Birgir Þór félagi í Mont Pelerin samtökunum

Dr. Birgir Þór Runólfsson, forseti hagfræðideildar Háskóla Íslands, var kjörinn félagi í Mont Pelerin samtökunum á aðalfundi þeirra, sem haldinn er annað hvort ár og var að þessu sinni háður í Nýju Delhí á Indlandi 21.–26. september 2024. Auk hans sóttu Ragnar Árnason, prófessor emeritus í fiskihagfræði í Háskóla Íslands, og Hannes H. Gissurarson, prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands, fundinn. Mont Pelerin samtökin eru alþjóðlegt málfundafélag frjálslyndra fræðimanna, sem Friedrich A. von Hayek stofnaði í Sviss í Apríl 1947, en á meðal stofnfélaga voru hagfræðingarnir Maurice Allais, Milton Friedman og George J. Stigler, sem allir áttu auk Hayeks eftir að hljóta Nóbelsverðlaun í hagfræði, hinir kunnu hagfræðingar Frank H. Knight, faðir Chicago-skólans í hagfræði, Ludwig von Mises, einn af feðrum Austurríska skólans í hagfræði, og Luigi Einaudi, forseti Ítalíu 1948–1955, dr. Trygve Hoff, ritstjóri verslunartímaritsins Farmand í Noregi, Eli F. Heckscher, hagfræðiprófessor í Svíþjóð, og Herbert Tingsten, stjórnmálafræðiprófessor í Svíþjóð og síðar ritstjóri stórblaðsins Dagens Nyheter. Hannes sótti sinn fyrsta fund í Stanford haustið 1980, varð félagi haustið 1984, sat í stjórn samtakanna 1998–2004 og skipulagði ásamt prófessor Harold Demsetz fund samtakanna í Reykjavík í ágúst 2005.

Á fundinum tók Hannes tvisvar til máls. Á málstofu um hagstjórn á Indlandi var því lýst, hvernig menntamenn úr valdastéttinni tóku við völdum úr höndum Breta árið 1947 og komu á þunglamalegu kerfi skrifræðis og áætlunarbúskapar, þótt þeir varðveittu öll ytri merki lýðræðis. Hannes spurði, hvort ekki hefði verið heppilega að færa völdin til sjálfstjórnarsvæða, jafnt svæða undir beinni stjórn Breta, sem hefðu orðið lýðveldi, og furstadæma eins og Hyderabad og Mysore, en valdastéttin lagði þau undir sig með hervaldi skömmu eftir stofnun Indlands. Þá hefði ef til vill sprottið upp samkeppni um stjórnarhætti í stað þess, að allir væru neyddir undir sama kerfi, sem smíðað var af vinstri sinnuðum kennurum indversku valdastéttarinnar í Lundúnum, Oxford og Cambridge. Á málstofu um Nóbelsverðlaunin til Hayeks árið 1974, fyrir fimmtíu árum, sagði Hannes frá heimsókn Hayeks til Oxford vorið 1983, þar sem Hannes og félagar hans báðu um leyfi til að stofna Hayek Society til skrafs og ráðagerða. „Já, ef þið lofið mér að verða ekki hayekistar,“ svaraði Hayek. „Ég hef tekið eftir, að marxistarnir eru miklu verri en Marx og keynesverjarnir miklu verri en Keynes.“

Á fundinum fóru norrænu þátttakendurnir í kvöldverð á veitingastað eitt kvöldið og tóku með sér þýskan hagfræðing, Kristian Niemietz, sem átti skömmu seinna að tala á Íslandi. Frá v. David Andersson, Svíþjóð og Taívan, dr. Kristian Niemietz, dr. Lars Peder Nordbakken, Noregi, dr. Nils Karlson, Svíþjóð, próf. Ragnar Árnason, próf. Anna Agnarsdóttir (eiginkona Ragnars), Susanne Enger (eiginkona Karlsons), Svíþjóð, próf. Hannes H. Gissurarson og Håkan Gergils, Svíþjóð.

Comments Off

Hannes: Kjósendur gegn valdastéttinni

Í upptökuherbergi Frosta er mynd af gömlum vini Hannesar, Davíð Oddssyni.

Hannes H. Gissurarson, prófessor emeritus í Háskóla Íslands, var í hlaðvarpi Frosta Logasonar 19. september 2024. Hann kvað kosningar í mörgum Evrópuríkjum sýna fernt: 1) Kjósendur sætta sig ekki við óheftan innflutning fólks frá múslimaríkjum, ef og þegar það neitar að laga sig að aðstæðum í gistilandinu. 2) Þeir sætta sig ekki við aukna miðstýringu og færslu valds frá þjóðríkjum til skriffinnskubáknsins í Brüssel. 3) Þeir sætta sig ekki við, að menntamennirnir, sem hafa lagt undir sig skóla og fjölmiðla, berjist gegn vestrænum gildum og fyrir afturköllunarfári (cancel culture) og vælugangi (wokeism). 4) Þeir sætta sig ekki við, að Kínaveldi hafi ótakmarkaðan aðgang að vestrænum neytendum, en brjóti um leið leikreglur hins frjálsa markaðar. Í Evrópu væru venjulegir kjósendur að rísa upp gegn hrokafullri valdastétt. Hannes kvað lausnina á stríðinu í Úkraínu vera vopnahlé, en eftir það gætu íbúar umdeildra svæða kosið, hvort þeir vildu frekar vera í Úkraínu eða Rússlandi, eins og íbúar Slésvíkur kusu um það árið 1920, hvort þeir vildu vera í Danmörku eða Þýskalandi. Hann kvað lausnina á átökum Ísraelsmanna og Palestínu-Araba ekki vera tvö ríki, heldur eitt ríki, Ísrael, sem veitti hins vegar svæðum Palestínu-Araba víðtæka sjálfstjórn, svipað og Finnland veitir íbúum Álandseyja. Í innflytjendamálum taldi Hannes, að gera yrði greinarmun á ríkisborgurum annars vegar og öðrum innflytjendum og hælisleitendum hins vegar. Í réttarríki mætti ekki mismuna ríkisborgurum, en ríki hefðu ekki sömu skyldur við aðra innflytjendur og hælisleitendur. Til greina gæti komið að greiða ríkisborgurum, sem ekki gætu lagað sig að vestrænum gildum, fyrir að dvelja í upprunalöndum sínum.

Comments Off

Hannes: Hvers vegna náðu Danir meiri árangri en Írar?

Hannes H. Gissurarson bar saman kenningar Edmunds Burkes annars vegar og þriggja norræna hugsuða hins vegar í fyrirlestri í Dyflinni 17. september 2024. Hann rifjaði upp, að Tacitus og Montesquieu höfðu báðir lýst tveimur norrænum hugmyndum, að konungar væru settir undir sömu lög og þegnar þeirra og að setja mætti þá af, brytu þeir alvarlega gegn þessum lögum. Þessar hugmyndir kæmu skýrt fram í Heimskringlu Snorra Sturlusonar. Þrír breskir hugsuðir hefðu bundið þær í kerfi, John Locke, David Hume og Adam Smith, og með þeim hefði orðið til klassísk frjálshyggja. Hún hefði hins vegar greinst í íhaldssama og róttæka frjálshyggju í frönsku stjórnarbyltingunni, og hefði Burke gerst mælskur talsmaður hinnar íhaldssömu.

Tveir áhrifamestu og merkustu frjálshyggjumenn Norðurlanda á átjándu og nítjándu öld, þeir Anders Chydenius og Nikolai F. S. Grundtvigm hefðu báðir verið íhaldssamir frjálshyggjumenn, andvígir frönsku stjórnarbyltingunni, en stuðningsmenn málfrelsis og viðskiptafrelsis. Grundtvig hefði þýtt rit Snorra Sturlusonar á dönsku og lagt áherslu á hinn norræna menningararf. Fróðlegt væri að bera saman Írland og Danmörku á nítjándu öld, því að löndin hefðu búið við svipaðar aðstæður og auðlindir. Ein ástæða til þess, að Danir náðu þá meiri árangri en Írar, var, að þeir réðu eigin málum og þjóðin var samstæð, ekki síst vegna þess átaks í skólamálum, sem Grundtvig beitti sér fyrir. Enn ættu hugmyndir Grundtvigs fullt erindi til nútímamanna, ekki síst þjóðleg frjálshyggja hans. Á meðal annarra ræðumanna á þinginu, sem hugveitan New Direction í Brüssel hélt, var Íslandsvinurinn Daniel Hannan, barón af Kingsclere.

Glærur Hannesar í Dyflinni

Comments Off

Tupy: Því fleira fólk, því betra

Sumarið 2022 kom út bókin Superabundance; the Story of Population Growth, Innovation, and Human Flourishing on an Infinitely Bountiful Planet, sem þýða mætti sem Ofurallsnægtir: Sagan um fólksfjölgun, nýsköpun og mannlegan þroska á sígjöfulli reikistjörnu. Er hún eftir þá dr. Marian Tupy, sérfræðing í Cato-stofnuninni í Washington-borg og hagfræðiprófessorinn Gale Pooley. Þar setja þeir fram tvær meginkenningar: 1) Fólksfjölgun þarf ekki að vera áhyggjuefni, því að við frjálst atvinnulíf skapar hver nýr einstaklingur meiri verðmæti en hann neytir. Auðlindir eru síður en svo að ganga til þurrðar. 2) Framfarir hafa orðið miklu meiri og örari en kemur fram í venjulegum mælingum á hagvexti. Miða á við tímaverð gæða, ekki peningaverð þeirra, en með tímaverði eiga höfundar við þann tíma, sem það tekur að vinna fyrir gæðunum.

Fyrri kenninguna staðfestir reynslan. Hrakspár í Endimörkum vaxtarins (The Limits to Growth) og Heimi á helvegi (A Blueprint for Survival), sem báðar komu út á Íslandi árið 1973, hafa ekki ræst. Framleiðsla matvæla hefur vaxið hraðar en fólki hefur fjölgað. Auðlindir hafa ekki heldur gengið til þurrðar, því að hvort tveggja er, að nýjar auðlindir hafa fundist og að hinar gömlu eru nýttar miklu betur en áður. Ef til dæmis er smíðuð ný vél, sem eyðir helmingi minna eldsneyti en hin gamla, sem notuð var í sama tilgangi, þá jafngildir það því, að eldsneytisbirgðir í þessar þarfir hafa tvöfaldast. Seinni kenninguna er auðvelt að skilja. Ef brauðhleifur kostar 200 krónur, en neytandi hans fær 2.000 krónur á tímann, þá er tímaverð hans sex mínútur. En ef hleifurinn hækkar í 220 krónur og tímakaup neytandans í 2.400 krónur, þá hefur tímaverð hans lækkað í fimm mínútur og 24 sekúndur. Eitt besta dæmið um feikilegar framfarir, sem komast ekki alltaf til skila í venjulegum hagmælingum, er verðið á ljósi. Árið 1800 kostaði 5,37 vinnustundir venjulegs verkamanns að kaupa sér ljós í einn klukkutíma. Nú kostar það innan við 0,18 sekúndur.

Marian Tupy kom til Íslands í júlí 2024 og talaði á fjölsóttum fundi í Háskóla Íslands 24. júlí. Að ræðu hans lokinni stjórnaði Hannes H. Gissurarson, prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands, umræðum, sem voru hinar fjörugustu. Meðal annars var Tupy spurður, hvort orðið hefðu framfarir í siðferðilegum efnum, eins og þeir Pooley héldu fram í bók sinni, þegar höfð væri í huga hin hræðilega saga tuttugustu aldar, útrýmingarbúðar nasista í Auschwitz og þrælkunarbúðir kommúnista í Karaganda. Tupy svaraði því til, að líklega hefði mannsskepnan lítt skánað, en þó yrði að meta illvirki hlutfallslega, taka tillit til fólksfjölgunar. Miklu minna væri um grimmd hlutfallslega en á fyrri öldum.

Daginn fyrir fundinn birti Hannes grein í Morgunblaðinu um boðskap þeirra Tupys og Pooleys:

Comments Off

Ridley: Líklega lak veiran af rannsóknarstofu í Wuhan

Líklega lak kórónuveiran, sem olli heimsfaraldri árin 2020–2021, út af rannsóknarstofu í Wuhan, þótt erfitt sé eða ókleift að sanna það, sagði breski vísindarithöfundurinn dr. Matt Ridley á rabbfundi í Háskóla Íslands 17. júlí 2024, sem RSE, Rannsóknarmiðstöð í samfélags- og efnahagsmálum stóð að. Hann kvaðst í upphafi hafa talið sennilegast, að veiran hafi stokkið úr dýrum í menn, eins og áður hefur gerst. En engin slík leið hafi fundist, og sífellt fleiri vísbendingar hafi komið fram um leka af rannsóknarstofu þeirri í Wuhan, sem fæst við veirurannsóknir. Vandinn sé hins vegar sá, að kínversk stjórnvöld neiti að veita upplýsingar og reyni að torvelda rannsóknir óháðra aðila á upptökum veirunnar. Ridley er dýrafræðingur að menntun og gaf ásamt sameindalíffræðingnum Alinu Chan út bókina Viral, Veirufaraldurinn, árið 2021, þar sem þau velta fyrir sér upptökum faraldursins. Notaði hann tækifærið í heimsókn sinni á Íslandi til að færa forseta Íslands, dr. Guðna Th. Jóhannessyni, bókina á Bessastöðum.

Hannes H. Gissurarson, prófessor emeritus í Háskóla Íslands, stjórnaði fundinum. Eftir framsögu sína var Ridley spurður, hvað gæti hugsanlega afsannað lekakenninguna. „Dýr, sem hefði smitast, áður en veiran stökk yfir í menn,“ svaraði hann. Ridley kvað 28 milljónir manna á að giska hafa látist af völdum kórónuveirunnar. Jafnframt olli hún ómældum kostnaði og röskun á lífi fólks og stefnu. Vonlegt væri, að kínversk stjórnvöld eða veirufræðingar á þeirra vegum væru treg að axla ábyrgð á slíkum ósköpum. Hitt væri verra, að sumir veirufræðingar á Vesturlöndum hefðu kerfisbundið reynt að leyna vísbendingum um hugsanlegan leka, þótt þeir vissu vel af þeim, eins og komið hefði fram í tölvuskeytum þeirra í milli. Morgunblaðið gat Ridleys lofsamlega í leiðara 20. júlí. Dr. Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, birti af því tilefni grein í blaðinu 23. júlí, þar sem hann kvað lekatilgátu Ridleys skemmtilega, en í eðli sínu óvísindalega, þar eð ekki væri unnt að afsanna hana vegna skorts á gögnum. Hannes H. Gissurarson svaraði í Morgunblaðinu 27. júlí, að tilgátan væri einmitt afsannanleg, eins og Ridley hefði bent á. Hefði fundist smitleið úr dýrum í menn, eins og gerst hefði í fyrri faröldrum, hefði það afsannað hana. Skorturinn á gögnum væri raunar enn ein vísbendingin um, að lekakenningin væri líkleg, því að hann væri kínverskum stjórnvöldum að kenna. Þau hegðuðu sér eins og þau hefðu einhverju að leyna.

Hannes skrifaði grein um Ridley og bækur hans í Morgunblaðið 16. júlí:

Ridley er tíður gestur á Íslandi. Hann flutti erindi í Háskóla Íslands árið 2012 um bók sína, The Rational Optimist. Henni var síðan snarað á íslensku, og gaf Almenna bókafélagið hana út árið 2014 undir heitinu Heimur batnandi fer, og kom Ridley til landsins af því tilefni, hélt tölu og sat kvöldverð heima hjá Davíð Oddssyni, ritstjóra Morgunblaðsins og fyrrverandi forsætisráðherra. Eftir fundinn nú í ár hélt prófessor Hannes H. Gissurarson honum kvöldverð á Grillmarkaðnum, og sátu hann einnig Magnús Sigurðsson, sem veitt hefur með Ridley á Íslandi, Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, Jónas Sigurgeirsson, framkvæmdastjóri AB, þau Einar Sigurðsson og Halla Sigrún Mathiesen, stjórnarmenn í RSE, og Þór Whitehead, prófessor emeritus í sagnfræði í Háskóla Íslands.

 

Comments Off

Hannes: Færum valdið til fólksins

Hannes H. Gissurarson, prófessor emeritus í Háskóla Íslands, var í hlaðvarpi Gísla Freys Valdórssonar, Þjóðmálum, 2. júlí 2024 og kom víða við. Hann sagði skjóta skökku við, að ríkið hefði þanist út, eftir að snarminnkað hefði þörf á því, enda hefðu tækniframfarir og aukin velsæld leyst úr mörgum málum. Mjög hefði til dæmis dregið úr fátækt í heiminum, og á Íslandi væri hún hverfandi. Hann kvað litlar áhyggjur þurfa að hafa af fólksfjölgun, því að hver viðbótareinstaklingur gæti skapað meiri verðmæti en hann neytti, fengju menn frelsi til að skapa. Eina skilvirka þróunaraðstoðin væri fólgin í frjálsum viðskiptum, meðal annars fjárfestingum vestrænna fyrirtækja í þróunarlöndum og aðgangi fyrirtækja í þróunarlöndum að mörkuðum á Vesturlöndum. Umhverfisöfgasinnar gerðu sér ekki grein fyrir því, að vernd umhverfisins krefðist verndara, eigenda, sem hefðu hag af því að gæta umhverfisins og bæta það. Hannes taldi eina helstu afleiðingu bankahrunsins á Íslandi árið 2008 hafa verið, að vald hefði færst frá kjörnum fulltrúum almennings til embættismanna og eftirlitsstofnana. Mestu máli skipti þó að dreifa valdinu, færa það til fólksins, einstaklinganna, með meira svigrúmi og lægri sköttum. Hann minnti á, að þeir Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefðu náð miklum árangri í samningum við kröfuhafa þeirra banka, sem féllu í bankahruninu. Þessir kröfuhafar hefðu orðið að skila verulegum hluta af feng sínum.

Comments Off