölum til Jeríkó og lá hjálparvana við vegarbrúnina. Prestur og Levíti færðu sig yfir á hina brúnina, þegar þeir sáu hann, og héldu áfram göngu sinni, en Samverji aumkvaði sig yfir hann, flutti hann á gistihús og greiddi fyrir hann kostnað. Hannes sagði, að hér væri komið eitt mikilvægasta hlutverk ríkisins: að halda uppi lögum og reglu, svo að ræningjar ógnuðu ekki ferðalöngum.

Þrjár aðrar ályktanir mætti draga af dæmisögunni. 1) Samverjinn hefði verið aflögufær. Æskilegt væri, að til væri efnafólk. 2) Samverjinn hefði gert góðverk sitt á eigin kostnað. Vinstri menn vilja alltaf gera góðverk á annarra kostnað. 3) Menntamennirnir tveir gengu fram hjá. Vafalaust hafa þeir talið eins og vinstri menn nútímans, að einhverjir aðrir ættu að gera góðverkin.

Tvö óvefengjanleg verkefni ríkisins væru landvarnir og löggæsla, vernd fyrir erlendum og innlendum ræningjum, sagði Hannes. Flest annað gætu einkaaðilar annast. Ríkið hefði síðustu öldina hins vegar tekið að sér miklu víðtækara hlutverk. Velferðarríkið hefði til dæmis þanist út, þótt þörfin fyrir velferð hefði snarminnkað með stórauknum ráðstöfunartekjum almennings, fjölgun atvinnutækifæra, bættri heilsu og ríflegri lífeyri. Hannes vitnaði til þess, að bandaríski hagfræðingurinn James M. Buchanan hefði einu sinni giskað á, að líklega þyrfti ríkið ekki nema 15% af vergri landsframleiðslu til að sinna nauðsynlegum verkefnum.

Comments Off

Hannes: Samband þjóðríkja, ekki sambandsríki

Dr. Hannes H. Gissurarson, prófessor emeritus og rannsóknastjóri RNH, hélt upphafsfyrirlestur í menningarvikulokum evrópskra íhaldsflokka í Nicosíu á Kýpur 31. mars 2024. Þar ræddi hann um, hvaða erindi tveir merkir hugsuðir, danska skáldið og heimspekingurinn Nikolaj F. S. Grundtvig og ítalski hagfræðingurinn Luigi Einaudi, ættu við nútímamenn. Grundtvig lagði áherslu á þjóðerniskennd og samtakamátt alþýðu. Hann vildi kenna fólki að verða góðir borgarar í lýðræðisríki, og búa Danir enn að arfi hans. Einaudi var stuðningsmaður frjálsra viðskipta og taldi, að nauðsynlegt væri að stofna öflugri samtök en Þjóðabandalagið reyndist vera til að verja frelsi og lýðræði Evrópuþjóða. Hann var þess vegna eindreginn talsmaður Evrópusambandsins, sem í upphafi hét Efnahagsbandalag Evrópu.

Hannes hélt því fram, að Evrópusambandið ætti að vera samband þjóðríkja, og þar gætu Evrópumenn lært af þjóðerniskennd Grundtvigs, sem hefði ekki verið herská og yfirgangssöm, heldur friðsöm og sáttfús. Dönsk þjóðmenning væri til fyrirmyndar. Evrópusambandið hefði fyrstu fimmtíu árin fetað rétta braut, þegar það jók viðskiptafrelsi og auðveldaði samkeppni á Evrópumarkaði. Sú var hugsjón Einaudis. Efnahagslegur samruni er æskilegur. En síðan hefur Evrópusambandið lent á villigötum. Stjórnmálalegur samruni er óæskilegur. Skriffinnarnir í Brüssel, sem enginn hefur kosið og hvergi þurfa að leggja verk sín í dóm annarra, stefna að sögn Hannesar markvisst, hægt og örugglega, að voldugu, evrópsku sambandsríki, þar sem rödd þeirra mun heyrast sem hróp, en rödd þjóðanna sem hvísl.

Comments Off